Hinsegin Dagar: Vindpoki í regnbogalitum á þaki Þóroddsstaða

Nokkuð óvenjulegur gay-pride fáni blaktir nú við hún á þaki eins elsta hússins í Skógarhlíð í Reykjavík, burstabænum Þóroddsstöðum. Sem kunnugt er þá hófst hátíðin Hinsegin dagar í gær en hún nær hápunkti með gleðigöngunni á laugardag. Fáninn litskrúðugi blasir við ökumönnum sem fara um Lönguhlíð eða fjölfarinn hluta Bústaðarvegar niður með Öskjuhlíð.

 

Vert-Gay-Pride-6

 

Ekki fyrir flugmenn til að átta sig á hvaðan vindurinn blæs


Alla jafna blaktir hefðbundinn hvítur vindpoki með rauðum röndum á þaki hússins og vekur hann jafnan mikla athygli vegfarenda sem margir hverjir spyrja um tilgang hans. Vindpokinn á þaki Þóroddsstaða er, þrátt fyrir nálægð við Reykjavíkurflugvöll, ekki þar til að auðvelda flugmönnum að átta sig á vindátt heldur er um að ræða vörumerki markaðsstofunnar Vert sem er með starfsemi sína í húsinu. Þetta er því í raun fáni en ekki vindpoki þó að hann sé sömu gerðar og þeir sem standa við flugvelli landsins.

 

Vert-Gay-Pride-4

 

Eldri borgarar á Vopnafirði saumuðu vindpokann endurgjaldslaust
Í febrúar síðastliðnum datt starfsmönnum markaðsstofunnar, í hug að gaman væri að skipta pokanum út fyrir vindpoka í regnbogalitunum í tengslum við Hinsegin daga og flagga til stuðnings réttindum samkynhneigðra. Ólafur Valgeirsson hjá Jónsveri, sem er vinnustaður fyrir eldri borgara á Vopnafirði og eini framleiðandi vindpoka á Íslandi, var svo hrifinn af hugmyndinni að hann ákvað að Jónsver myndi sauma vindpokann endurgjaldslaust. Byrjuðu starfsmenn Jónsvers því strax í vor að safna afskurði úr öðrum fánum sem verið var að sauma fyrir ýmsa viðskiptavini þar til að þeir áttu afskurð í öllum litum regnbogans og hægt var að sauma þennan sérstaka regnbogafána.

Það má telja næsta öruggt að þetta sé eini regnbogafáni sinnar tegundar á Íslandi – og jafnvel í heiminum.

Mynd: Hörður Harðarson, Stefán Gunnarsson og Aðalheiður Snæbjarnardóttir stilltu sér upp með fánann rétt áður en honum var komið fyrir á þaki Þóroddsstaða með hjálp körfubíls.

SHARE