Húsfyllir á tískusýningu Hildar Yeoman

Ljósmynd: Hulda Sif

Gróska í hönnun á Íslandi fer sívaxandi ár frá ári ef marka má nýafstaðinn Hönnunarmars sem hefur náð að hasla sér völl sem einn af vinsælustu viðburðum ársins. Fyrir hönnuðina sjálfa hefur Marsinn gríðarlega mikla þýðingu og er nokkurskonar uppskeruhátíð þar sem þeir fá tækifæri til að kynna afrakstur vinnu sinnar. Erlend hönnunarfyrirtæki og fjölmiðlar koma hingað í auknum mæli sem hefur haft í för með sér ný og spennandi tækifæri fyrir suma af okkar hæfileikaríku hönnuðum. Einn af þeim er Hildur Yeoman fatahönnuður.

Færri komust að en vildu á sýningu Hildar í Hafnarhúsinu á Hönnunarmars þar sem hún kynnti nýjustu fatalínu sína sem kemur á markað nú í haust. Búist var við 300 manns en það mættu rúmlega 600 og endaði með því að loka þurfti safninu sakir plássleysis. Hildur er að vonum mjög ánægð og þakklát með viðbrögðin á nýju fatalínunni sinni, sem hún kýs að nefna YULIA í höfuðið á langömmu sinni.

Innblásturinn er einmitt sprottin úr fjölskyldusögu Hildar. Langamma hennar, Yulia, húsmóðir frá New Jersey stakk af frá fjölskyldu sinni til að ferðast um Bandaríkin í félagskap utangarðsmanna á mótorhjólum. Á sýningu sinni tókst Hildi svo sannarlega að túlka uppreisn langömmu sinnar gegn hefðbundnum lífsgildum samfélagsins. Hún bauð áhorfandanum upp á óbeislaðann frumkraft í bland við fegurð og óhefðbundna nálgun á fyrirbærinu tískusýning. Í raun var um einskonar gjörning að ræða þar sem nokkur módelin voru líka dansarar og þær túlkuðu af miklum eldmóð frelsi einstaklingsins með hreyfingum sínum og orðum. Ef marka má fagnaðarlæti áhorfanda sem brutust út í lok sýningarinnar var fólk nokkuð sátt með framlag Hildar. Spennandi verður að fylgjast með þessum unga og efnilega hönnuði í framtíðinni.

Í haust verður hægt að nálgast fataínu Hildar í Kiosk á Laugavegi 65 en þar eru nú þegar fáanlegir skartgripir eftir hana ásamt prjónaflíkum.

Þeir sem hafa áhuga á að sjá meira frá Hildi er bent á heimsíðu hennar www.hilduryeoman.com

SHARE