Hvað er einkyrningasótt?

Einkirningasótt (kossasótt) er veirusýking af völdumEpstein-Barr veirunnar. Sýkingin leggst á börn og ungt fólk. Hjá ungum börnum er hún oft einkennalaus en veruleg einkenni geta komið fram í einstaklingum á aldrinum 10-25 ára og verið sýnileg í allt að 1-3 mánuði.

Hver er orsökin?

Ebstein-Barr veiran finnst í munnvatni og getur því smitast milli einstaklinga með kossum. Veiran getur einnig borist með andrúmsloftinu. Frá smiti líða venjulega 30-50 dagar þar til einkennin koma fram.

Hver eru einkennin?

  • Áður en hin raunverulegu sjúkdómseinkenni koma fram geta liðið 1-2 vikur þar sem sjúklingurinn er aðeins með flensueinkenni.
  • Hálsbólga með bólgnum hálskirtlum þöktum hvítum þykkum skánum.
  • Hiti.
  • Mikil þreyta og slappleiki.
  • Verkir í vöðvum.
  • Höfuðverkur.
  • Svitaköst.
  • Magaverkir, sem þá geta stafað af miltisstækkun.
  • Bólgnir og aumir eitlar í hálsi, handarkrikum og í nárum.
  • Lifrin getur bólgnað og blóðprufur geta sýnt fram á truflun í starfsemi hennar. Fólk getur jafnvel fengið gulu.
  • Útbrot geta komið fram en þau geta einnig stafað af ofnæmi fyrir sýklalyfjum. Sjúklingum eru stundum gefin sýklalyf því fyrstu einkenni benda til þess að um bakteríusýkingu sé að ræða.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

Greiningin byggist á sjúkdómseinkennum og blóðsýni. Einnig er hægt að segja til um hvort ákveðin mótefni gegn veirunni séu til staðar sem þá myndi benda til þess að sýking hefði átt sér stað nýlega.

Hvað er til ráða?

  • Særindi í hálsi er hægt að lina með volgum drykkjum.
  • Fyrir þá sem eru með hita er mjög gott að drekka mikinn vökva.
  • Fólk ætti að fara vel með sig á meðan að slappleikinn er sem mestur og forðast líkamlegt erfiði.

Er óhætt að stunda íþróttir á meðan veikindum stendur?

Fræðilega séð getur mikið líkamlegt erfiði, eins og íþróttir, skaðað miltað. Því er mælt með því að sjúklingur stundi ekki íþróttir fyrr en fjórum vikum eftir að hann ert orðin frískur. Vegna mikillar þreytu líða oft margir mánuðir áður en sjúklingurinn nær fyrri kröftum.

Batahorfur

Einkyrningasótt stendur yfirleitt yfir í 2-4 vikur og er hættulaus ef ráðleggingum er fylgt. Mótefni sem myndast gegn veirunni endast ævilangt. Þess vegna er ekki hægt að fá einkyrningasótt nema einu sinni. Í 3% tilfella hefur sjúkdómurinn fylgikvilla. Sjaldgæfir fylgikvillar eru:

  • Öndunarerfiðleikar.
  • Lungnabólga.
  • Rifið milta, en það er afar sjaldgæft (0,1-0.2%).
  • Sjúkdómar í miðtaugakerfi t.d. heilahimnubólga og heilabólga.
  • Blóðleysi og fækkun á blóðflögum.
  • Í mjög fáum tilfellum verður sjúkdómurinn langvinnur.

 

Hver er meðferðin?

Það er ekki til nein lyfjameðferð sem hefur áhrif á sýkingar af völdum Epstein-Barrveirunnar.

 

SHARE