Hvað er til ráða við appelsínuhúð

Appelsínuhúð (e. cellulite) er sérstök áferð á húðinni sem minnir á appelsínubörk í útliti. Þessi áferð stafar af byggingu vefja í undirhúðinni. Þar er um að ræða afbrigði af fituvef sem ásamt bandvef myndar bylgjur. Í öllum fituvef og öðrum vefjum er svokallaður millifrumuvökvi en úr honum fá frumurnar næringu sína og í hann berast úrgangsefni frá þeim. Þegar allt gengur eðlilega fyrir sig eru úrgangsefni flutt burt úr vefnum með blóðrásinni og húðin verður slétt og felld á yfirborðinu vegna fitulagsins. Léleg blóðrás getur hins vegar leitt til þess að fituefni, vökvi og eiturefni safnast fyrir djúpt í húðinni í stað þess að berast burt úr vefnum. Það hefur í för með sér að bandvefurinn á milli fitufrumnanna þykknar og harðnar. Þessar breytingar á bandvefnum ásamt bólgnum fitufrumum koma fram á yfirborði húðar sem hnútar og dældir, öðru nafni appelsínuhúð. Það er ýmislegt ólíkt með venjulegri fitu og fitu í appelsínuhúð. Fita í venjulegri húð myndar lag undir allri húðinni en appelsínuhúð myndast hins vegar aðeins á ákveðnum svæðum í húðinni – aðallega á lærum, rassi, kvið og brjóstum kvenna en á hálsi og kvið karla sem þó fá miklu síður appelsínuhúð en konur. Auk þess að vera hnúðótt í stað þess að vera slétt eins og venjuleg fita veitir fitan í appelsínuhúð hvorki hitaeinangrun né höggdeyfingu.

Orsakir

Ýmsar skýringar hafa verið settar fram á því hvað veldur appelsínuhúð, en þó er ekki vitað með vissu hver orsökin er. Appelsínuhúð virðist að einhverju leyti vera háð erfðum. Þær konur sem eru „dæmdar“ til að fá appelsínuhúð verða fyrst varar við hana á unglingsárum og eykst hún síðan með aldrinum þegar undirhúðin þynnist. Appelsínuhúð myndast oft hjá konum stuttu eftir barnsburð og einnig hjá konum sem taka getnaðarvarnarpilluna. Þetta tvennt, ásamt því hversu sjaldgæf appelsínuhúð er meðal karla, bendir til þess að kvenhormónið estrógen komi við sögu við myndun hennar. Þótt ekki sé að fullu ljóst hvað orsakar appelsínuhúð eru eftirfarandi staðreyndir þó þekktar:

  • Offita veldur ekki appelsínuhúð – margir þolendur eru grannir á meðan margir sem eru of þungir eru lausir við hana.
  • Eldra fólk hefur meiri appelsínuhúð en yngra fólk, þrátt fyrir að hún sé vel þekkt hjá unglingum.
  • Engin lækning er til við appelsínuhúð, enda er hér ekki um sjúkdóm að ræða heldur ástand.

Sjá einnig: Instagram-síða sem vekur athygli á fegurðinni sem finnst í slitum og appelsínuhúð

Hvað er til ráða?

Miklar rannsóknir hafa farið fram til að kanna hvernig ráða megi bót á appelsínuhúð og alls konar krem, áburðir og olíur útbúin til þess að vinna á henni. Þó hefur ekki verið hægt að sýna fram á að neitt þeirra uppræti appelsínuhúð. Heilbrigt líferni sem miðar að því að örva blóðrásina er vænlegra til árangurs. Hér á eftir eru talin upp nokkur ráð sem má reyna:

  1. Hugsaðu um mataræðið:
    • Varastu ofþornun og gakktu úr skugga um að þú fáir nægilegt vatn á hverjum degi (7 glös á dag).
    • Forðastu ofneyslu á kaffi, áfengi og mjög fituríkri fæðu, eins og súkkulaði og öðru sælgæti.
    • Vertu viss um að fá nóg af trefjaefnum úr fæðunni. Gott er að miða við 30 grömm á dag.
    • Borðaðu ferska ávexti reglulega.
  2. Hættu að reykja. Reykingar valda æðaþrengingu og hægja því á blóðrásinni.
  3. Forðastu óþarfa lyf, einkum lyf sem hafa áhrif á geð og á vatnsbúskap (laxerandi lyf og vatnspillur).
  4. Stundaðu líkamsrækt reglulega, helst úti í fersku lofti. Hún örvar blóðrás og hefur jákvæð áhrif á líkamann.
  5. Ekki leyfa streitu að ná tökum á þér. Gerðu slökun að ómissandi dagskrárlið á hverjum degi. Streita leiðir til spennu í vöðvum og bandvef í kring og ýtir undir myndun appelsínuhúðar.

Þessi fimm ráð miða að því að halda blóðrásinni virkri þannig að hún sjái um að losa líkamann við úrgangsefnin sem eru talin koma við sögu þegar appelsínuhúð myndast. Auk þess mun þér líða miklu betur, en ekki vænta kraftaverks. Eins og áður sagði er ekki vitað nákvæmlega hvað veldur appelsínuhúð en það er til einskis að eyða peningum í dýrar snyrtivörur sem auglýstar eru sem töfralausnir. Töfralausnir eru ekki til.

Höfundur greinar:

SHARE