Hvað eru frunsur?

Frunsur eru ekkert hættulegar en hvimleiðar og koma einhvern veginn alltaf á versta tíma. Enda er meiri hætta á að fá þær þegar við erum undir miklu álagi.  Frunsur eru mjög algengur sjúkdómur af völdum veiru sem nefnist Herpes simplex. Frunsan er eins konar klasi af litlum vökvafylltum blöðrum á bólginni húð. Oft fylgja frunsunni verkir og eymsli á svæðinu. Blöðrurnar opnast og verða að sári sem síðan grær en skilur gjarnan eftir sig ör. Frunsur hafa tilhneigingu til að koma aftur.

Til eru tvær tegundir herpesveirunnar sem geta herjað á bæði húð og slímhúð. Algengari tegundin (Herpes simplex virus 1; HSV-1) sýkir yfirleitt munn og varir en hin tegundin (Herpes simplex virus 2; HSV-2) finnst aðallega umhverfis kynfæri. Um það bil 80% fullorðinna hafa mótefni gegn HSV-1 veirunni í blóði og u.þ.b. 25% hafa mótefni gegn HSV-2 veirunni.

Orsökin

Herpesveiran notar taugagreinar til að flytja sig frá ysta lagi húðarinnar til taugarótanna þar sem hún dvelur óvirk þar til eitthvað verður til þess að hún verður virk aftur og skríður upp á yfirborðið. Ef ofnæmiskerfið er undir álagi, t.d. af völdum kvefs, mikils sólarljóss eða kulda, getur veiran orðið virk aftur. Þá skríður hún fram taugagreinina, undir yfirborð húðarinnar og myndar frunsu. Frunsur smitast eingöngu við snertingu s.s. við kossa eða kynlíf. Fyrstu frunsurnar myndast oft fyrir 3-5 ára aldur.

Sjá einnig: Hvað er RS veira?

Einkennin

Sýkingin er einstaklingsbundin. Sumir fá engin eða væg einkenni. Hjá börnum getur sýkingin lýst sér sem sármyndun í slímhúð munnhols og koks (gingivo stomatitis herpetica acuta) sem getur valdið vanlíðan og hita.

Einni til þremur vikum eftir fyrsta smit myndast frunsa sem grær á nokkrum vikum.

Fyrsta einkenni frunsu er óþægileg, stingandi og ertandi tilfinning í húðinni. Eftir stuttan tíma myndast vökvafylltar blöðrur í húðinni. Einkennandi er hrúður sem myndast á sárinu og dettur yfirleitt af eftir 8-10 daga.

Smithætta er meðan vessar úr frunsunni eða sárið er opið.

Þótt mótefni hafi verið myndað gegn veirunni Herpes simplex eru 20% líkur á að frunsu verði vart síðar.

Greining

Sjúkrasagan og útlit útbrotanna eru helsta greiningartækið. Hægt er að greina veiruna með stroki úr frunsusárinu.

Hvað ber að forðast?

Að sárið sýkist af bakteríum.

Að sýkingin breiðist til augnanna, getur valdið blindu.

Ef barnaexem er fyrir er hætta á að frunsurnar breiðist um mikinn hluta líkamans. Það er þó mjög sjaldgæft.

Alvarlegar frunsusýkingar geta verið merki um undirliggjandi sjúkdóm sem veikir ónæmiskerfið, t.d. lungnabólgu eða alnæmi.

Batahorfur

Það er mjög einstaklingsbundið hvernig herpesveirusýkingin hegðar sér. Sumir fá sjaldan eða aldrei frunsur en aðrir fá þær oft. Það jákvæða er að tíðni frunsusýkinga lækkar yfirleitt með aldrinum.

Hvað er hægt að gera?

Handþvottur er mjög mikilvægur eftir snertingu við varir eða sýkt svæði. Herpesveiran þrífst alls staðar á líkamanum, einnig á fingrum og kynfærum.

Mikilvægt er að kroppa ekki í frunsuna. Við það getur hún breiðst út og þá eykst hættan á bakteríusýkingu.

Almennt heilbrigði, fjölbreytt fæði, hreyfing og nægur svefn styrkir ónæmiskerfi líkamans.

Einstaklingsbundið er hvaða kringumstæður leiða til frunsumyndunar. Sumir fá frunsur vegna sólarljóss, tíðablæðinga eða hita en enginn sérstakur orsakavaldur greinist hjá öðrum.

Meðferðarmöguleikar

Til eru nokkrar gerðir lyfja til að bera á útvortis, mörg þeirra er hægt að fá án lyfseðils í næsta apóteki. Þessi lyf geta stytt líftíma frunsunnar, því fyrr sem meðferð hefst því meiri líkur eru til þess að takist að stytta líftímann. Í erfiðum og tíðum tilfellum er hægt að gefa lyf í töfluformi en það verður læknir að gera. Einstaklingar sem fá oft frunsu þekkja orðið einkennin og geta því frekar brugðist hratt við og þannig stytt tímann sem það tekur frunsuna að ganga yfir.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE