Hvað ungur nemur gamall temur

Við versluðum yfirleitt mandarínur þegar aðventan læddist í garð, ég og hann afi minn, meðan ég var enn barn að aldri. Keyptum snúð með bleikum glassúr og smurðum smjeri á trýnið á kettinum. Hlógum þegar dýrið sleikti út úr, hlustuðum andaktug á upplestur ljóða af lúnum kassettum og svo tók afi minn nokkur vel valin lög á gamla píanóið, iðulega frumsamin verk sem ég er löngu búin að gleyma. En lögin hans voru falleg. Kveiktum á kertum meðan við horfðumst hátíðleg í augu, gamall maður með lúnar hendur og forvitin dótturdóttir sem fékk iðulega súkkulaðimola í skóinn.

Hann var fallegur maður, hann afi minn og hafði þann fágæta eiginleika að geta töfrað fram fjársjóð úr hverri krónu, sem hann vandlega velti milli handa sér. Ríkisstarfsmaður, stoltur af lögregluhúfunni og ferlinum sem hann hóf sem ungur maður í umferðargæslu og lauk með sæmd við eftirlaunamarkið.

Hann afi minn átti kannski ekki margar krónurnar en hann fór vel með þær allar og nýtti til þess að festa kaup á bókasafnskorti, sundlaugamiðum og bensíni á gamla skrjóðinn sem hann fyllti á tyllidögum og dreif alla leið upp í Bláfjöll. Snjóþotan lúrði iðulega í aftursætinu meðan forvitin barnsaugun hvíldu á veginum og fylgdust með íslensku húsdýrunum sem jórtruðu rólyndislega rétt við vegakantinn og vörpuðu þjóðsagnarkenndum ljóma á hrjóstruga náttúruna.

Í þá daga voru engin afþreyingartæki til sem fest voru við framsæti bifreiða, engar þrívíðar teiknimyndir voru komnar á markað og tölvuleikir voru enn fjarlæg framtíðarsýn. Þess í stað sagði afi mér sögur á leið okkar og sjálft nartaði ég í rauðan Opal og hló, spurul og ræðin, barn sem naut samvista við gamlan mann sem virtist hafa allan tímann í veröldinni til að skeggræða og snurfusa heimsmyndina, snyrta ásjónu hugtaka á borð við árstíðir og hegðun mannfólksins.

Hann afi minn átti ekki heiminn að færa mér í formi fjármuna þegar ég kom í heiminn, en hann samdi fyrir mig ljóð.

Ég hugsa stundum til afa míns þegar skammdegið hvolfist yfir. Ber aðferðafræði gamla mannsins saman við gnægtir nútímans og velti fyrir mér lystisemdum þeim sem í boði eru fyrir lítil börn í meðan aðventan gengur yfir, gleðinni sem færðist yfir lítið andlit sem ljómaði þegar jólasveinarnir voru settir út í gluggann í Rammagerðinni og ber saman við dýrðina sem í boði er fyrir börn og kosta svo margar krónur, gnægtaborð og freistingar sem erfitt er að standast og laða að; lokka lítil börn sem horfa biðjandi augum á vansvefta foreldra sem velta, líkt og fólkið mitt forðum daga, sem velti hverri krónu milli handa sér í þeirri þungu dýrtíð sem hátíðirnar fela í sér.

Minningarnar streymdu fram nú um helgina, þar sem ég sat með litla drengnum mínum og hló að ákefð sex ára barnsins þegar hann komst í piparkökuskálina, gleðinni sem fylgdi því að fara í grettukeppni og svo þeirri tilbreytingu sem fólgin var í að tölta út í nýfallinn snjóinn með stígvélin ein að vopni og flissa svo bergmálaði milli húsa í litla ævintýraþorpinu.

Fyrr þá um daginn hafði vinkona mín slegið á þráðinn og spurt mig hvort leið mín lægi ekki örugglega til höfuðborgarinnar, svo barnið gæti fengið að velja litrík leikföng á jólamarkaðinum. En bensíndroparnir voru ekki margir, klinkið í krukkunni var orðið ískyggilega magurt og þrátt fyrir fögur loforð um hreindýr í skóginum, sá ég ekki fram á að geta kostað ferðina sem eflaust  hefði útheimt einhverjar krónur.

Útskýrði þolinmóð fyrir bestu vinkonu minni, sem gekk gott eitt til með ábendingum sínum, að „minimalískt“ heimilishald okkar mæðgina samanstæði af hlátrasköllum, piparkökum í skál og stöku kakóglasi yfir aðventukransinum, sem minnir á fyrirheit spámanna Gamla Testamentsins og ferðagöngu hirðanna, sem sagt höfðu fyrir um komu frelsarans.

Ítrekaði fyrir sjálfri mér að þó ég geti seint talist sannkristin, þykir mér sem boðskapur aðventunnar, sem merkir komu Drottins, tapist oft í verslunargleði desembermánaðar og að útgjöldin keyri oft fram úr hófi og geti hæglega slökkt bros lítilla barna á helgasta tíma ársins, ef varlega er ekki farið.

Fannst ég eilítið forpokuð þegar ég afhýddi mandarínur og rétti drengnum mínum sem brosti, þverneitaði með öllu að freista drengsins frekar með gylliboðum um rándýrt ferðalag í eitthvað af kvikmyndahúsum borgarinnar. Sagði vinkonu minni í hálfum hljóðum að ég hefði ekki í hyggju að gefa í skóinn fyrr en á næsta ári og viðurkenndi að lokum að allt jólaskrautið er síðan í fyrra.

Það var sem ég heyrði enduróm af hugsjónum afa míns, þegar hún vinkona mín skellti upp úr og sagði mér að börnin hennar tvö hefðu fengið ansi stopult í skóinn undanfarin ár. Að sjálft lífsgæðakapphlaupið lifði í formi auglýsinga, en að ástin yrði hvorki keypt né seld.

Hún sagði mér að raunveruleg gæði væru fólgin í fegurð nándar og að ríkulegasta gjöf ástvina væri einlæg viðurkenning á mikilvægi nærveru þeirra sem næst okkur standa. Litli drengurinn minn, sem hafði setið annars hugar og maulað jólagóðgæti, meðan ég skeggræddi eðli og inntak aðventunnar við vinkonu mína í símann, virtist vera að taka undir orð hennar þegar hann lagði frá sér piparkökuskálina þegar símtalinu lauk og kyssti mig á kinnina.

Hugsi á svip velti ég fyrir mér þeim verðmætum sem krepputíðin felur í sér, þeim andlega vísdóm sem erfiðir tímar geta falið í sér ef rétt er á spilum haldið og viðhorf okkar til kærleika helst ósnortið, þrátt fyrir ógreidda reikninga.

Því vonin sjálf felur í sér ákveðin kraftaverk og öll él styttir upp um síðir.

Tengdar greinar:

Bráðum koma blessuð jólin

Andlegt heilbrigði um jólin

Heilsan á aðventunni

SHARE