Hver er þín fjölskylda?

Ég verð alltaf örlítið væmin og jafnvel líka svolítið meyr á þessum tíma árs. Mér finnst allsstaðar verið að tala um að þetta sé tíminn fyrir fjölskylduna að koma saman og kærleikurinn er allsráðandi. Umræðan um gjafir og hvað á að gefa hverjum er á öllum kaffistofum og mikil leynd er yfir þessu öllu saman. Alltaf er samt mikið grundvallaratriði að vera með fjölskyldunni. 

Mér verður oft hugsað til þeirra sem eiga ekki stóra fjölskyldu, eða eiga fjölskyldu sem er gegnsýrð af t.d. fjölskyldusjúkdómnum alkóhólisma, eða ágreiningi sem ekki er hægt að leysa innbyrðis. Ég þekki nokkur svoleiðis dæmi og því miður er þetta alltof algengt. Fjölskyldur sundrast út af peningum, baktali og oft á tíðum algjöru samskiptaleysi. Við erum svolítið þannig, við Íslendingar, að við erum hörð og ekkert stoppar okkur. Við eigum mörg erfitt með að tjá tilfinningar okkar, sér í lagi góðu tilfinningarnar. Við látum í okkur heyra ef við erum ósátt en eigum erfitt með að segja við þann sem er okkur næstur: „Fyrirgefðu, ég hafði rangt fyrir mér“ eða „Mig langar ekki að við séum ósátt og langar að hafa þig í lífi mínu“. Við eigum oft svo erfitt með að koma til baka og grafa stríðsaxirnar. Ágreiningar ná yfir gröf og dauða og fólk mætir ekki í jarðarfarir kannski, hjá manneskju sem var þeirra besti vinur eða vinkona árum saman áður en eitthvað gerðist sem olli þessari „fýlu“ ef svo má kalla.

Hvað sem það er þá getur verið svo djúpt á þessu í okkur þessum gallhörðu víkingum. Hvað veldur veit ég ekki. Mér varð það allt í einu ljóst, upp úr þrítugu að ég er ekki ódauðleg. Mér leið þannig þegar ég var yngri að ekkert gæti stöðvað mig og ekkert myndi nokkurn tímann gera það. Nú er ég alltaf að sjá það betur og betur, með hverju dauðsfallinu sem á sér stað í kringum mig, að þetta er allt eitthvað sem tekur enda (án þess að vilja hljóma eins og einhver dómsdagsspámaður).

Lífið er stutt og líður hraðar en okkur getur órað fyrir. Við eigum að halda fólkinu okkar nærri. Ef blóðskylda fjölskyldan okkar er tvístruð, búðu þér til þína eigin fjölskyldu. Það má! Fjölskylda er þinn innsti hringur, getur verið vinur eða vinkona, alveg eins og bróðir eða systir. Fólkið sem má sjá þig hlæja og gráta. Fólkið sem þú hringir fyrst í þegar eitthvað bjátar á.

Fjölskyldan mín samanstendur af blóðskyldum ættingjum og fólki sem ég hef kynnst á seinustu 10 árum. Fólk sem ég treysti og elska og vill hafa með mér í þessu ferðalagi sem lífið er. Ekki misskilja mig, ég er ekki að halda því fram að ég sé bara eitthvað gangandi tilfinningabúnt sem elska alla, alls ekki. En ég hef æft mig í þessu seinustu ár, að tjá líka góðu tilfinningarnar mínar. Ekki bara öskra og mótmæla þegar mér finnst að mér vegið. Ég þurfti að þjálfa mig upp í því að tjá jákvæðu tilfinningarnar mínar og láta fólk vita að ég kunni að meta þau. Þessi örlitla breyting hefur gert það fyrir mig að ég er nánari fólkinu mínu en nokkru sinni fyrr og kann að meta allar stundir með þeim, miklu betur en áður.

Hver er þín fjölskylda? Njóttu samverunnar með þeim um hátíðarnar.

Gleðilega hátíð

 

Tengdar greinar:

Hvað ungur nemur gamall temur

„Ég trúi ekki að ég sé að gera þetta!“

SHARE