Hverju á barnið eiginlega að trúa?

Ég hef vissulega skoðanir þó ég viðri þær ekki í gríð og erg á samskiptamiðlum, þó ég standi ekki keik uppi á lúnum ávaxtakassa og básúni predikanir um öll torg, vopnuð dreifimiðum og voldugum trefli meðan Vetur Konungur bítur í báðar kinnar. Ég hef skoðanir, þó ég kjósi oftlega að halda þeim fyrir mig.

Einhverjir kunna að segja hógværð mína þegar að opinberri umræðu kemur bera vott um linkind. Ég vil aftur á móti meina að ég beiti klókindum. Sér í lagi þegar umræðan snýst um persónulega trú og val á því sem ég kýs að kalla farveg ljóssins. Mér finnst umræðan um persónulega trú hvers og eins ægilega viðkvæm og í raun, að mínu mati, er nær óskiljanlegt að foreldrar skuli með nokkrum hætti – svo og opinberar menntastofnanir – að ekki sé talað um skoðanaglaða vitringa sem jafnvel engra hagsmuna hafa að gæta nema það eitt að vekja athygli á eigin orðaflaum, taka virkan þátt í að móta trúarhugmyndir ungra barna.

Hún kann að vera fín og hárbeitt, sú lína sem skilur að uppbyggilega fræðslu og flugbeittan áróður. Skiptir þá engu að mínu mati hvort um skýra kröfu um skilyrðislausa hlýðni við Guð af einhverjum toga eða hreint og klárt trúleysi er að ræða.

Ég er tveggja barna móðir og hef þegar skilað fullorðnum karlmanni út í lífið – eldri sonur minn, sem er trúlaus með öllu og kaus að fermast borgaralega, er orðinn 22 ára gamall og ekki kæmi mér á óvart þó hann skrái sig úr Þjóðkirkjunni þegar fram líða stundir.

Þá sjálfstæðu og persónulegu trú eldri sonar míns ber mér að virða.

Yngri sonur minn er aftur á móti sannkristið barn, hann er á sjöunda aldursári og elskar Jesús af öllu hjarta. Safnar glansmyndum af englum, ræðir Guð í gríð og erg, sofnar gjarna ef ég fer með Faðir Vor fyrir barnið í hálfum hljóðum og áminnir mig oft um kristin gildi, sem hann hefur lært af leiknum fræðslumyndum ætluðum fyrir börn, sem hann fékk að gjöf frá Íslenska söfnuðinum í Noregi eftir eina litríka og skemmtilega heimsókn í sunnudagaskólann á líðandi ári.

Yngri sonur minn missti föður sinn einungis 13 mánaða að aldri og á engar minningar um föður sinn. Sonur minn kýs því að trúa að faðir hans sé engill. Það var hans leið til að tækla sársaukann þegar hann fór að skilja hvers kyns var..Að faðir hans er látinn. Í hans augum sefar trúin. Barnsleg vináttan sem hann a við ósýnilegan Jésús, sem býr á himnum og heldur um báðar axlir látins föður barnsins, er græðandi smyrslið sem barnið sjálft ber á sáran söknuðinn sem reis þegar honum lærðist að skilja eðli dauðans..

Þá sjálfstæðu og persónulegu trú yngri sonar míns ber mér einnig að virða.

Sjálfri þykir mér vænt um kristnar kirkjubyggingar og sæki mér iðulega þangað ró þegar fáir eru á ferli, en sit nær aldrei messu. Einmitt. Ég er ein af þeim sem leita uppi ólæstar kirkjur, sest inn og nýt þagnarinnar. Ræði við minn eigin Guð þegar enginn er á ferli. Þekki lítillega til Biblíunnar, var lengi vel leitandi og trúi í staðfastri einlægni á ljósið. Hið góða. Kraftinn sem fólginn er í kærleikanum. Þá trú á ég ein, með sjálfri mér. Ástæða þess að ég ræði aldrei trúarlegar skoðanir nema í almennu samhengi, er sú að ég vil vernda eigin trú, sem er mér kærari en allt annað og hefur undantekningarlaust skolað mér á land þegar ég hef barist við öldugang lífsins.

Rétt eins og ég virði sjálfstæða og persónulega trú barna minna, geri ég þá einföldu kröfu að ekki verði gert lítið úr minni eigin trúarsannfæringu í mín eigin eyru.

Ég stend fast á þeirri persónulegu skoðun að VAL barna um trú eða trúleysi sé þeirra einkamál. Með öllu. Að enginn hafi rétt á að hrófla við trúarlegum viðhorfum annarra, valdi þau ekki umhverfinu né einstaklingnum sjálfum skaða. Ég stend einnig fast á þeirri skoðun að fræðsla, þar með taldar stakar heimsóknir í guðshús, séu þær farnar í fræðandi og uppbyggilegum tilgangi, séu af hinu góða í uppvextinum. Að slíkar heimsóknir – sé þeim stillt í eðlilegt hóf – geti hjálpað börnum að skilja og greina misjöfn viðhorf mannfólksins þegar fram í sækir.

Ég finn mig ekki knúna til að rökræða þau viðhorf. Né hrekja skoðanir þeirra sem eru á öndverðum meiði. Þetta eru þau viðhorf sem ég kappkosta við að innræta mínum eigin börnum; eiga uppruna sinn að finna við eldhúsborðið heima hjá mér og er sú heimspeki sem ég boða innan fjölskyldunnar.

Það eitt er allt í lagi líka.

Eldri sonur minn hlaut trúarbragðafræðslu í skóla. Ég hreyfði engum mótmælum þar við. Ég stóð ekki í vegi fyrir kirkjuheimsóknum, né hvatti drenginn til að sækja messur. Að sjálfsögðu ekki. Börnin mín bæði hafa fengið fullt og ómælt svigrúm til að mynda sér sjálfstæðar skoðanir á grundvelli almennrar fræðslu. Ég vil gjarna spyrja börnin mín: “En hvað finnst ÞÉR um þessar staðhæfingar? Hverju trúir ÞÚ?” Það er eina krafan sem ég hef nokkru sinni gert til barna minna. Að börnin mín kynni sér báðar hliðar áður en þau taka sjálfstæða og óháða afstöðu. Standi og falli með þeirri niðurstöðu og séu trú eigin sannfæringu. .

Börnin eru ekki mín eign. Börnin mín eru samferðarfélagar mínir. Mitt hlutverk er ekki að knýja eigin börn til skilyrðislausrar hlýðni, heldur að búa börnin mín undir sjálfstæða tilvist þegar fram í sækir. Ég hef alltaf hvatt syni mína til að móta og mynda sér eigin skoðanir, jafnvel þó þær stangist á við mína eigin trú  – sér í lagi þegar að trúarskoðunum kemur – og ef eitthvað er, höfum við skeggrætt mál við eldhúsborðið með opnu hugarfari og fordómaleysi.

Þetta er ÞEIRRA val og hefur ekkert að gera með þann “vísdóm” sem ég hef reynt að “troða” upp á drengina. Né heldur hafa ákvarðanir þeirra og persónuleg trú nokkurn skapaðan hlut að gera með trúarbragða- eða kristinfræðslu í grunnskóla.

Það þykir mér hál braut að feta, að ætla að móta trúarskoðanir barna okkar, en ég  er á þeirri staðföstu skoðun sjálf að börn eigi að hljóta fræðslu um ólíkar hliðar mannlífsins. Í raun þykir mér alveg sjálfsagt að fræða börn um ólík trúarbrögð og er sannfærð um að þó börn séu viðkvæmir einstaklingar í mótun sem eru móttækilegri gagnvart áhrifum umhverfisins en fullorðnir einstaklingar sem hafa tekið út fullan þroska, séu börn engu að síður fulfær um að móta sér sjálfstæðar og bjargfastar skoðanir.

Ég er sannfærð um að fái börnin einungis svigrúm til að velja óháð því hvað umhverfinu þykir ásættanlegt, muni þau vaxa úr grasi sem heilsteyptir einstaklingar sem eru trú eigin sannfæringu. Annað þykir mér forpokað, litað fordómum og í raun hrein forræðishyggja; að ætla að innræta börnum „hinn eina rétta sannleika” sem er þá fólginn í „algeru hlutleysi”. eða „skilyrðislausum guðsótta”.

Ég hlaut trúarbragðafræðslu í grunnskóla, sótti sunnudagaskóla, fermdist að kristnum sið en hafði á sömu stundu  algert og óskipt frelsi til að velja mína persónubundnu trú. Ég kaus að fermast. Læra kristnar bænir. Fræðast um guðstrú annarra þjóða. Þó er ég ekki sannkristin og trúi á það afl sem ég kýs að kalla Ljósið. Að vera feiminn í návist trúarbragða þykir mér einkennilegt og í raun skaðlegra en það eitt að þekkja og hafa fræðst um misjafnar ásjónur trúarbragða.

Ég – og þetta er mín skoðun eftir að hafa búið erlendis í fjölþjóðasamfélagi, þar sem ólíkum trúarsannfæringum ægir saman – er þakklát þeirri fræðslu sem ég hlaut sem barn, því þegar ég rekst á fólk af ólíkum uppruna og misjöfnum trúarbrögðum – er ég þakklát þeirri trúarbragðafræðslu sem ég hlaut sem barn, því ég stend ekki opinmynnt og hvái, fávís á svip, þegar umræðan berst að ólíkri Guðstrú og framandi viðhorfum fjarlægra þjóða.

Að því sögðu óska ég þess eins að einstaklingar á öndverðum meiði, finni frið hið innra yfir hátiðir sem nú brátt renna í garð. Að ólíkar skoðanir verði hægt að leggja til hliðar á komandi sólarhringum – að öll getum við – trúlaus eða sannkristin, fallist í faðma yfir jólaglögginu og hlegið dátt að úr sér gengnum kredduviðhorfum sem og sameinast um það eina viðhorf að kærleikurinn allt græðir, burtséð frá deilum og dægurþrasi yfir hvaða Guð skuli hafa yfirhöndina við hátíðarmálsverðinn í ár.

Gleðileg jól!

Tengdar greinar:

Trúfrelsi eða trúhelsi

Stöndum saman um réttindi allra – Svar til Friðriks

„Ég er afskaplega trúuð“ – Virðing og trú nútímans

SHARE