Hvítsúkkulaði Créme Brulée

Þessi dásamlega uppskrift er frá Eldhúsperlum.com

min_IMG_7148

Hvítsúkkulaði Créme Brulée (fyrir 4-5)

  • 500 ml rjómi
  • 75 gr hvítt súkkulaði
  • 1 vanillustöng
  • 1,5 msk sykur (og meira ofan á)
  • 5 eggjarauður
  • 5-6 tsk hrásykur

min_IMG_7134

Aðferð: Hitið ofn í 150 gráður með blæstri. Kljúfið vanillustöngina og skafið fræin innan úr. Setjið stöngina og fræin í pott ásamt rjómanum og súkkulaðinu. Hitið við meðalhita og pískið saman þar til súkkulaði er alveg bráðnað og rjóminn orðinn vel heitur en passið að láta hann ekki sjóða. Takið af hitanum og leyfið aðeins að rjúka. Pískið eggjarauðurnar og sykurinn saman þar til eggjarauðurnar verða aðeins ljósari. Hellið heitri rjómablöndunni smátt og smátt saman við eggin og pískið á meðan. Byrjið á að hella um 1 dl af blöndunni saman við eggin og blandið vel saman og hellið restinni saman við í smáum skömmtun. Þetta er gert til þess að eggjarauðurnar eldist ekki þegar heitur rjóminn kemur saman við.

min_IMG_7136

Hellið því næst blöndunni í gegnum sigti og í könnu eða ílát sem er þægilegt að hella úr. Hellið blöndunni í lítil form og setjið í eldfast mót. Hellið sjóðandi heitu vatni í mótið þannig að það nái upp að miðjum litlum formunum. Bakið í um 20 mínútur. Blandan mun líta út fyrir að vera ennþá fljótandi innst í miðjunni þegar þið takið þetta úr ofninum. Þannig á það að vera. Kælið í a.m.k. 4 klst í ísskáp.

min_IMG_7139

Áður en þið berið réttinn fram hitið grillið í ofninum á hæstu stillingu. Stráið þá rúmlega 1 tsk af hrásykri jafnt yfir hvern og einn eggja-rjómabúðing. Setjið undir grillið ofarlega í ofninum og fylgist vel með. Sykurinn á að vera farinn að bubbla og koma dökkbrúnar doppur í sykurskelina. Takið úr  ofninum og leyfið að kólna í 5 mínútur þannig að sykurskelin nái að harðna. Berið fram með ferskum berjum og njótið!

min_IMG_7155min_IMG_7159

SHARE