Íslensk hönnun: Draumkenndir vintage kimono úr smiðju Báru Atla

Hún ber millinafnið „Ofurhetja” í símaskránni, er 21 árs gömul og rekur sína eigin hátískuverslun á netinu.

Bára Atladóttir er engin venjuleg Reykjavíkurmær; hún býr yfir náðargáfu á sviði fatahönnunar og fann köllun sína í aflóga efnisströngum sem gömul frænka arfleiddi hana að fyrir nokkrum árum. Hún fetar ekki troðnar slóðir í hönnun sinni, en hún útskrifaðist af fatahönnunarlínu um sl. áramót og hefur verið iðin við eigin framleiðslu allar götur síðan.

 

Hannar hátískuflíkur eftir daglegum dyntum og delluköstum

 

Í dag hannar og saumar Bára hágæðaflíkur úr ófáanlegum vintage efnum og sníður gullfallegar kimono slár, svo eitthvað sé nefnt. Hún útskrifaðist af Listnámsbraut með fatahönnun sem aðalval frá Fjölbrautarskólanum í Breiðholti um síðustu jól og hefur vart haft undan við að hanna, sauma og selja flíkur sem hún segist forma eftir daglegum dyntum og delluköstum.

 

10496053_530176153778021_7061119995900309427_o

Þessi Kimono heitir BABEFEST; efnið er vintage og hann kostar litlar 11.000 krónur

 

 

Hannar kimono slár úr ófáanlegum vintage efnisströngum

 

„Ég myndi aldrei leggja út í að hanna flík sem ég myndi ekki klæðast sjálf” segir Bára aðspurð þegar blaðamann ber að garði. „Ég hef verið að gera flíkur í einni stærð – að vísu fer þetta eftir stærð og umfangi efnis – en ég get verið að vinna með allt frá litlum efnisbútum upp í stóra stranga. Kimono slárnar sem ég hef verið að vinna með eru stakar, einfaldlega vegna þess að ég vinn úr efnisströngum sem eru ófáanlegir í verslunum og ég hef takmarkað efni að vinna úr. En ég hef líka verið að fikra mig út í hönnun á buxum, pilsum, jökkum og er þegar farin að hanna og framleiða peysur með kögri. Ég er stöðugt að þróa framleiðsluna.”

 

10534259_527697070692596_8079235583986756044_n

Kögurpeysurnar koma í þremur stærðum og eru hugarfóstur Báru

 

Viðtökur vefverslunar langt fram úr björtustu vonum

 

Aðspurð segist hún aldrei festa kaup á stórum efnisströngum, heldur láti sér nægja takmarkað upplag fyrir hverja hönnun. „Því er það happa og glappa hvort ég næ að gera fleiri en eina flík úr hverjum bút.” Fyrir stuttu setti svo Bára sína eigin vefverslun á laggirnar, opnaði heimasíðu og viðtökurnar létu ekki á sér standa. „Ég er auðvitað himinilfandi og viðtökurnar komu mér þægilega á óvart, en ég sauma ekki eftir pöntunum, heldur sauma ég bara stakar flíkur.”

 

10452437_526778007451169_4125325149836151232_n

Hér skarast tveir heimar; kögur og kimono – vintage flík af vefsíðu Báru

 

 

Menntun, bakgrunnur og aðstoð mömmu er dásamleg blanda

 

Bára vann lengi sem saumakona og hefur því ágætan bakgrunn í faginu og nýtir menntun sína af Listasviði til fullnustu. „Saumaskapurinn er full vinna sem stendur” segir hún aðspurð en bætir því við að móðir hennar hafi veitt henni ómælda hjálp þegar mest hefur látið. „Mamma er mjög flínk í höndunum og hefur aðstoðað mig, en ég hef næg verkefni í augnablikinu.”

 

10394641_526778084117828_9036146272150396696_n

Kvenleg og fislétt hönnun; smart sumarkimono úr blúnduefni með seiðandi kögri

 

 

Lokuðu búðirnar liggja oft á guðdómlegum gersemum

 

Bára er ekki í vafa þegar talið berst að vali á efnum. „Ég myndi þræða lokuðu búðirnar, væri ég í vafa um hvert ég ætti að leita eftir efnisströngum” svarar hún. „Fyrir þremur árum fór ég til Brighton og ætlaði að versla fatnað á sjálfa mig, en villtist inn í efnaverslun og sneri heim með 30 kíló af alls kyns efnisströngum. Ég vinn nær eingöngu úr efnum sem eru ófáanleg á markaðnum í dag.”

 

10472741_526778030784500_249968802707629003_n

 

Saumað úr sama vintage stranga en útfærslan er önnur; Romantic Black Kimono

Hannar bara flíkur sem hún sjálf vildi klæðast

Kemur til greina af hálfu Báru að fara út í stærra upplag? „Já, seinna meir mun ég koma á markað með stærri upplög en í augnalbikinu sníð ég bara stakar flíkur. Ég elti efnið, formið og upplagið en þegar ég er að hanna peysurnar, sem koma í Small, Medium og Large, hef ég verið að leika mér með smá uppbrot eftir hverri flík; jafnvel bætt við klauf eða kögri. Þetta fer eftir því hverju ég laðast að sjálf. Fyrst sauma ég fyrir sjálfa mig og ef ég er ánægð með flíkina, þá sel ég hana. Ég geri einungis það sem mér finnst fallegt – það er skemmtilegasta leyndarmálið.”

 

Vefverslun Báru er HÊR en Facebook síða Báru er HÉR

SHARE