Jafnrétti, óháð kyni?

Það er svo margt búið að fara í gegnum huga minn seinustu sólarhringa. Ég fann mig knúna til að koma því loksins niður á blað, ef svo má að orði komast þegar maður dritar orðum inn á internetið.

Ég er kona sem hef verið á vinnumarkaðnum í mörg ár. Ég hef unnið með allskonar mönnum og konum sem koma úr öllum áttum. Ég er ákveðin og þrjósk sem margir myndu kalla brjálaða frekju. Ég vil samt aðeins útskýra. Ég er yngsta barn í minni fjölskyldu og er eina barn foreldra minna sem er kvenkyns. Ég hef alltaf verið mjög sjálfstæð og viljað gera allt sjálf ef ég mögulega get það. Ég er einstaklega smágerð, aðeins 156,5 sentimetrar á hæð og hef sjaldnast náð að vera yfir 50 kg.

Ég hef háð jafnréttisbaráttu frá því ég man eftir mér. Einn af bræðrum mínum er einu ári eldri en ég og mér fannst, með áherslu á FANNST, hann alltaf fá að gera allt þetta skemmtilega. Við erum úr fjölskyldu þar sem allir fá að leggja sín lóð á vogarskálarnar um leið og það er hægt sem er eitt það besta sem ég held að börn geti lært í uppeldinu. Að gera gagn í samfélaginu sem heimili er og læra að gera það sem þarf að gera á heimilinu, hafa tilfinningu fyrir því að það þarf að gera ákveðna hluti til að fá einhverja útkomu. Eins og að setja í þvottavél, brjóta saman og ganga frá. Það virðast margir halda að það gerist að sjálfu sér en það er sko fjarri lagi.

En aftur að jafnréttisbaráttunni minni. Ég skildi bara ekki af hverju hann fékk alltaf að gera allt aðra hluti en ég. Ég hélt, eins og held ég allflest börn, að ég væri að missa af einhverju hrikalega skemmtilegu og merkilegu. Við erum bara þannig sem börn. Mér fannst ég vera beitt misrétti. Pabbi væri karlremba og ég væri bara vanmetin allsvakalega. Þeir gerðu sér bara enga grein fyrir því hversu öflug ég væri af því fengi enga sénsa. Takið eftir að þarna er ég barn. Ég var með þá tilfinningu að það væri verið að ganga framhjá mér í einhverju svakalega merkilegu.

Í dag er ég fullorðin og er reynslunni ríkari. Ég geri allt sem ég get gert en er ekki feimin við að biðja um aðstoð ef ég get ekki eitthvað. Ég get keyrt í snjó, ég elska að vera á snjósleða, ég fer á sjóstöng, ég get skipt um dekk, ég get látið bílinn minn renna í gang, get gefið „start“, þríf bílinn og allskonar sem ég hef lært af pabba mínum og bræðrum. Ég hef líka gaman að því að prjóna og hekla, ég elska að setja á mig maska, ég syng og dansa, baka og þríf og fer stundum í kjóla sem mér finnst ég fín í.

Er ég einhver staðalímynd? Held ekki og það er kannski þess vegna sem ég hef oft verið sögð „ekkert eðlileg“ eða „ekki eins og fólk er flest“. Mér gæti ekki verið meira sama um hvað fólki finnst um mig. Svona yfir höfuð. En það er hægt að særa mig, því ég er bara mannleg.

Það særir mig þegar fólk talar illa um mig eða mína. Það hinsvegar pirrar mig þegar fólk vanmetur getu mína vegna þess hvað ég er lítil eða af því ég er með kvenkyns æxlunarfæri. Ég get allt sem ég vil svo lengi sem hæð mín eða kraftar standa ekki í vegi fyrir því. Þannig er það bara með alla, er það ekki?

Ég er jafnréttissinni. Ég vil að fólk fái sömu laun fyrir sömu vinnu, óháð kyni. Ég vil að hæfasta manneskjan fái starfið, óháð kyni. Mér finnst að foreldrið sem er hæfara, fái forræði yfir börnunum, óháð kyni. Ég vil að fólk fá sömu tækifæri, óháð kyni. 

Mér finnst að jafnréttisbarátta eigi ekki að halla á karlmenn.  Við erum að mjakast í áttina að jafnrétti en það gerist ekki á einum degi.

Maðurinn minn getur fullt af hlutum sem ég get ekki. Ég viðurkenni það fúslega. Hann er 185 cm á hæð og með það breiðar herðar að ég næ varla utan um þær með mínum handleggjum. Það gerir það að verkum að hann nær að skipta um ljósaperur sem ég hreinlega næ ekki í, þó ég nota stiga. Hann getur lyft hlutum sem ég næ ekki að hagga. Mér finnst það ekki niðurlægjandi heldur finnst mér það bara eðlilegt miðað við líkamsbyggingu okkar. Ég get líka gert hluti sem hann getur ekki. Ég hef mikið auga fyrir smáatriðum sem hann hefur ekki. Ég get komist inn um litla glugga ef við læsumst úti og ég get tjáð mig á hátt sem hann kann ekki. Það er af því að karlar og konur eru ekki eins. Og það er allt í lagi. Það hefur alltaf verið þannig og mun alltaf vera þannig. Berum bara virðingu fyrir kostum hvers annars. Sættumst við að við erum ekki sköpuð í sama mót. Mér finnst t.d. hugsanir mínar óþarflega dramatíska. Svo heyri ég í manninum mínum og hann hjálpar mér að sjá hlutina með minna dramatískum augum. Ég elska að geta beðið hann um hluti á heimilinu, sem ég er búin að reyna og ekki tekist, og hann gerir það á núll einni. Það er ekki niðurlægjandi, heldur eðlilegt.

Tölum um og við hvort annað af þeirri virðingu sem við eigum skilið.

 

 

 

SHARE