Kaffi, súkkulaði, lærdómur og skriftir

Guðrún Veiga Guðmundsdóttir er ótrúlega skemmtileg ung kona sem var að skrifa sína fyrstu uppskriftabók árið 2014. Bókin ber heitið „Nenni ekki að elda“ og er gefin út af Sölku. Algjörlega frábær bók fyrir allar sívinnandi/lærandi konur á öllum aldri.

Nenni_ekki_ad_elda_kapan-page-001

Í bókinni eru uppskriftir fyrir morgnana, vídeókvöldið, veislurnar, einbúann og síðast en ekki síst erfiðu dagana. Húmorinn og skemmtilegheitin eru allsráðandi og greinilegt að Guðrún Veiga hefur mikinn húmor fyrir sjálfri sér.

Við ákváðum að tala aðeins við þessa áhugaverðu stelpu og fá að vita aðeins meira um hana.

„Ég er fædd og uppalin á Eskifirði,“ segir Guðrún Veiga en hún segir frá því í bókinni sinni hvað varð til þess, að hún opnaði bloggsíðuna sína gveiga85.blogspot.com. Ári eftir að síðan opnaði var fjöldi heimsókna á síðuna orðin um 3000-5000 manns á sólarhring.

 

Hvernig er venjulegur dagur í lífi þínu?

Þeir eru eins mismunandi og þeir eru margir. Ótal kaffibollar. Dálítið af súkkulaði. Lærdómur. Skriftir. Einnig stunda ég sjónvarpsgláp og tilgangslaust tölvuhangs í miklu óhófi.

Aðspurð um hvað skipti Guðrúnu Veigu mestu máli í lífinu segir hún: „Að vera í hamingjusömu sambandi við sjálfa mig. Að vera sátt í eigin skinni og tilveru. Jú og barnið mitt – það skiptir mig ferlega miklu máli.“

 

Hvað finnst þér hafa verið þitt mesta afrek til þessa?

Barn, bók og meistararitgerð. Þrjár miserfiðar fæðingar sem voru allar svitans virði og miklu meira en það.

Það var ekki leiðinlegt fyrir Guðrúnu Veigu að vera að blanda kokteila kl 9 á morgnana, án þess að skammast sín en hún segir það hafa verið eitt af því skemmtilegasta við gerð bókarinnar. En hún segir að uppáhaldsuppskriftin sín sé vafalaust Guðrúnargrautur, svona að öllu poppinu undanskildu. „Besti hafragrautur í heimi – ég gæti borðað hann í öll mál. Alla daga, alltaf.“

 

Hvað ætlar þú að gera á árinu 2015?

Borða grillmat. Kaupa trampólín. Læra eitthvað nýtt. Láta fáeina drauma rætast. Skrifa. Hlæja. Dansa. Sofa.

 

Við ætlum að gefa 2 eintök af bókinni „Nenni ekki að elda“. Það eina sem þú þarft að gera er að skrifa hér fyrir neðan „Nenni ekki að elda“ og þú ert komin í pottinn.

 

 

SHARE