Kjúklingur með grænmeti, núðlum og cashewhnetum

Þessi æðislega uppskrift kemur frá Café Sigrún
Fyrir 4-5

Innihald

  • 375 g þykkar hrísgrjónanúðlur eða aðrar núðlur sem ykkur finnst góðar
  • Hálfur stór kjúklingur, helst grillaður
  • 1 stór gulrót
  • 2 paprikur (rauð og gul)
  • 175 g mangetout (flatar, grænar belgbaunir sem maður getur borðað í hýðinu)
  • 175 g baby mais
  • 75 g cashewhnetur
  • 2 vorlaukar
  • 1 tsk sesamolía
  • 1 msk kókosolía
  • Fersk coriander lauf til að skreyta með (má sleppa)

Fyrir sósuna:

  • 450 ml af vatni
  • 1 gerlaus grænmetisteningur
  • 1,5 msk maísmjöl (eða kartöflumjöl eða arrow root)
  • 6 msk tamarisósa
  • 1 tsk Tabasco sósa (eða klípa chilipipar eða cayenne pipar )
  • 5 stevíadropar eða 2 msk agavesíróp
  • 1 hvítlauksrif, saxað smátt eða marinn
  • ferskt engifer, biti á stærð við jarðarber

 

Aðferð

  1. Sjóðið núðlurnar samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum og sigtið allt vatn frá. Látið í nokkrar sekúndur undir kalt, rennandi vatn. Setjið til hliðar.
  2. Hitið pönnuna (án olíu) og þurrristið cashewhneturnar í nokkrar mínútur eða þangað til þær eru orðnar gullbrúnar. Setjið til hliðar.
  3. Undirbúið sósuna: Setjið 450 ml af vatni í lítinn pott ásamt grænmetisteningnum og hitið aðeins þannig að teningurinn leysist upp. Blandið saman maísmjöli, tamarisósu, tabasco sósu og stevíadropum (eða agavesírópi) í litla skál og hellið í pottinn. Afhýðið engifer og hvítlauk og saxið smátt. Setjið allt í pottinn og hitið í um 30 mínútur við vægan hita eða þangað til sósan fer aðeins að þykkna aðeins.
  4. Undirbúið nú annað hráefni: Ef þið notið ekki grillaðan kjúkling, hitið þá 1 tsk kókosolíu ásamt vatni á pönnu. Steikið kjúklinginn (skinnið ekki notað). Kælið og rífið kjötið í strimla. Setjið til hliðar.
  5. Afhýðið gulrótina og skerið í mjóa strimla.
  6. Skerið paprikur í helminga og fræhreinsið. Skerið svo í mjóar ræmur.
  7. Saxið vorlaukana smátt (ljósgrænu og dökkgrænu hlutarnir notaðir).
  8. Hitið wok pönnu eða stóra pönnu þangað til hún verður brennandi heit.
  9. Takið til allt hráefni sem á að fara á pönnuna og setjið í litlar skálar nálægt eldavélinni.
  10. Setjið 1 msk af kókosolíu á pönnuna og hitið vel. Það ætti að rjúka úr pönnunni.
  11. Hitið gulrótarstrimlana í um 2 mínútur. Bætið papriku, mangetout og babymais saman við og hitið vel. Ef vantar vökva, notið þá vatn.
  12. Hrærið í sósunni og hellið henni yfir pönnuna. Sjóðið í um 3-4 mínútur.
  13. Bætið núðlunum og kjúklingnum við og hitið vel í 3 mínútur.
  14. Bætið cashewhnetunum við og blandið öllu vel saman.
  15. Berið fram í djúpum diskum ásamt prjónum. Hellið nokkrum dropum af sesamolíu yfir hverja skál. Skreytið með corianderlaufum ef þið viljið.

Café Sigrún á Facebook. Endilega líkið við hana svo þið fáið allar nýjustu fréttir frá henni.

SHARE