Klórblandað vatn hefur áhrif á heilsuna

Sundferð í laugum blönduðum miklum klór getur aukið áhættuna á krabbameini, ef marka má rannsókn spænskra vísindamanna í þarlendum sundlaugum. Rannsökuð voru merki um stökkbreytandi áhrif á erfðaefni hóps sundmanna í spænskum innilaugum.

Það voru vísindamenn frá Rannsóknarmiðstöð í faraldsfræðum í Barcelona (CREAL) og frá Del Mar rannsóknarsjúkrahúsinu sem stóðu að rannsókninni. Niðurstöðurnar sýndu merki um skaðlega áhrifavalda á erfðaefni í 49 heilbrigðum fullorðnum einstaklingum eftir 40 mínútna sundsprett í laugunum. Vísindamennirnir greindu merki um auknar líkur á krabbameini sem og hugsanlega öndunarörðugleika vegna klórsins.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í bandaríska fagtímaritinu Environmental Health Perspectives. Framkvæmdastjóri CREAL, Manolis Kogevinas, segir að þrátt fyrir þessar niðurstöður þurfi fólk ekki að óttast sundlaugar enda sé sund afar hollt. Hins vegar sé aðalatriðið að ekki sé notaður of mikill klór.

„Jákvæð heilsufarsleg áhrif af sundi má auka með því að draga úr magni klórs í laugunum,” hefur fréttastofan AFP eftir honum. „Við viljum alls ekki að fólk hætti að synda, en hvetjum til þess að minni klór verði notaður í sundlaugum” sagði Kogevinas enn fremur og klykkti út með því að skapa mætti forsendur fyrir minni klórnotkun með því að innleiða svipaða hætti og tíðkast á Íslandi, þ.e.a.s að fara í sturtu áður en farið er í laugarnar, nota baðhettur og reyna að sleppa því að kasta af sér vatni ofan í laugunum.

Á Íslandi gildir reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum. Reglugerðin er séríslensk, byggð á norrænum grunni, en ekki Evrópureglum. Í reglugerðinni er meðal annars ákvæði um að vatn í laugum skuli hreinsa og sótthreinsa með natríumhýpóklóríð eða öðrum viðurkenndum klórgjöfum. Magn klórs ákvarðast af gerð laugarinnar en í öllum nýjum laugum er gerð krafa um fullkominn búnað sem hreinsi laugina og stjórni klórskömmtun.

Heimild:
Birt með góðfúslegu leyfi heilsufrelsi.is

heilsufrelsi_small

Upprunaleg frétt frá mbl.is


 

SHARE