Kynferðisofbeldi: Um sifjaspell

Kynferðisofbeldi.

Kynferðisofbeldi er samheiti yfir margskonar atferli, sem á það sameiginlegt að þolendur þess eru beittir ofbeldi, sem ofbeldismaðurinn færir í kynferðislegan farveg. Kynferðisofbeldi miðar að því að lítillækka, auðmýkja, ráða yfir og skeyta ekki um vilja eða líðan þess sem fyrir því verður. Fólk á öllum aldri er beitt kynferðisofbeldi og það birtist í mismunandi formi. Það getur t. d. verið sifjaspell, kynferðisofbeldi ókunnugra gegn börnum, nauðganir, vændi, klám og kynferðisáreitni á vinnustöðum og annarsstaðar. Þá er líkamlegt og/eða andlegt ofbeldi gegn konum í fjölskyldum einnig skilgreint sem kynferðisofbeldi. Oftast eru konur og börn beitt kynferðisofbeldi og ofbeldismennirnir eru nánast allltaf karlar. Í þessari umfjöllun verður fjallað um tvö form kynferðisofbeldis, sifjaspell og nauðganir. Ýtarlegri umfjöllun um þetta efni er að finna í fræðslubæklingum um sama efni, sem höfundur hefur gert fyrir Stígamót.

Sjá einnig: Opnum augun! – Bæði kyn eru gerendur kynferðisofbeldi – Þjóðarsálin

Um sifjaspell.

Sifjaspell eru einn af alvarlegustu glæpunum sem beinist að börnum og unglingum. Sifjaspell eru kynbundið ofbeldi. Það eru nánast alfarið karlar, sem beita börn sifjaspellum. Samkvæmt tölum úr ársskýrslum Stígamóta eru 98% ofbeldismanna karlar og stúlkur eru þolendur þessa ofbeldis í 96% tilvika. Í þessari umfjöllun er ýmist talað um stúlkur, börn eða konur þegar fjallað er um þolendur sifjaspella. Ástæður þessa eru af tvennum toga spunnar. Hin fyrri er sú að það eru oftast stúlkubörn, sem verða fyrir sifjaspellum og þar af leiðandi fullorðnar konur, sem eru að berjast við afleiðingar þeirra. Síðari ástæðan er, að allar upplýsingar um afleiðingar sifjaspella hvað varðar drengi, eru miklum mun takmarkaðri en þegar konur eiga í hlut vegna þess að tiltölulega fáir karlar leita aðstoðar vegna sifjaspellareynslu sinnar.

Hér er gerður greinarmunur á kynferðisofbeldi gagnvart börnum og sifjaspellum. Kynferðisofbeldi gagnvart börnum er yfirhugtak. Undir það falla sifjaspell, kynferðisofbeldi ókunnugra gagnvart börnum, barnavændi og barnaklám, þ.e. þegar börn eru notuð í klámmyndum. Sifjaspell eru algengasta form kynferðisofbeldis á börnum.

Sifjaspell eru hér skilgreind sem allt kynferðislegt atferli milli einstaklinga, sem tengdir eru tengslum trausts og þar sem annar aðilinn vill ekki slíkt atferli en er undirgefinn og háður ofbeldismanninum á einhvern máta. Með kynferðislegu atferli er t.d. átt við hvers konar þukl eða káf á kynfærum, að neyða börn til að hlusta á eða horfa á klám, að ofbeldismaður lætur barn fróa sér og/eða fróar því, á við barnið samfarir, hvort sem er í munn, leggöng eða endaþarm með fingri, getnaðarlim eða hlutum. Tengsl barna við ofbeldismenn í sifjaspellamálum eru margskonar. Þeir eru feður, stjúpfeður, bræður, afar og frændur barnanna. Til þeirra teljast líka nánir vinir fjölskyldunnar, þeir sem taka að sér tímabundna umönnun barns, nágrannar og kennarar svo eitthvað sé nefnt.

Skilgreiningin undirstrikar þrjá mikilvæga þætti, sem hafa áhrif á upplifun þolenda af ofbeldinu og möguleika þeirra til að binda enda á það. Þessi atriði eru í fyrsta lagi valdamismunurinn milli þolanda og ofbeldismannsins, í öðru lagi að barnið er háð honum í einhverjum skilningi og loks að ofbeldismaðurinn misnotar traustið, sem barnið ber til hans. Aldursmunur barns og ofbeldismanns skiptir ekki máli ef valdahlutföll milli þeirra eru misjöfn og barnið er háð ofbeldismanni og hann misnotar traust þess. Blóðtengsl skipta heldur ekki máli varðandi stöðu þess, sem háður er þeim, sem valdið hefur og rýfur traust með kynferðisofbeldi. Þessi skilgreining er mun rýmri en hefðbundnar lagaskilgreiningar á sifjaspellum, en samkvæmt þeim telst kynferðisofbeldi á börnum því aðeins sifjaspell að um sé að ræða blóðtengsl í beinan legg milli barns og ofbeldismanns.

Sifjaspell standa yfirleitt yfir í langan tíma, oft mörg ár. Þau eru vafalítið eitt það alvarlegasta, sem fyrir börn getur komið, og þau setja alltaf varanleg spor á líf þeirra, sem fyrir þeim verða. Sifjaspell eru ekki aðeins einstaklingsbundinn vandi þeirra, sem beittir eru slíku ofbeldi. Þau eru líka smánarblettur á samfélaginu og þau koma okkur öllum við. Sifjaspell eru því í senn persónuleg ógæfa og samfélagslegt vandamál.

Margs konar goðsagnir og fordómar um sifjaspell, börnin, sem fyrir þeim verða, mæður þeirra og ofbeldismennina, lifa enn góðu lífi þrátt fyrir aukna umræðu um þessi mál. Hér verður vikið að nokkrum þeirra.

Goðsagnir um þolendur.

Fyrst er til að nefna goðsögnina um að sifjaspell séu ekki veruleiki, þau séu hugarórar og óskhyggja stúlkubarna um kynferðismök við feður sína. Fáar goðsagnir hafa valdið þolendum sifjaspella eins miklum skaða og þessi. Hún hefur m.a. leitt til þess að sifjaspell hafa legið í þagnargildi allt fram á síðustu ár og börnum og konum, sem sögðu frá sifjaspellum, sem þau höfðu þolað, var ekki trúað. Enn gætir meðal margra fagmanna í hópi geðheilbrigðisstétta tortryggni og afneitunar, þegar sjúklingar þeirra segja frá sifjaspellum. Það er t.d. reynsla fjölmargra þolenda sifjaspella, sem leitað hafa aðstoðar í geðheilbrigðiskerfinu, áður en þeir snéru sér til Stígamóta, að lítið var gert úr afleiðingum sifjaspellanna á líf þeirra eða frásögnum þeirra af sifjaspellunum jafnvel afneitað af fagfólki.

Önnur goðsögn gengur út á það að stúlkur njóti sifjaspella og að þær tæli karlkyns ættingja til maka við sig. Rökstuðningurinn, sem þessi goðsögn byggir á, er að jafnaði sá að fyrst þær mótmæli ekki og þar sem sifjaspellin vari oft í mörg ár, hljóti þær að njóta þeirra og vilja þau. Auk þess séu stúlkubörn kynferðislega tælandi. Goðsagnir af þessu tagi lýsa fyrst og fremst hugarfari þeirra, sem bera þær á borð. Þær endurspegla ekki líðan og stöðu stúlkubarns, sem er beitt kynferðisofbeldi af nánum ættingja, eins og nánar verður vikið að síðar. Varðandi hugmyndina um að börn séu kynæsandi og beri þess vegna ábyrgð á því kynferðisofbeldi sem þau verða fyrir, nægir væntanlega að minna á að börn allt frá því að þau eru í vöggu eru beitt sifjaspellum.

Þriðja goðsögnin um stúlkur, sem beittar eru sifjaspellum, miðar að því að afmarka þann hóp, sem sætir slíku ofbeldi. Þessi goðsögn tekur á sig ýmsar myndir. Staðhæft er að aðeins stúlkur, sem koma úr stórum fjölskyldum, þær sem koma úr „vandamálafjölskyldum”, þær sem búa í landfræðilega einangruðum fjölskyldum, þær sem eru „lauslátar” og loks þær, sem eiga mæður, sem sjálfar eru þolendur sifjaspella, séu beittar þessu ofbeldi.

Ekkert af þessu stenst. Rannsóknir á tíðni sifjaspella hafa leitt í ljós að börn úr hvaða fjölskyldu sem er geta orðið þolendur sifjaspella, ef í þeirri fjölskyldu er(u) karl(ar), sem beitir/a börn kynferðisofbeldi. Enga samsvörun er að finna milli sifjaspella og félagslegrar stöðu, búsetu, hegðunar stúlkna, forsögu mæðra þeirra eða öðrum félagslegum þáttum.

Sjá einnig: Ég var viss um að svona væri það sem karlmenn sýndu samúð“

Goðsagnir um mæðurnar.

Algengasta goðsögnin um mæður barna, sem beitt eru sifjaspellum, er að mæðurnar viti um sifjaspellin, meðvitað eða ómeðvitað, og hafist ekkert að. Ekki er frekar útskýrt hvernig hægt er að vita um það, sem er ómeðvitað. Sé t.d. fjölskyldumeðferð beitt í fjölskyldum þar sem eiginmaðurinn hefur misnotað dóttur/dætur sínar, er gengið út frá því sem gefnu að móðirin hafi meðvitað eða ómeðvitað vitað um sifjaspellin. Margir fagmenn hafa skrifað lærðar greinar um þetta og útlistað hvernig mæðurnar hafi brugðist skyldu sinni sem húsmæður og eiginkonur og ljóst og leynt unnið að því að dóttir þeirra taki að sér bæði húsmóður- og eiginkonuhlutverkið í fjölskyldunni.

Þessi goðsögn stenst ekki. Hún endurspeglar fyrst og fremst tilraunir til að gera mæður ábyrgar fyrir sifjaspellunum. Staðreyndin er að flestar mæður hafa ekki hugmynd um sifjaspellin meðan þau standa yfir. Segi barnið móður sinni frá þeim eða hún kemst að þeim á annan hátt, er það að jafnaði fyrsta verk yfirgnæfandi meirihluta mæðra að gera ráðstafanir til að tryggja öryggi barnsins.

Þetta er ekki sagt til að draga fjöður yfir það að einstaka mæður vita um sifjaspellin en hafast ekkert að og velja þar með að taka afstöðu með ofbeldismanninum og trúa afneitun hans. Slíkt er auðvitað mikið áfall fyrir barnið, sem þá stendur eitt og yfirgefið.

Flestum finnst slík afstaða mæðra gjörsamlega óskiljanleg. Áður en við fellum dóma, er rétt að líta í eigin barm og spyrja sjálfa sig hversu auðvelt okkur þætti að trúa því að maðurinn, sem við búum með, misnoti börnin okkar. Þegar aðstæður þess litla hóps mæðra, sem ekki trúir frásögn barna sinna um sifjaspellin, eru athugaðar nánar, hefur einnig komið í ljós, að konurnar búa að jafnaði við mikla kúgun af hendi ofbeldismannsins. Það má því leiða líkur að því að þessar mæður sjái enga leið til að takast á við ofbeldismanninn og velji því að hafast ekkert að.

Goðsagnir um ofbeldismennina.

Ýmislegt hefur verið fært fram til þess að útskýra sifjaspell karla. Dæmi um þetta er að persónuleikaþróun þeirra sé brengluð, þeir misnoti áfengi og/eða lyf, þeir hafi sjálfir verið kynferðislega misnotaðir sem börn, konur þeirra færist undan kynmökum við þá eða að þeir séu kynferðislega brenglaðir.

Engin þessara skýringa og goðsagna hefur reynst haldbær við nánari skoðun. Kynferðisafbrotamenn falla ekki undir neinar geðrænar sjúkdómsskilgreiningar. Þeir eru ósköp venjulegir karlar, félagslegur bakgrunnur þeirra er mismunandi. Þeir mynda félagslegan þverskurð af samfélaginu. Þeir eru á öllum aldri, flestir misnota ekki áfengi eða lyf. Nýjustu bandarískar rannsóknir sýna að um 30% þeirra hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi í bernsku. Varla getur það, að konur þeirra færist undan kynmökum við þá, réttlætt að þeir ráðist á börn úr fjölskyldum sínum til þess að fá kynferðislega útrás. Ítarlegar rannsóknir á dæmdum kynferðisofbeldismönnum hafa heldur ekki leitt í ljós að þessi hópur sé kynferðislega brenglaðri en gerist og gengur.

Það er hvorki stjórnlaus kynhvöt, sjúklegir eiginleikar né utanaðkomandi aðstæður, sem fá karla til að fremja sifjaspell. Myndin sem birtist af þeim í frásögnum fórnarlamba þeirra er að hið ytra er lífsferill þeirra óaðfinnanlegur. Það, sem einkennir þá sem hóp er hversu venjulegir þeir eru. Kynferðisofbeldið, sem þeir beita innan fjölskyldunnar, bendir hins vegar til samsömunar þeirra við ríkjandi ímyndir af karlmennsku og forréttindum karla. Svo virðist sem þei m finnist það að vera karl, veiti þeim rétt til að aga, refsa, misnota og hafa taumhald á konum og börnum.

Goðsagnirnar, sem minnst hefur verið á hér að ofan, eru allar til þess fallnar að ala annars vegar á fordómum, sem beinast að fórnarlömbum sifjaspella og mæðrum þeirra með því að gera þær ábyrgar fyrir því ofbeldi sem börnin verða fyrir. Hins vegar miða goðsagnirnar að því að afsaka ofbeldismennina með því að þeir séu sjúkir, gera lítið úr sifjaspellum sem ofbeldi, jafnvel að láta líta svo út að sifjaspell séu “eðlileg” eða réttlætanleg. Þar með er dregið úr ábyrgð ofbeldismannsins á ofbeldisverkum sínum. Jafnframt er biturri og sárri reynslu barna og kvenna af sifjaspellum afneitað.

Eru sifjaspell algeng?

Á síðari árum hafa farið fram all viðamiklar kannanir vestan hafs og austan á því hversu algeng sifjaspell eru. Það er afar vandasamt að gera kannanir um þetta efni þannig að þær gefi nokkurn veginn rétta mynd af því hversu algeng sifjaspell eru. Ástæðan er sú að enn hvílir bannhelgi yfir umræðunni um sifjaspell. Sé könnun ekki vel úr garði gerð hefur reynslan sýnt að fæstir þolendur sifjaspella svara spurningum, sem fyrir þá eru lagðar. Niðurstöðum kannana ber því oft illa saman.

Þær kannanir, sem vandaðastar eru, byggja á viðtölum við alla þá sem veljast í þær með tilviljanakenndu úrtaki. Slíkar kannanir hafa verið gerðar í Bandaríkjunum og þær sýna að 16% stúlkna höfðu orðið fyrir sifjaspellum fyrir 18 ára aldur og 12% fyrir 14 ára aldur. Tölur úr könnunum, þar sem aðrar aðferðir eru notaðar svo sem spurningalistar eða símakannanir, eru ekki eins áreiðanlegar.

Engar kannanir á tíðni sifjaspella hafa farið fram hér á landi. Engin ástæða er til að ætla að tíðni sifjaspella sé lægri hér en annars staðar í hinum vestræna heimi. Hinn mikli og vaxandi fjöldi þolenda sifjaspella, sem leita til Stígamóta, styður þá ályktun. Það er því raunhæft að ætla að milli 10 og 20% kvenna hafi verið beittar sifjaspellum í bernsku. Almennt benda kannanir til að einn drengur á móti hverjum fjórum stúlkum verði fyrir sifjaspellum (Russell, 1984).

Allar rannsóknir á sifjaspellum sýna að ofbeldismennirnir eru nánst alfarið karlar nákomnir barninu hvort heldur sifjaspellin beinast að stúlkum eða drengjum. Hvað eftir annað kemur fram í rannsóknum að 98 – 99% ofbeldismannanna eru karlar. Þær fáu konur, sem eiga slík mök við börn, virðast oftast gera það í slagtogi með körlum (Finkelhor, 1986).

Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að algengt er að sami ofbeldismaðurinn misnoti fleiri en eina stúlku í fjölskyldu, svo og að sama barnið megi þola sifjaspell af hendi fleiri en eins karls í fjölskyldunni. Hvorutveggja hefur verið staðfest í starfi Stígamóta. Tölur í ársskýrslum Stígamóta sýna að þeir, sem hafa leitað aðstoðar þar vegna sifjaspella, vissu að rúmlega fjórðungur þeirra ofbeldismanna sem beitt höfðu þá kynferðisofbeldi höfðu einnig misnotað önnur börn í fjölskyldunni og tæplega helmingur þolenda sifjaspella hafði verið beittur sifjaspellum af hendi fleiri en eins fjölskyldumeðlims. Sömuleiðis hefur komið fram að þó sifjaspell komist upp eru miklar líkur á að ofbeldismennirnir láti sér ekki segjast heldur haldi ofbeldinu áfram.

Rannsóknir sýna að sifjaspell eru alvarlegt og tiltölulega algengt ofbeldi. Þau ógna hugmyndum okkar um fjölskylduna sem skjól barna í hörðum heimi. Þau, eins og annað form kynferðisofbeldis, undirstrika að konum og börnum stafar mest hætta af körlum, sem þau þekkja og eru tengd blóð- og tilfinningaböndum.

Hvernig byrja sifjaspell og hvernig lýkur þeim?

Til þess að færa lesandann nær þeirri ógn, sem barn stendur frammi fyrir, þegar einhver því nákominn beitir það sifjaspellum, verður stuðst við lýsingar kvenna á fyrstu minningunum um sifjaspell. Allar tilvitnanir eru fengnar úr rannsókn Guðrúnar Jónsdóttur á afleiðingum sifjaspella á konur (Guðrún Jónsdóttir, 1992).

      “Fyrstu minningarnar um sifjaspellin eru tengdar því hvað það var alltaf kalt og dimmt. Ég var þá fimm ára og ég sofnaði oft í rúmi foreldra minna. Rúmið var hvítt með háum göflum. Mamma háttaði mig og breiddi ofan á mig. Pabbi háttaði oft á undan henni og hann sagði oft við mig að sér væri svo kalt. Og stundum tók hann mig og lagði mig ofan á sig og ég treysti honum, ég var telpan hans pabba. Einu sinni tók hann mig svona og ég vildi vera svo góð við hann og ég reyndi að breiða mig útyfir hann og hann kallaði mig hitapokann sinn. Ég vildi vera svo góð við hann, hlýja honum og þá fór hann að káfa á mér og ég varð skelfingu lostin. Hann sagði mér að fara úr buxunum og hann fór að setja fingurinn inn í mig. Hann spurði hvort ég fyndi til. Ég sagði nei, en ég fann svo mikið til. Ég man ekkert eftir þetta nema ég var komin í rúmið mitt og það var svo dimmt, mér fannst ég ekki vera til lengur.”

 

“Ég man vel þegar stjúpi minn byrjaði að misnota mig, ég var þá níu eða tíu ára. Það byrjaði einn morgun, mamma var ekki heima en litli bróðir minn var uppi í rúmi hjá honum. Stjúpi minn spurði hvort ég vildi koma upp í rúmið líka og ég sagði já. Pabbi minn hafði alltaf verið góður við mig, hann strauk mér um kinnina og kyssti mig á ennið þegar ég var komin upp í rúm. En um leið og ég var komin uppí til stjúpa míns byrjaði hann að káfa á mér. &E acute;g reyndi að færa mig undan en hann sagðist mundu kyrkja mig ef ég gerði ekki eins og hann sagði mér að gera.”

“Það byrjaði þegar ég var sjö ára. Ég var þá hjá afa mínum og ömmu af því mamma var á Fæðingadeildinni. Mér þótti vænt um hann þá, fannst hann vera góður afi. Ég var ein með honum eitt kvöldið og við lágum saman upp í sófa að spjalla um eitthvað. Þá fór hann að tala um að konur og karlar ættu að vera góð hvort við annað. Ég man ekki hvað hann sagði fleira um það en hann fór að sýna mér hvernig karlar og konur kysstust. Ég varð alveg rugluð af þessu öllu, skildi ekki upp né niður. Mér fannst þá að allt, sem hann gerði eða sagði væri rétt. Skömmu síðar dró hann mig inn á verkstæðið sitt lokaði dyrunum og reyndi að hafa samfarir við mig, en gat það ekki svo ég varð að horfa á hann fróa sér. Og þetta hélt áfram þangað til ég var orðin fjórtán ára. Hann gaf mér peninga og sagði að þetta væri leyndarmálið okkar og ef ég segði frá því skyldi hann sjá til að mér yrði ekki trúað og hann nefndi líka að fólk gæti farið í fangelsi.”

Konurnar lýsa hér margbreytileika varðandi tilfinningalegan bakgrunn, tengsl og aðstæður þegar sifjaspellin hefjast. Stundum er bakgrunnurinn traust og elska barnsins eins og í fyrstu og síðustu tilvitnuninni, en stundum notar ofbeldismaðurinn sér þörf barnsins á umhyggju og það hve háð það er því að fá athygli foreldris eins og í annarri tilvitnun. En stundum er ekki hægt að sjá neinn slíkan bakgrunn, annan en hin formlegu tengsl barnsins við ofbeldismanninn, sem tryggja honum aðgang að barninu. Sifjaspell eru þannig misbeiting valds í formi kynferðislegra athafna og traust barnsins er misnotað og svívirt.

Tilvitnanirnar hér að framan sýna einnig að ofbeldið ber óvænt að. Í öllum tilvikum kemur ofbeldið börnum algjörlega í opna skjöldu og þau upplifa það sem mikið áfall. Það er alltaf ofbeldismaðurinn, sem hefur frumkvæðið og ber ábyrgð á því sem gerist. Það er alltaf vilji hans, vald hans og ákvarðanir, sem ráða framvindu ofbeldisins.

Sifjaspell byrja stundum sem þukl og káf og haldast þannig (þ.e. ofbeldismaðurinn lætur barnið fróa sér og/eða hann fitlar við og/eða sleikir kynfæri barnsins). Stundum beita ofbeldismennirnir þukli og káfi um tíma en hefja síðan full kynmök er barnið eldist, ýmist í endaþarm, munn eða kynfæri stúlkna. Stundum hefjast sifjaspellin með kynmökum og haldast þannig allan tímann og það kemur fyrir að stúlkur verði þungaðar af völdum ofbeldismannsins.

Stundum hætta sifjaspell jafn skyndilega og þau byrja og án þess að stúlkan geti gert sér grein fyrir ástæðum þess. Stundum lýkur þeim vegna þess að ofbeldismaðurinn eða fjölskylda stúlkunnar flytur eða vegna þess að heilsu ofbeldismannsins hrakar mjög eða hann fellur frá. Loks tekst barninu sjálfu stundum að stöðva ofbeldið með mótþróa sínum, með því að sniðganga ofbeldismanninn eða með því að segja frá ofbeldinu, sem þó er fremur sjaldgæft. Ástæðurnar fyrir því að sifjaspellin hætta geta sem sagt verið margvíslegar og möguleikar stúlkna til að sleppa frá ofbeldinu ráðast oft af því hvort ofbeldismaðurinn býr á heimili þeirra eða ekki. Búi hann þar er t.d. illmögulegt að sniðganga hann. Stundum verður það lokavörn unglingsstúlkna að taka upp fast kynferðissamband við sér eldri pilta í von um að ofbeldismennirnir láti þá af ofbeldi sínu gagnvart þeim.

Sifjaspell standa yfirleitt yfir í nokkur ár. Stundum muna konur aðeins eftir einu skipti, þegar þær byrja að rifja ofbeldið upp, en oft kemur í ljós við upprifjun að það hefur staðið lengur. Sumar konur muna eftir að sifjaspellin hafi staðið í meira en 10 ár. Stundum eiga konur engar bernskuminningar án sifjaspella.

Hvernig líður stúlkum, sem verða fyrir sifjaspellum?

Enn verður vísað til lýsinga þolenda sifjaspella um tilfinningalega líðan stúlkna eftir að sifjaspell eru byrjuð.

      “Það var allt lokað innra með mér og ég fyrirleit sjálfa mig, mér fannst að það hlyti að vera eitthvað við sjálfa mig, sem ylli þessu. Ég ásakaði sjálfa mig, hann gaf mér peninga og það gerði það enn verra vegna þess að þannig tryggði hann að ég gæti ekki sagt frá og mér fannst ég vera eins og hóra.”

 

“Ég var svo hjálparvana, ég vildi bara helst loka augunum og deyja. Ég skammaðist mín, mér fannst að allir sæju að ég var öðruvísi af því hann hafði gert þetta við mig, en öllum virtist vera sama um hvernig mér leið.”

“Mér fannst ég vera skítug, ljót, svo viðbjóðsleg og ómerkileg. Það versta og erfiðasta í minningunni er, að stundum fannst mér það sem hann gerði ekki svo hræðilega vont, af því að stundum fann ég fyrir kynferðislegri örvun og þá fylltist ég enn meiri sektarkennd.”

“Mér fannst allt dimmt og kalt. Eins og ég hefði dáið innra með mér, ætti engan pabba lengur, væri tilfinningalaus og að ég gæti engum treyst framar.” “Mér fannst ég bera ábyrgðina og kenndi sjálfri mér um allar misþyrmingarnar sem hann beitti mig, bæði líkamlegar pyntingar og þær kynferðislegu. Hann sagðist alltaf verða að gera þetta af því ég væri svo vond. Ég held að tilfinningar mínar hafi verið gjörsamlega frosnar. Ég man bara eftir að hafa verið öll dofin. Ég man hvernig ég hnipraði mig saman uppi í herberginu mínu, hlustaði og beið í skelfingu eftir því hvort hann kæmi eða ekki. Verst var þegar gestir komu og maður þurfti að koma niður og heilsa öllum og láta eins og allt væri í lagi. Og allan tímann var maður að hugsa “Guð minn góður hvað á ég að gera” og reyna samtímis að hafa stjórn á sér og reyna að vera eðlilegur. Þegar svo ofbeldið byrjaði var ég öll dofin.”

“Hræðsla, ég man ekki eftir öðru en hræðslu. Ég held að ótti hafi verið öllum tilfinningum yfirsterkari. Ég var eins og dofin, mér fannst að ég yrði að gera allt sem hann sagði mér.”

Án tillits til hversu lengi sifjaspellin standa, hve gamlar stúlkur eru þegar þau hefjast, hvort beitt er líkamlegu ofbeldi samfara þeim og hvort ofbeldismaðurinn nauðgar þeim eða heldur sig við þukl og káf, lýsa konur, sem orðið hafa fyrir sifjaspellum, tilfinningum sínum þannig, að þeim hafi fundist þær vera hjálparvana, valdalausar, hræddar og að þær gætu engum treyst. Þær lýsa einnig miklum breytingum á sjálfsmynd. Eftir að sifjaspellin hefjast verða ráðandi tilfinningar sjálfsfyrirlitning, sekt, skömm, sjálfsásökun og að þær séu öðruvísi en aðrir.

Tilfinningar eins og þessar eru ekki aðeins ráðandi meðan ofbeldið stendur yfir, þær fylgja konum fram á fullorðinsár, verða hluti af sjálfsmynd þeirra og hafa áhrif á tengsl þeirra við annað fólk og allt þeirra líf.

Allt þetta tilfinningaumrót hjá stúlkum tengist síðan hugmyndum um að þær beri ábyrgð á því sem gerist. Þær ásaka sig fyrir að hafa ekki getað komið í veg fyrir sifjaspellin. Sjálfsásökunin verður enn sterkari ef þær hafa tekið við gjöfum eða fundið fyrir kynferðislegri örvun af sifjaspellunum. Það, að geta ekki stjórnað líkamlegum viðbrögðum, eykur sektarkenndina.

Hvað getur skýrt það að börn taka á sig sökina og ábyrgðina á sifjaspellunum? Trúlega er skýringanna að leita í valda- og réttleysi barna. Eina leiðin fyrir börn til að skýra fyrir sjálfum sér það vonda og hræðilega, sem sifjaspellin hafa í för með sér, er að leita skýringanna í eigin hegðun eða persónu. Skýringarnar, sem eru þeim nærtækastar eru, að þetta komi fyrir af því að þau séu gölluð, vond, að sifjaspellin séu einhvers konar refsing, sem þau eigi skilið. Staða barna er slík að þau geta ekki útskýrt sifjaspellin fyrir sjálfum sér á neinn annan hátt.

Þrátt fyrir einstaklingsmismun er það áberandi hversu lík upplifun kvenna og viðbrögð við sifjaspellum eru, bæði á meðan á þeim stendur og eftir að þeim lýkur. Form þeirra, hve lengi þau standa og tengsl stúlkna við ofbeldismenn breyta þar engu um. Afleiðingar sifjaspella eru alltaf alvarlegar og það er huglæg upplifun barna og kvenna af þeim, sem ákvarðar skaðsemina, ekki form þeirra eða aðrir ytri þættir.

Að lifa af; andófið og glíman við afleiðingar sifjaspella.

En eru börn, sem verða fyrir sifjaspellum, þá ekki fórnarlömb, viljalaus, yfirbuguð, búin að gefast upp? Vissulega eru þau fórnarlömb sifjaspella, vissulega eru þau valdalaus, vissulega er sjálfsmynd þeirra léleg og þau eru afar auðsæranleg. En þau gefast ekki upp, þau lifa af.

Það er munur á því að vera fórnarlamb og gefast upp og þess, sem á engilsaxnesku er kallað “survivor,” sú/sá sem lifir af. Munurinn felst í því að í síðara tilvikinu tekst einstaklingurinn á við og glímir við það, sem ógnar sjálfsmyndinni.

Tilvistarglímutök (coping strategies) eru hugsanir og/eða viðbrögð, sem beinast að því að fjarlægja eða bægja frá ógn við sjálfsmynd okkar. Ógn er alltaf huglæg reynsla og leiðirnar, sem einstaklingurinn grípur til, geta breyst frá einum tíma til annars og þær útiloka ekki hver aðra. Einstaklingurinn metur aðstæður sínar og bjargir, ytri sem innri, og reynir fyrir sér um leiðir eða glímutök til þess að losna við eða draga úr ógninni, sem steðjar að (Breakwell, 1986).

Glímutökin og andófið, sem þolendur sifjaspella grípa til, til að ráða við þá tilfinningalegu ógn sem að þeim steðjar, og tilraunir þeirra til að binda enda á ofbeldið eru margs konar. Þau eru merki um styrk einstaklingsins. Viðbrögð barna við sifjaspellum eru eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum.

Hér verða nefnd nokkur dæmi um glímutök og andóf þolenda sifjaspella og sem fyrr fá konurnar sjálfar orðið. Lítum fyrst á nokkur dæmi um mótspyrnu þolenda sifjaspella.

    “Ég held að ég hafi verið farin að reikna hann út (frændi, sem bjó ekki á heimilinu, en hann misnotaði stúlkuna í 3 ár frá 5 ára aldri). Ég fann á mér þegar hann ætlaði að misnota mig og þá hljóp ég í burtu, lokaði mig inni í herbergi eða hljóp bara út og loksins gafst hann upp. Annar gamall karl, nágranni, reyndi líka einu sinni að fara að káfa á mér, ég hugsa að ég hafi verið um sex eða sjö ára. Þegar hann byrjaði varð ég ofsalega hrædd og barðist á móti og hann reyndi aldrei aftur. Þegar ég var á fimmtánda ári reyndi maður, sem ég kannaðist við, að nauðga mér í bílnum sínum. Mér fannst ég vera króuð af og ég fór alveg í panik og henti mér út úr bílnum og hann varð hræddur og hætti.”

Þessi stúlka notaði mismunandi glímutök við mismunandi aðstæður og henni tókst að binda enda á ofbeldið. Í öðrum tilvikum reynist það að forðast ofbeldismanninn ekki nóg til að binda enda á sifjaspellin eins og eftirfarandi frásögn ber mað sér.

    “Ég var víst orðin 13 ára þegar ég man að ég reyndi meðvitað að forðast hann (pabbann) en hann hélt áfram að þvinga mig til að taka þátt í þessu ógeði. Það hætti ekki fyrr en ég var fimmtán ára og ég reyndi að bjarga mér þá með því að vera á föstu með strák. Ég held að það hafi hjálpað mér að lifa þetta af að ég og systir mín vissum hvor um aðra. Við vissum að hann var að misnota okkur báðar og við stóðum saman um að reyna að forðast hann, þó að það byndi ekki enda á viðbjóðinn í sjálfu sér.”

Mjög oft reyna börn að segja nei og að stöðva sifjaspellin með því móti. Stöku sinnum tekst það eins og eftirfarandi frásögn sýnir.

    “Ég fór aldrei til afa nema ég neyddist til þess. Þegar ég var þar var ég alltaf látin sofa í herberginu hjá honum og þar misnotaði hann mig. Allir töldu að við, börnin í fjölskyldunni, elskuðum afa, hann hafði orð á sér sem einstaklega barngóður maður. Þegar ég var loksins orðin 12 ára sagði ég að ég vildi ekki sofa inni hjá afa og þau (sonur hans og tengdadóttir) urðu reið við mig og ég varð að gefast upp. Næst þegar ég átti enn einu sinni að sofa hjá honum þá tók ég koddann og sængina og fór inn í annað herbergi og sagði við hann “Ég ætla að sofa hér.” Hann varð öskureiður og hann kom í það minnsta þrisvar inn í herbergið um kvöldið og skipaði mér að koma inn til sín en ég sagði alltaf nei. Ég skil eiginlega ekki enn þann dag í dag hvernig ég gat verið svona ákveðin, held að það hafi verið einhver innri styrkur, að nú væri nóg komið. Ég neitaði alveg að fara þangað aftur eftir þetta nema í fylgd einhvers fullorðins.”

Því miður dugir barni sjaldan að segja nei. Til þess er valdamismunur barns og fullorðins of mikill. Útkoman verður því oftast sú að nei barnsins er virt að vettugi eins og eftirfarandi frásögn ber með sér.

    “Pabbi varð alveg óður ef ég sagði “nei pabbi, ég vil það ekki” eða eitthvað í þá veru. Þá varð hann reiður, stóð fyrir utan herbergisdyrnar mínar og kallaði mig öllum illum nöfnum, og hótaði að yfirgefa mig, sagði að sér þætti ekki vænt um mig lengur. Ég hélt lengi að honum þætti vænt um mig og það var ofsalega erfitt að hlusta á hann segja svona hluti. Stundum grét hann þegar ég sýndi mótþróa og það að sjá hann gráta fór alveg með mig. Að segja nei breytti engu.”

Jafnvel við erfiðustu aðstæður reyna stúlkur að finna leiðir til að komast undan eins og eftirfarandi tilvitnun sýnir, en í þessu tilviki var stúlkan beitt líkamlegu ofbeldi og báðir foreldrar hennar drukku mikið.

    “Ég reyndi að fá fólk til að gera eitthvað svo ég gæti komist til pabba míns aftur. (Hún bjó hjá móður og stjúpa.) Ég bað nágrannakonu að hjálpa mér að komast burt með því að hringja í barnaverndarnefnd, þeir (barnaverndarnefnd) gerðu ekkert. Mamma gat verið svo sannfærandi og einlæg þegar hún var edrú og hún gat auðveldlega blekkt fólk. Svo ég reyndi að hafa eitthvað fyrir stafni alla daga og vera sem minnst heima, ég þorði ekki að vera heima, þar var ekki hægt að læsa neinum dyrum. Loksins þegar ég var um 13 ára, þá sagði ég pabba mínum frá hvað var að ske (hann gerði ekkert til að stöðva sifjaspellin) og þegar ég var á sextánda árinu hafði ég loksins hugrekki til að verja mig og segja við stjúpa minn að pabbi vissi um þetta og þá loksins hætti hann.”

Enn ein leið, sem stúlkur hugleiða, og sumar reyna, er að binda enda á ofbeldið með því að hlaupast að heiman. Flestar hverfa frá því ráði þar sem þær sjá enga möguleika á að komast af. Sumar velja þó þennan kost. Starf Stígamóta hefur leitt í ljós að hluti þeirra stúlkna, sem leita t.d. til Rauða kross hússins í Reykjavík, leitar þangað til þess að binda enda á sifjaspell.

Stúlkur, sem flýja sifjaspell með því að fara að heiman, eru að sjálfsögðu afar auðsæranlegar og illa í stakk búnar að standa fyrir sínu. Þær eru auðsæranlegar tilfinningalega og kynferðislega og illa staddar fjárhagslega. Þessi leið til að komast hjá misnotkun heima fyrir leiðir því oft til frekari kynferðislegrar misnotkunar og neyslu vímuefna. Sem betur fer hefur skilningur meðal starfsfólks í unglingamálum aukist á því, að sifjaspell eru stundum ástæðan fyrir að ungar stúlkur fara að heiman og á götuna. Meðferð slíkra mála, að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu, hefur því batnað síðustu árin.

Stundum bregðast stúlkur við sifjaspellunum með glímutökum sem eru sambland af mótspyrnu og því sem nefna mætti “að loka á”. Í þessu felst að láta undan ofbeldinu, gera sér grein fyrir að valdamismunurinn, þar með talið líkamlegt ofbeldi eða hótanir um það, er slíkur að mótspyrna er vonlaus, en samtímis að sýna mótþróa með því að hleypa ofbeldismanninum ekki að sér, hvorki að tilfinningum né hugsun. Hér verða nefndar tvær tegundir slíkra glímutaka.

Hin fyrri felur í sér meðvitaðar tilraunir til að hafa fulla stjórn á tilfinningum sínum meðan ofbeldið stendur yfir með því að látast vera sofandi í von um að það komi í veg fyrir ofbeldið og að geta s& iacute;ðan auðveldlegar útilokað það úr huga sér.

    “Mér tókst að útiloka sifjaspellin gjörsamlega úr huga mér. Ég þóttist alltaf vera sofandi þegar hann gerði það. Á morgnana tókst mér að útiloka það úr huga mínum þannig að samskiptin við fjölskylduna voru eins og venjulega. Ég hugsaði aldrei um ofbeldið meðan það stóð yfir (ca. 6 ár) né á eftir. Mér tókst að útiloka það úr huga mínum eins og það væri eitthvað, sem snerti mig ekki. Ég leyfði mér aldrei að hugsa um það eða afleiðingarnar af því.”

Hinni leiðinni og þeirri algengari lýsa konur þannig að þær hafi orðið “dofnar”, “frosnar”, “farið burt í huganum,” “ekki hleypt neinum tilfinningum út” meðan á ofbeldinu stóð og eftir að því linnti. Eftirfarandi lýsing konu, sem sætti líkamlegu og kynferðisofbeldi frá hendi föður frá því hún var sex ára til tvítugs, gefur mynd af hvað felst í þessu.

      “Ég gaf aldrei frá mér hljóð hvað sem hann gerði, ég varð að hafa þá sjálfsstjórn, annars fannst mér að ég mundi deyja. Hvað sem hann gerði við mig, þá varð ég að hafa stjórn á sjálfri mér, ef hún brysti, bang, þá væri úti um mig. Með því að hafa þessa stjórn gat ég ímyndað mér að það væri ekki að ske, að það tæki brátt enda og hversu mjög sem ég fyndi til þá mætti ég aldrei gefa frá mér hljóð, því ef ég missti stjórnina mundi ég brotna niður og þá mundi hann hafa alla stjórn.”

 

“Ég hef hugsað um hvaðan mér kom styrkurinn sem nægði til þess að ég hef lifað af og ég held að það hafi verið fullvissan um að einhvern tímann mundi þessu linna og þá gæti lífið hafist. Svo ég varð að hafa stjórn á sjálfri mér og tilfinningum mínum. Ég glímdi líka við þetta með því að sýna heiminum hressa hlið. Ég lagði mig fram um að gefa þá mynd af mér að ég gæti ráðið fram úr öllu og væri hamingusöm. Ég hugsa að fólk, sem þekkti mig, hafi talið að ég hefði engin vandamál við að glíma. Það kom til mín með sín vandamál. Ég varð að lifa í þessum tvöfalda heimi, það var engin önnur leið.”

Konur lýsa þannig vel þeim styrk og úthaldi, sem þarf til að lifa sifjaspell af. Þær lýsa hvernig þær reyna að glíma við sifjaspellin með því að gleyma þeim, einangra þau frá daglegu lífi, með því að lifa í tveim heimum, heimi ofbeldisins og hinum venjulega heimi.

En glímutökin geta brugðist. Stundum sjá börn og unglingar enga aðra leið til að ráða við eða binda enda á ofbeldið en að reyna að svipta sig lífi. Tilraunirnar til mótspyrnu og glímutökin, sem notuð eru til að lifa af, leiða ekki til breytinga til hins betra. Sjálfsvíg getur þá virst eina leiðin út úr óbærilegum aðstæðum. Sjálfsvígstilraunir eru líka ákall um hjálp, vísbending um mikla vanlíðan og vonleysi eins og eftirfarandi tilvitnun ber með sér.

    “Ég reyndi að stytta mér aldur þegar ég var 13 ára af því að ég gat ekki afborið þetta (sifjaspellin) lengur. Ég vildi að það hætti, ég hataði sjálfa mig af því að ég gat ekki stoppað það og ég vildi ekki vera til lengur. Mér fannst það, að vera ekki til lengur, eina leiðin til að binda enda á ofbeldið. “

Stundum verða sjálfsvígstilraunirnar til þess að umhverfið bregst við og veitir barninu aðstoð. Sjálfsvígshættan er ekki liðin hjá þó sifjaspellin hætti eins og vikið verður að síðar.

Hér hefur verið dregin upp mynd af fyrstu viðbrögðum barna við sifjaspellunum. Takist þeim ekki að hindra ofbeldið með mótspyrnu og andófi, beinast glímutökin að því að hleypa ofbeldismanninum ekki að sér tilfinningalega, missa ekki stjórn á tilfinningum sínum, halda honum og því sem hann gerði utan hugarheimsins.

Börn geta auðvitað ekki vitað fyrirfram hvaða áhrif mótspyrna þeirra hefur. Að sjálfsögðu eru möguleikar þeirra til andófs takmarkaðir og takmarkanirnar eru bæði háðar mati þeirra á ytri aðstæðum og eigin björgum. Dæmi um slíkar takmarkanir eru í fyrsta lagi að aldurs-, valda- og félagsleg staða ofbeldismannsins er honum alltaf í hag. Í öðru lagi markast möguleikar til mótspyrnu af ytri aðstæðunum, svo sem hvort ofbeldismaðurinn býr á heimilinu eða ekki. Loks eru möguleikar til mótspyrnu háðir mati barna á innri björgum þeirra sjálfra og ytri björgum eins og stuðningi og þjónustu af ýmsu tagi.

Það er í góðu samræmi við reynslu barna að túlka viðbrögð þeirra við sifjaspellum sem tilvistarglímu. Þau eru ekki sjúkleg einkenni heldur heilbrigð, eðlileg viðbrögð við alvarlegu áfalli, viðbrögð, sem miða að því að lifa af. Tilvistarglímutök eru merki um styrk, ekki uppgjöf eða sjúkan persónuleika. Sá skilningur að þar sem valdi er beitt sé alltaf möguleiki til andófs og að leiðirnar, sem valdar eru, markist af mati einstaklinga á aðstæðum sínum og innri og ytri björgum liggur til grundvallar slíkri sýn. Þessi skilningur hefur áhrif á hvernig unnið er með börnum sem eru þolendur sifjaspella og konum, sem beittar hafa verið þessu ofbeldi í bernsku.

Að segja frá – að segja ekki frá.

Fæst börn segja frá séu þau beitt sifjaspellum, þau verða best geymda leyndarmál barnsins. Innra með þeim er þó stöðug barátta um hvort þau eigi/geti sagt frá eða ekki. Hvor leiðin verður ofan á getur ráðist af því hvernig barnið skynjar viðhorf fólks í nánasta umhverfi til sín og til kynferðisofbeldis.

Segi stúlkur frá sifjaspellum, velja þær oft vinkonu sína eða einhvern fullorðinn, sem þær treysta sem trúnaðarmann sinn. Sjaldnast segja stúlkur móður sinni fyrst frá. Þetta er ekki merki um að dæturnar vantreysti mæðrum sínum eða að mæðurnar bregðist þeim. Skýringin er fremur sú, að sifjaspell hafa mikil áhrif á tengsl mæðra og dætra, þau fjarlægja dæturnar tilfinningalega frá mæðrum þeirra og virðist ekki skipta máli hver ofbeldismaðurinn er. Sektarkennd dætranna og það að þær taka á sig leyndina og ábyrgðina á ofbeldinu er orsökin, ekki vanhæfni mæðra. Margar konur lýsa tilfinningum eins og þessum til mæðra sinna eftir að sifjaspellin eru byrjuð.

    “Ég fjarlægðist mömmu eftir að sifjaspellin byrjuðu, ég þorði ekki að mæta augnaráði hennar, fannst hún þá geta séð hvað hefði skeð. Ég gat snúið mér til hennar með aðra hluti, en mér fannst ég aldrei geta sagt henni frá sifjaspellunum.”

Stundum hefur ofbeldismaðurinn líka vísvitandi haft áhrif á samband móður og dóttur, t.d. með hótunum eða einangrun í því skyni að útiloka að stúlkan geti leitað til móður sinnar.

En af hverju segja börn ekki strax frá þegar þau verða fyrir sifjaspellum? Til þess að skilja betur stöðu barnsins og geta þar með hugsanlega auðveldað því að segja frá er nauðsynlegt að hafa eftirfarandi í huga:

Venjulega eru tilfinningatengslin og valdamismunurinn, bæði vegna kyns og aldurs, milli ofbeldismanns og barns nægileg til að tryggja ofbeldismanninum að barnið segi ekki frá sifjaspellunum og að hann geti því farið sínu fram. Stundum beitir hann bæði líkamlegu ofbeldi og/eða hótunum um það til að tryggja þögn barnsins. Algengara er þó að ofbeldismaðurinn beiti ógnunum og gjöfum til að tryggja þögn barna. Algengustu ógnanirnar eru “enginn trúir þér,” “þú ert vond og ferð til helvítis,” “þú verður sett í fangelsi ef þú segir frá” og “fjölskyldan splundrast, mamma þín afber það ekki,” “ég drep mömmu þína ef þú segir frá.” Slíkar ógnanir eru ekki aðeins tæki til að tryggja þögn stúlkna, þær auka einnig sektarkennd þeirra.

Þetta skýrir að hluta til hvers vegna tiltölulega fá börn segja frá sifjaspellum meðan þau standa yfir. Auk þess eru mörg börn hrædd um að þeim verði ekki trúað, segi þau frá. Þau gera sér grein fyrir að ofbeldismennirnir munu segja þau ljúga, það yrðu þeirra orð gegn orðum fullorðins karlmanns og þau vita sem er að fullorðið fólk trúir fullorðnum yfirleitt fremur en barni. Stundum segja börn ekki frá vegna þess að þau eru að vernda fjölskyldu sína fyrir þeirri röskun, sem þau vita að muni leiða af því að sifjaspellin komist upp. Loks hindrar tilfinning þeirra um sekt sína og skömm þau í að segja frá ofbeldinu. Nátengt þessu síðasta er að börn virðast reyna að gleyma sifjaspellunum, útiloka þau úr vitund sinni bæði meðan þau standa yfir og eftir að þau hætta eins og vikið var að hér að framan.

Allt það sem hér hefur verið talið upp stuðlar að því að sektarkenndin og tilfinningin um að þau beri ábyrgð á ofbeldinu, sem þau eru beitt, festa rætur innra með þeim.

Lífið eftir að sifjaspellunum lýkur.

Það kemur varla á óvart, þegar höfð eru í huga þau djúpstæðu áhrif sem sifjaspellin hafa á sálarlíf barna, að þau haldi áfram að hafa áhrif á þolendur. Almennt má segja að líf þolenda sifjaspella einkennist af stöðugri baráttu og tilraunum til að ráða við og bregðast við eftirköstum sifjaspellanna og lifa þau af. Hið ytra er líf þolendanna oftast fjarskalega venjulegt, þær eiga börn, stunda atvinnu, giftast og skilja ef svo ber undir. Að jafnaði er sem sagt ekkert sérstakt í útliti og ytra lífshlaupi flestra þeirra, sem bendir til að þær séu þolendur sifjaspella.

Langsamlega flestar konur, sem verða fyrir sifjaspellum, reyna að gleyma þeim eða gera lítið úr þeim í huga sér. Minningarnar eru þó enn til staðar, og skjóta stundum upp kollinum, en konurnar bregðast yfirleitt við þeim með því að bæla þær aftur niður og/eða gera lítið úr þeim. Þar af leiðandi tengja þær sjaldnast vanlíðan sína og erfiðleika sifjaspellunum.

Fast samband við karlmenn eða aðrar ytri breytingar á lífi þeirra verða oftast til að vekja minningarnar upp aftur. Auk þess lýsa margar konur því sem við nefnum skyndimyndum (á ensku flash-back.) Um er að ræða að snerting, lykt eða ákveðnar aðstæður verða til þess að skyndimynd eða myndbrot frá ofbeldinu þrengja sér inn í vitund konunnar án þess að hún geti haft stjórn á þeim. Skyndimyndirnar og óljósar minningar um sifjaspellin og viðbjóðinn tengdan þeim verða oft til þess að kynmök verða konum erfið og oft næsta óbærileg.

Það er fyrst og fremst innri barátta við afleiðingar sifjaspellanna, sem einkennir líf þolenda. Þessi innri átök eiga sér stað án tillits til með hvaða formi, hve lengi og hver tengsl þeirra við ofbeldismanninn eru. Algengasta sjálfsmyndin, sem þolendur lýsa, er að þær séu einskis virði, þær dugi ekki til neins og að þær treysti engum. Léleg sjálfsmynd, sjálfsfyrirlitning, einsemd, depur& eth;, tilfinningalegur doði, þunglyndi, vonleysi og stundum ótti við að vera að missa vitið, eru ríkjandi tilfinningar eins og eftirfarandi ummæli eru dæmi um.

      “Innra með mér var alltaf þessi tilfinning að ég væri geðveik en að engin vissi það og ég yrði að vera varkár og hegða mér svona og svona svo enginn kæmist að því. Þetta reyndi mikið á mig. Mér fannst ég vera einskis nýt, heimsk, feit, ómöguleg á allan hátt. Mér fannst útilokað að ég gæti orðið neitt eða náð neinu marki. Ég var öll í því að reyna að þóknast öðrum. Mér fannst ég vera tuttugu mismunandi einstaklingar og það tók virkilega á taugarnar að halda sér gangandi.”

 

“Ég var samanherpt, full af hatri, reiði og viðbjóði á sjálfri mér, en á ytra borðinu var ég þessi hamingjusama persóna. Ég var alltaf að byrja á hlutum en gat aldrei lokið þeim. Gat aldrei verið á sama stað einhvern tíma, alltaf á flótta frá lífinu, drakk mikið og var í því að niðurlægja sjálfa mig.”

“Árum saman eftir ofbeldið fannst mér ég ekki vera einstaklingur, mér fannst ég vera eins og dauð. Ég reyndi að gleyma sifjaspellunum, tengdi aldrei neitt af öllu því sem kom fyrir mig, það bara skeði.”

“Sjálfmynd mín var mjög neikvæð. Ég þorði aldrei að hafa skoðun á neinu eða mótmæla neinu. Mér fannst ég ekki geta gert neitt rétt, mér fannst ég vera algjörlega vonlaus á öllum sviðum. Sifjaspellin hafði ég grafið djúpt í huga mér.”

Tilfinningin að geta ekki haft stjórn á lífi sínu, að vera ofurseld vilja annarra og hin stöðuga sektarkennd sem hrjáir flesta þolendur eru leifar frá sifjaspellaferlinu. Hið sama á við um hvoru tveggja, að tengja ekki áföll fyrri reynslu en telja þau galla hjá sjálfum sér, og hina ráðandi tilfinningu um að vera einskis virði. Konur lýsa þessu þannig:

      “Áður var sjálfsmynd mín mjög neikvæð. Ég þorði aldrei að hafa skoðun, segja hug minn eða gera neitt á eigin spýtur. Mér fannst ég aldrei gera neitt rétt, mér fannst ég vera vonlaus. Ég reyndi að vera góð móðir og eiginkona, en dugði ekki einu sinni til þess.”

 

“Aðrir hafa ráðskast með mig alla ævi. Ég var aldrei sátt við sjálfa mig. Ég vildi ekki tengjast fólki of náið, ýtti öllum frá mér en þráði samt ekkert heitara en að njóta ástar og umönnunar en þorði engum að treysta.”

“Ég gat aldrei varið sjálfa mig. Ég vissi að ég átti sama rétt og aðrir, en samt gat ég aldrei staðið fyrir máli mínu og ég var svo einmana og þunglynd. Mér fannst ég vera lifandi dauð.”

“Í 12 ár var ég eins og lokuð í mínum litla heimi innan fjögurra veggja heimilisins, tók aldrei þátt í neinu, og ég held að það hafi verið af því að sjálfstraustið var ekkert, ég bara lét allt yfir mig ganga, reyndi að gera mitt besta við að ala upp börnin mín. Stundum komu tímabil þegar ég hleypti engum tilfinningum að en svo gátu þær skyndilega brotist fram án fyrirvara þegar einhver sagði eitthvað eða bara af því sem var í sjónvarpinu og ég varð ofsalega upptætt tilfinningalega. Þegar ég var yngri og sá stelpur sem stóðu á eigin fótum var það mér óskiljanlegt hvernig þær gátu það. Mig skorti alltaf sjálfstraust. Þessar tilfinningar leita stundum enn á mig þegar ég er með vini mínum og ég hugsa, “hvernig nennir þú að vera með mér.” Mér finnst stundum enn að ég sé algjör drusla og spyr sjálfa mig hvort honum finnist hann ekki óhreinn af því að vera með mér.”

Eru þessi viðbrögð, sem ummælin hér að framan endurspegla, ekki merki um sjúklegt hugarástand kvennanna? Ég tel ekki að svo sé. Þessi viðbrögð eru í raun eina færa leið þolenda til að lifa af. Þetta er félagslega skilyrta leið, sem stafar af því að konan fékk enga hjálp eða stuðning, sem gagnaðist meðan á sifjaspellunum stóð og eftir að þau hættu. Þegar þolendur fá viðeigandi stuðning og mæta skilningi á vanda sínum byggðum á þeirri túlkun á líðan þeirra sem hér hefur verið stuttlega kynnt, sýnir sig að þolendur sifjaspella segjast þá fyrst hafa farið að muna meira frá tíma sifjaspellanna og farið að tengja lífsferil sinn og það hvernig þær reyndu að lifa ofbeldið af og afleiðingar þess. Það er fyrst þá sem þolendur finna til þess öryggis, stuðnings og trúnaðar, sem er forsenda þess að takast á við fortíðina og huga að breytingum á lífi sínu.

Líf þolenda sifjaspella er ferli þar sem konurnar takast á virkan hátt á við neikvæðar afleiðingar sifjaspellanna. Stundum gefast þær upp tímabundið í þeirri glímu, en að baki uppgjafarinnar og sársaukans, lifir vonin um betri tíð og barátta þeirra við að ná aftur tökum á lífinu heldur áfram eins og eftirfarandi tilvitnun sýnir.

    “Fyrir nokkrum árum, þegar ég var sem lengst niðri, var eins og það kviknaði ljós innra með mér – já það er til leið fyrir mig, kannske ég geti gert eitthvað með líf mitt. Þá byrjaði löng þrautaganga, að fara að hugsa um allt það, sem fyrir mig hafði komið og bregðast við því.”

Stundum bregðast þó glímutökin og þolendum finnst engin lausn í sjónmáli önnur en sú að stytta sér aldur. Í ársskýrslum Stígamóta kemur fram að allt að helmingur þeirra einstaklinga sem leita til Stígamóta árlega höfðu hugleitt sjálfsvíg einhvern tímann á ævinni og að rúmlega 15% þeirra höfðu gert sjálfsvígstilraunir á fullorðinsaldri, sumar ítrekað.

Þegar þolendum gefst tækifæri til að horfa um öxl og huga að hvernig þær brugðust við sifjaspellunum og þeim valkostum, sem þeim fannst sér bjóðast, upplifa þær fyrri glímutök yfirleitt neikvætt. Mörgum þeirra auðnast að velja ný glímutök, nýjar leiðir, sem eru í samræmi við nýjan skilning þeirra á lífi sínu, fái þær tækifæri, skilning og stuðning til þess að ræða af einlægni um reynslu sína. Slíkt breytir ekki aðeins lífi einstakra kvenna, það getur einnig leitt til samstöðu þeirra og félagslegra aðgerða, sem byggja á þeim skilningi að sifjaspellin og erfiðleikar þeirra séu ekki aðeins einstaklingsbundin ógæfa, hvortveggja eigi sér félagslegar orsakir og þeim megi breyta. Stígamót og starfsemi þeirra eru sönnun þess.

Hvernig getum við að hjálpað barni til að segja frá?

Af ofansögðu má ljóst vera að það er við ramman reip að draga að fá börn til að segja frá og tala um sifjaspell, sem þau hafa verið beitt. Viðhorf einstaklinga og samfélagsins í heild til sifjaspella skipta miklu máli varðandi það hvernig til tekst að fá barn til að segja frá slíkri reynslu. Eftirfarandi tvö atriði, sem bæði beinast að okkur sjálfum og viðhorfum okkar eru forsenda þess að við getum hjálpað barni til að segja frá sifjaspellum.

Fyrsta skilyrðið er að horfast í augu við og viðurkenna að sifjaspell eru veruleiki margra barna, að þau eiga sér stað í allskyns fjölskyldum, hugsanlega líka í þinni fjölskyldu.

Annað atriðið er að við trúum frásögn barna um það ofbeldi, sem þau hafa verið beitt. Því hefur verið haldið fram að börn hafi svo ríkt ímyndunarafl að þau geri ekki greinarmun á ímyndunum og raunveruleika. Því er til að svara að ímyndanir barna eiga sér alltaf rætur í raunveruleikanum. Það hefur einnig sýnt sig að jafnvel mjög ung börn geta munað og endursagt liðna atburði. Rannsóknir hafa einnig staðfest að treysta má frásögnum barna um að þau hafi verið beitt sifjaspellum. Sú skoðun að frásögnum barna sé ekki trúandi vegna þess að þau hafi svo ríkt ímyndunarafl er því úr lausu lofti gripin.

Stundum kemur það fyrir að börn dragi til baka fyrri framburð sinn. Það er ekki merki um óáreiðanleika þeirra. Ástæður þessa eru að annað hvort ógnar ofbeldismaðurinn barninu eða að það sjálft treystir sér ekki til að fylgja frásögninni eftir fái það ekki nægan stuðning til þess frá samfélaginu og fjölskyldu sinni.

Nokkur umræða hefur orðið um að foreldrar, sem eiga í hatrömmum forsjárdeilum, leggi börnum orð í munn í þá veru að annað foreldrið hafi misnotað það kynferðislega. Það hefur sýnt sig að þetta er sjaldgæft og þeir, sem hafa reynslu af að tala við börn um sifjaspell, eiga yfirleitt tiltölulega auðvelt með að meta hvort saga barnsins er uppspuni eða ekki. Það má ráða af orðavali, lýsingu og tilfinningalegum viðbrögðum barnsins.

Reynslan er að börn segja yfirleitt ekki frá nema broti af þeirri misnotkun, sem þau verða fyrir. Reglan er því að óhætt er að trúa börnum þegar þau segja frá sifjaspellum eða öðru kynferðisofbeldi.

Leiðirnar til þess að auðvelda börnum að segja frá eru margvíslegar. Hér verður minnst á nokkrar. Hin fyrsta er að ræða við öll börn um að stundum verði börn fyrir því að þeim eldri strákar eða karlmenn, bæði ókunnugir og einnig karlmenn, sem eru þeim nákomnir, káfi eða þukli á þeim á þann hátt, sem þau sjálf vilja ekki. Undirstrika þarf að það sé rangt að gera slíka hluti, að barnið, sem fyrir því verði, beri enga ábyrgð á því og að barnið ætti að segja einhverjum, sem það treystir, strax frá ef slíkt kemur fyrir svo hægt sé að stöðva það. Allir foreldrar, kennarar, fóstrur og aðrir þeir, sem hafa umsjón með börnum, ættu að temja sér að ræða um þessa hluti við þau börn sem eru í þeirra umsjá. Það eru bein skilaboð til barna um að hinir fullorðnu séu reiðubúnir til að vernda barnið og taka á sig ábyrgð á að gera eitthvað í málinu, sé barn beitt kynferðisofbeldi af einhverju tagi.

Í öðru lagi verðum við að gera okkur grein fyrir að stundum reyna börn að segja okkur frá sifjaspellunum óbeint, t.d. í teikningum og sögum. Mörg yngri börn hafa ekki hugtök til að segja frá beint. Þau kunna þess í stað að nota leiki, teikningar eða myndhverfar frásagnir til þess að tjá sig. Dæmi um myndhverfar frásagnir eru að pabbi eigi ófreskju, sem sé í rúminu, að ormur hafi bitið þau eða að pabbi setji mjólk í pissið.

Stundum sýna börn mikla tregðu við að fara í heimsókn til einhvers í fjölskyldu eða vinahópi okkar. Þá er sjálfsagt að gefa sér tíma til að kanna hver ástæðan er í stað þess að þvinga barnið til að fara.

Margir halda að börn, sem verða fyrir sifjaspellum, sýni ákveðin einkenni þess í hegðun. Það er ekki tilfellið, sifjaspellum fylgja engin afdráttarlaus einkenni. Hitt er rétt að börn, sem verða fyrir sifjaspellum, sýna stundum almenn einkenni um tilfinningalega og líkamlega vanlíðan. Okkur ber að kanna slíkt og þá er mjög mikilvægt að hafa í huga, að ástæðan fyrir vanlíðunareinkennum kann að vera að barnið hafi v erið kynferðislega misnotað og um það þarf að ræða við barnið.

Hér hafa aðeins verið nefndar nokkrar leiðir til þess að auðvelda börnum að segja frá séu þau beitt sifjaspellum. Við verðum þó að hafa í huga að börn eru oftast treg til að segja frá slíku af þeim ástæðum, sem þegar hafa verið raktar hér að framan. Forsendur þess að okkur takist að vinna trúnað og traust barna og að þau segi frá sifjaspellum eru að við, hinir fullorðnu, sýnum börnum þolinmæði, berum virðingu fyrir þeim og höfum hæfni til að setja okkur í spor þeirra. Að beita barn eða ungling yngra en 18 ára sifjaspellum varðar við lög um vernd barna og jafnframt er það refsivert athæfi samkvæmt almennum hegningarlögum. Komi í ljós að barn sé beitt sifjaspellum eða grunur vaknar um að svo sé, ber að tilkynna það til barnaverndarnefndar í því sveitarfélagi sem barnið býr. Ýtarlega umfjöllun um það ferli, sem þá tekur við má lesa um í bæklingi Stígamóta um sifjaspell.

Sjá einnig grein um nauðganir

Birt með góðfúslegu leyfi Stígamóta

doktor.is logo

SHARE