Líkami minn kallar á brauð!!

Ég hef tekið þá ákvörðun að borða hollari mat. Ekki af því ég sé orðin eitthvað feit eða neitt svoleiðis, heldur af því ég vil vera heilbrigð og lifa lengi og vel, mig langar ekki að lifa ótrúlega lengi en vera bara rúmfast og biturt gamalmenni. En allavega…. Ég byrjaði nýlega að vinna á vinnustað þar sem boðið er upp á dýrindishollustumat á frábæru verði á hverjum degi. Það er hægt að velja úr 4 tegundum á hverjum degi og þetta er allt alveg svakalega gott og girnilegt og ég er mjög ánægð með þetta.

Ég borða mig sadda og held svo áfram að vinna, nema hvað, að ég er bara södd í svona klukkutíma, en þá kemur hungrið og af þvílíkum krafti. Það er bara eins og ég hafi ekki borðað í marga daga. Yfirleitt er ég þannig að ég get alveg þraukað milli máltíða og ekkert vesen og hef aldrei verið mikið fyrir „millimál“. Ég borða yfirleitt  bara morgunmat, hádegismat og kvöldmat.

Ég hef ákveðnar kenningar um þetta „hungursneyðar“hungur mitt og hún er svohljóðandi:

Ég elska brauð. Ég vil helst hafa brauð með öllu og finnst það eiga heima með öllum mat. Mér finnst allt brauð gott, allt í lagi, nánast allt. Ef brauð er farið að vera mjög dökkt og farið að nálgast rúgbrauð þá er ég ekkert svakalega hrifin. Ef ég kaupi mér salat einhversstaðar (sem hefur kannski gerst tvisvar á ævinni) þá hefur það verið af því að það eru BRAUÐteningar í salatinu. Hingað til hef ég alltaf sagt „salat er meðlæti!“ og haldið svo áfram að slafra í mig steikarsamlokunni með Bearnaisesósu.

Brauð fyllir vel upp í magann og ég er södd í langan tíma á eftir. Kannski af því það er erfitt að melta brauð og tekur langan tíma, ég veit það ekki, er ekki næringarfræðingur. Ég held að maginn minn og meltinginn sé núna alltaf að bíða eftir stóra erfiða bitanum sem ég borða í flest mál og drífur sig að melta hollustuna og svo er maginn bara strax orðinn tómur. Maturinn sem ég borða þessa dagana er auðmeltanlegur og þess vegna verð ég svona fljótt svöng aftur. Ég fer að sjá fyrir mér rúnnstykki, samlokur, aspasstykki og fleira gúmmelaði en ég SKAL ekki hætta að borða hollt, þó svo að ég sé orðin langeygð að bíða eftir orkunni og öllu þessu góða sem fylgir því að borða hollt.

Líf og fjör

 

SHARE