Lítill drengur kaldur og hrakinn á Reykjanesbraut

Guðmundur Vignir Þórðarson var að keyra Reykjanesbrautina frá Hafnarfirði og inn í Kópavog í gærkvöldi.

„Það var komið svarta myrkur og hitastigið -1 gràða. Rétt við golfvöll Gkg sé ég svartklæddan dreng hágrátandi, baðandi út höndum að reyna að stoppa bíla. Þar sem ég var à vinstri akrein og umferð mikil gat ég ekki stoppað,“ segir Guðmundur í færslu sem hann birti á Facebook. Það vakti athygli hans að enginn stoppaði til að athuga með drenginn. Drengurinn var hinum megin við Reykjanesbrautina svo Guðmundur fór upp á næsta hringtorgi, upp að Vífilstöðum og snéri við til að athuga með drenginn.

Guðmundur Vignir Þórðarson

Guðmundur segist ekki hafa vitað hvort einhver væri nú þegar búinn að athuga með hann og taka hann upp í bíl.

En nei, þar sat hann á aðreininni hágrátandi, var týndur og orðið mjög kalt. Hann hafði misst stjórn á skapi sínu í Costco og rokið burt frá foreldrum sínum. Hann vissi símanúmer mömmu sinnar og ég hringdi í hana og við mæltum okkur mót við Costco. Foreldarnir voru búin að hlaupa um allt og leita að honum, búið var að hringja á lögreglu og næst var að ræsa út björgunarsveit.
Ég get alveg sett mig inn í þessar aðstæður að 11 àra barnið, sem missti stjórn à sér hljóp í burtu og gerði mistök sem komu honum og fjölskyldunni í vonda stöðu.
Það sem ég skil aftur à móti ekki er að hann er búin að labba frà Costco og nànast inn í Kópavog og enginn er búin að athuga með barnið. Mér finnst það í raun skammarlegt,“ skrifar Guðmundur. 

Þessi færsla vakti athygli okkar á hún.is, einmitt vegna þessa. Af hverju stoppar enginn til að athuga með grátandi barn úti í vegkanti? Hvað flýgur í gegnum huga þess fólks? Hugsa allir að næsti maður muni hugsanlega athuga með barnið?

SHARE