Loforð sem ekki höfðu staðist – Þjóðarsálin

Klukkan hálf sjö í morgun, nákvæmlega tveimur timum eftir að ég sofnaði í “gærkveldi” eftir að hafa bylt mér alla nóttina úr áhyggjum af framtíðinni, jafnvel bara fram að mánaðamótum, birti til í herberginu hjá mér og í svefnrofanum sá ég fyrir mér myndarlegan mann, ljósan yfirlitum og það geislaði af honum bjartsýni, gleði og ákveðni. Með vinarlegri röddu hóf hann að breiða út fagnaðarerindið. Hann talaði um breytingar í landinu, bjartri framtíð, samkennd með náunganum og jafnrétti allra manna. Í eitt augnablik var ég ekki alveg viss um hvort kristur sjálfur hefði birst mér í draumi en það rann fljótlega upp fyrir mér að ég hafði ekki orðið fyrir neinni guðdómlegri reynslu.
Nei, þetta var bara minning frá kosningafundi Sigmundar Davíðs í vor. Loforð sem ekki höfðu staðist. Þar sem ég lá í rúminu helltist yfir mig sama örvænting og hafði haldið fyrir mér vöku kvöldið áður. Hvernig á ég að komast af, fram að mánaðarmótum.
Hvernig útskýri ég fyrir börnunum á sannfærandi hátt að oftast sé hægt að borða mat sem komin er fram yfir síðasta söludag. Að það þurfi ekki allir að fara í framhaldsnám,- hver eigi annars að vinna á kassanum í Bónus. Að það sé engin framtíð í fótboltaæfingum,- það eru bara örfáir sem ná langt í þeim bransa og til hvers að eyða peningum í tónlistaskóla þegar það er alveg hægt að læra þetta allt á YouTube.
Nei sem betur fer myrkvar snemma á Íslandi og þá þarf ég ekki að reyna að brosa lengur og tárin mega streyma án þess að nokkur sjái þau.
Þar sem ég ligg uppi í rúmi leitar hugurinn til blíða og bjarta mannsins, þann sem ég ennþá trúi á, og ég bið:

Guð – gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og visku til að greina þar á milli.

SHARE