Lyftu rétt! – Þú átt bara eitt bak

Til að forðast óþarft álag á liðamót í hryggsúlu og vefi í kringum þau er nauðsynlegt að tileinka sér góða líkamsbeitingu og vinnustellingar.
Hreyfivinnu ættu allir að tileinka sér. Það er kölluð hreyfivinna þegar vöðvar slaka og spenna á víxl og gera blóðrásinni þar með kleift að flytja næringu til vöðvanna og úrgang frá þeim. Fjölbreytni í starfi er nauðsynleg og dregur úr hættu á líkamlegum óþægindum. Engin vinnustelling er það góð að æskilegt sé að halda henni óbreyttri í langan tíma. Skiptu því sem oftast um vinnustellingu.

Hryggsúlan er byggð upp af 33 hryggjarliðum. Milli þeirra eru fjaðrandi hryggþófar úr trefjabrjóski með mjúkum hlaupkenndum kjarna innst sem virka sem demparar. Utan um hryggsúluna eru liðbönd og vöðvar sem ásamt hryggþófunum auka styrk hennar og hreyfanleika. Innan í hryggsúlunni er síðan mænan vel varin. Út frá mænunni liggja taugaræturnar sem greinast í taugar og bera boð til og frá líkamshlutum.

Ef álagið á “demparana” verður of mikið þá er hætta á því að þeir springi. Kjarninn leitar þá út og getur valdið þrýstingi á taugarætur eða mænu. Þetta getur gerst skyndilega eða eftir langvarandi álag. Þrýstingur á taugarót getur valdið ýmsum einkennum t.d. verkjum, skyntruflunum, vöðvaslappleika eða lömun. Lega taugarinnar sem verður fyrir þrýstingi, ræður hvar einkenna verður vart í líkamanum. Algengast er að taugaþrýstingurinn stafi af brjóskeyðingu, brjósklosi eða áverka.

Sjá einnig: DIY: Ekki láta böndin sjást á bakinu!

Mjög mikilvægt er að kunna að lyfta rétt. Það þarf ekki nema eina ranga lyftu til að fá í bakið. Þó að það líti ómerkilega út og virðist ekki vera þungt, þá getur það verið nóg til að valda bakverkjum ef ekki er rétt farið að.

Þrjár mikilvægar reglur sem ber að hafa i huga
* Haltu hlutnum eins þétt að líkamanum og hægt er allan tímann
* Varastu að snúa uppá hryggsúluna þegar haldið er á þungum hlutum
* Notaðu stóru lærvöðvana til að lyfta en ekki bakvöðvana.

 

Lyftu rétt


– áætlaðu þyngd hlutarins

– hafðu gott bil á milli fótanna

– snúðu beint að hlutnum og stattu eins nálægt honum og hægt er
 

 

 

– beygðu hné og mjaðmir

– haltu bakinu beinu

– náðu öruggu taki með beina olnboga og axlir slakar

 

 

 

 

– lyftu með því að færa líkamsþungann frá tám aftur á hæla

– réttu rólega úr hnjám og mjöðmum samtímis

 

 

 

 

 

 

– haltu hlutnum allan tímann eins nálægt líkamanum og hægt er

 

 

 

 

 

 

Birt með góðfúslegu leyfi

logo_aflid

Efni á aflid.is er aðeins ætlað til fræðslu og upplýsingar. Upplýsingar á aflid.is eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar sjúkraþjálfara, lækna eða annars fagfólks.

SHARE