Mig langar að deyja einu sinni í mánuði!

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

 

 

Ég er venjuleg ung kona. Ég á eitt barn sem er 10 ára og svo á ég eitt stjúpbarn með manninum mínum í dag. Ég er glaðvær, hress, með mikinn húmor og elska lífið og finnst gaman að takast á við erfið og krefjandi verkefni. Ég er venjuleg kona með venjulega hegðun en er kannski fullmikill grínari oft á tíðum fyrir venjulegt fólk.

Einu sinni í mánuði, viku fyrir blæðingar, fer allt á hvolf. Þá kemur það sem ég get bara lýst sem þoku, í kollinn minn. Mér finnst hávaði erfiður og pirrandi, mér finnst alltof heitt og alltof kalt hvar sem ég er. Ég er neikvæð, þung og sé ekki framúr amstrinu í lífinu mínu. Ég tek bröndurum illa, sem ég áður hefði getað hlegið að og gagnrýni á mig eða mitt starf getur kostað tár og volæði. Ég hef lítinn klump í brjóstinu sem langar svo að koma út hvort sem það með því að rífast við einhvern eða bara hágráta í hljóði í sturtunni. Mér finnst fjárhagsstaða mín óásættanleg og ég er léleg mamma og eiginkona og ég hugsa hvað allt sé glatað og grámyglulegt og mig langar að deyja bara.

Svona líða 2-3 dagar. Svo lagast allt saman og mér líður vel í svona 2-3 daga og byrja svo á blæðingum. Gleðin kemur aftur og ég fer að þekkja sjálfa mig aftur. Svona gengur þetta mánuð eftir mánuð og ef eitthvað er finnst mér þetta versna.

Ég get brosað og fundið húmorinn við hegðun mína á þessu tímabili en mér finnst þetta ekki sniðugt. Ég veit ekki hvað ég á að gera við þessu og hef farið til lækna en þeir brosa og segja að þetta sé mjög algengt.

Mér datt í hug að senda þetta bréf hingað inn á kvennavefinn og athuga hvort einhver hér kannast við svona og hvort það sé einhver leið útúr þessu því ég get ekki hugsað mér að vera svona einu sinni í mánuði þar til ég er búin með breytingaskeiðið.

SHARE