Móðir einhverfs drengs sem fékk hatursbréf inn um lúguna svarar hatursskrifunum – “Max gefur okkur einlæga gleði og kærleika”

Í síðasta mánuði fjölluðum við um fjölskyldu sem fékk hatursbréf inn um lúguna. Karla Begley svaraði hatursskrifum með fræðslu. Hatrið sneri að syni hennar. Þú getur séð umfjöllun um málið hér.

Drengurinn hennar, sem er einhverfur varð fyrir andstyggðar hatursskrifum.  Karla Begley, móðir hans  ákvað að veita hatri og skorti á umburðarlyndi mótstöðu.  Í bréfinu sem var dreift um netið var sagt að hið eina rétta væri að deyða drenginn Max, sem er 13 ára. Öllu venjulegu fólki var brugðið að lesa þessi ummæli sem voru sett á netið fyrir nokkrum vikum.

Móðir drengsins hefur stigið fram og svarar hatursbréfinu á heimasíðu Ellen Seidman. Ellen Seidman á dreng með sérþarfir og svo vill til að hann heitir líka Max. Hann er með heilalömun (CP). Hún heldur úti bloggsíðunni  „Að elska þennan Max“ og talar þar um hvernig er að annast og ala upp barn með CP. Hún ræddi við Körlu sem sagði að sig langaði til  að reyna að fræða fólk um börn með sérþarfir og fjölskyldur  þeirra. Hún sagðist enga þörf hafa fyrir  gífuryrði og reiði.

“Fyrsta skrefið er að þora að tala um málið, segir hún og heldur svo áfram:

Einhverfa er ekki smitandi!

Ef hljóðin sem Max gefur frá sér fara í taugarnar á einhverjum bið ég þann hinn sama góðfúslega að láta okkur vita- reiðilaust. Gefðu okkur tækifæri til að taka á málinu í stað þess að þora ekki að minnast á það við okkur. Það er miklu betra að heyra í fólkinu sjálfu en frétta utan að sér hvað því finnst. Stundum spyrja börn mig af hverju hann tali svona undarlega.  Foreldrarnir fara hjá sér. Ef foreldrarnir tala ekki hreint út við barnið sitt og fræða það t.d. um að einhverfa er ekki smitandi mun ég gera það!  Mér finnst miklu betra að börn spyrji og fái svör við hæfi en að þau verði þannig fullorðið fólk sem skrifar ótuktarleg bréf um fólk með einhverfu !

Begley leggur líka áherslu á hvað það skiptir miklu máli að átta sig á að sonur hennar og allir aðrir með sérþarfir hafi sömu réttindi og aðrir.  

“Fólk með sérþarfir er fyrst og fremst FÓLK,“ skrifar hún. „Ég vildi óska að fólk vildi brosa í staðinn fyrir að stara og sýndi skilning í staðinn fyrir að vera reið við foreldrana.  Þess konar hegðun særir fólk og þá særir hún mig líka og mig langar að takast á við hana!“

Í bréfinu sem Begley fékk og var nafnlaust er sagt á mjög óvæginn hátt að drengurinn hljóti að vera óbærileg byrði. Hún segir hins vegar að hún sé í samskiptum við hann stöðugt minnt á hvílík blessun hann er.

Max gefur okkur einlæga gleði og kærleika

Móðir drengsins segir: Allir eiga sér sinn stað í þessum heimi. Sumum eru ætlaðar miklar og háar stöður. Sumir veita manni gleði. Max gefur okkur einlæga gleði og kærleika. Hann hefur kennt mér að doka við og njóta lífsins á þann hátt sem það  blasir við honum. Hann hefur kennt okkur hvað skiptir máli.

… Mér finnst ég gæfusöm. Hvað haldið þið að margar mæður eigi 13 ára gamla stráka sem enn vilja sitja hjá þeim í sófanum og vera ekkert feiminn við að  faðma þær og sýna væntumþykju?

 

Begley lýkur svargrein sinni við bréfinu með þökkum til fólkins í bænum þeirra. Viðbrögð fólks hafa verið öll á einn veg, hvatning til hennar og væntumþykja.

Viðbrögð Begley eru yfirveguð og fræðandi. Andstyggileg hegðun einhvers sem er illa haldinn af fordómum snerist upp í tækifæri til að fræða fólk um börn með sérþarfir og aðstöðu foreldra þeirra og með því hvetja til samúðar og virðingar.

 

 

SHARE