Naglalakk sem breytir um lit og greinir nauðgunarlyf

Naglalakk getur brátt greint hvort nauðgunarlyfjum á borð við Rohypnol og GHB hefur verið byrlað í drykk grandalausra kvenna, ef af fyrirætlunum fjögurra háskólanema við North Carolina State University verður, en þróunarvinna á naglalakkinu sem getur bjargað mannslífum og hindrað kynferðisárás stendur nú yfir.

Á Facebook síðu hópsins, sem hefur gefið naglalakkinu nafnið Undercover Colors, er eftirfarandi kynningartexta að finna:

Kona sem lakkar neglurnar með naglalakkinu frá okkur getur með því einu að hræra kæruleysislega í glasinu með fingurgómunum komist að því hvort drykkurinn inniheldur nauðgunarlyf. Með þróun á þessu naglalakki og sambærilegri tækni, vonumst við til þess að hugsanlegir árásarmenn muni hugsa sig tvisvar um áður en þeir byrla grunlausum konum ólyfjan með því að setja nauðgunarlyf út í drykki. Það er von okkar að við getum viðsnúið sjálfu ferlinu og beint óttanum að nauðgaranum sjálfum í stað þess að gera fórnarlambið ábyrgt fyrir eigin velferð. Við hjá Undercover Colors yrðum þannig fyrsta tískufyrirtæki heims til að veita konum það vald að geta hindrað kynferðislega árás.

Glasamottur sem geta á augabragði greint hvort lyf hefur verið sett út í drykk eru þegar komnar á markað en glasamottan breytir um lit á nokkrum sekúndum ef drykkurinn er göróttur. Þó naglalakk sé óneitanlega mun meiri ögrun að fást við en glasamotta, er prófunin mun hagnýtari og einfaldari í framkvæmd fyrir þá sem ekki vilja framkvæma prófunina fyrir allra augum.

Þó rannsóknir standi enn yfir og naglalakkið ekki komið á markað, er engu að síður um spennandi og jafnvel um lífsnauðsynlega öryggisviðbót að ræða sem getur bjargað lífi konu ef því er að skipta.

Undercover Colors er enn á þróunarstigi en Facebook síða hefur verið sett í loftið þar sem hægt verður að fylgjast með framvindu. Glasamotturnar eru hins vegar komnar á markað og er hægt að kaupa hér.

Heimild: IFLS

SHARE