Naktar, nýbakaðar og verðandi mæður í ótrúlegri seríu: “Þú ert falleg. Ég þarfnast þín”

Slitnir magar, sigin brjóst og greinileg ör eftir barnsburð sem brjóstnám eru viðfangsefni bandaríska ljósmyndarans Jade Beall sem í væntanlegri ljósmyndabók sinni “A Beautiful Body Project: The Bodies of Mothers” hefur fangað á filmu þær mögnuðu breytingar sem verða á líkama kvenna í tengslum við fæðingu barns.

Sjálf bókin, sem er byggð á samvinnu mæðra sem allar buðu sig fram til myndatökunnar, fjallar á fagran, beinskeyttan og látlausan máta um líkama mæðra, tengsl þeirra við börn sín og þá mögnuðu sögu sem líkaminn segir um upplifanir kvenna og ferðalag þeirra gegnum lífið.

 

mamma3

 

 Heillandi, ögrandi og opinskátt efni bókarinnar hefur þegar fangað athygli heimsbyggðarinnar og talsvert hefur verið fjallað um óútkomið verk Jade Beall, en það eitt að sitja fyrir nakin í myndveri meðan á meðgöngu stendur eða rétt eftir fæðingu þykir mörgum ögrandi hugmynd sem ófáar konur veigra sér gjarna við. 

Efni bókarinnar þykir skörp ádeila á útlitsdýrun og vanmáttarkennd þeirra kvenna sem upplifa skömm í kjölfar fæðingar vegna þeirra merkjanlegu breytinga sem meðganga getur haft á líkama konu. Ljósmyndirnar eru raunverulegar, viðfangsefni Jade Beall eru “venjulegar mæður” en allar sögðu konurnar, sem sátu ýmist fyrir naktar eða afar fáklæddar og spanna nú efni í heila ljósmyndabók, að heimsókn þeirra í myndver hefði hjálpað þeim að tengjast eigin líkama nánari böndum, að sættast við lögun sína og að yfirstíga þær neikvæðu hugmyndir sem þær áður höfðu um eigin ófullkomleika.  

mamma2

Bókin sjálf, sem kemur út þann 11 maí nk, hefur þegar hlotið talsverða athygli alþjóðasamfélagsins en allur kostnaður við útgáfu var fenginn i formi styrkja frá einstaklingum og félagasamtökum víðsvegar að úr heiminum og segir Beall sjálf í inngangi:

 

 Það er með ánægju og stolti sem við nú bjóðum nú upp á þessa byltingarkenndu útgáfu sem er ætlað að undirstrika alþjóðlega þörf á jákvæðri líkamsvitund og sjálfsást; þeirri staðreynd að engin kona þarf á myndvinnsluforritum að halda í þeim tilgangi að verða fallegri fyrir vikið.

Engin kona ætti nokkru sinni að upplifa sig knúna til breytinga til að geta fundið til ástar og upplifað viðurkenningu. Engin kona ætti nokkru sinni að þurfa að borga fyrir líkamlegar breytingar eða “lagfæra” útlit sitt til þess eins að falla að fyrirfram ákveðnum staðalmyndum.

Ör, ójöfnur, beinastærð, smágerð eða stórvaxin brjóst, fíngerðar línur og djúpar hrukkur. Öll þessi útlitseinkenni segja ákveðna sögu sem ber einfaldlega heitið “Ég er falleg”.

Grannar og íturvaxnar konur; gamlar og ungar konur. Dökkar á hörund eða fölleitar eins og postulín. Konur með einn fótlegg og þær sem hafa enga fótleggi; já. Allar þær konur sem eru fallegar hið innra eru jafnar að gæðum og eru alveg jafn fallegar hið ytra!

Það finnst engin önnur kona eins og þú. Þau einkenni sem gera þig sérstaka og öðruvísi en aðrar konur veita hinum raunverulegu birtingarmyndum fegurðar ákveðna dýpt og aukið gildi. Við þurfum á þér að halda. Ég þarf á þér að halda. Þú tilheyrir. Þú ert falleg.”

Í meðfylgjandi myndasafni má sjá valið úrval mynda úr sjálfri bókinni sem kemur út þann 11 maí nk. en sjálfa ljósmyndabókina A Beautiful Body Project: The Bodies of Mothers  eftir ljósmyndarann Jade Beall má nálgast á Amazon.

SHARE