Ofsótt af fyrrverandi sambýlismanni

Sema Erla mátti þola áreiti, sem lögreglan skilgreindi sem heimilisofbeldi, mánuðum saman. Fyrrverandi sambýlismaður sat um hana, braust inn til hennar, hringdi og sendi hundruð sms skilaboða á skömmum tíma. Áreitinu lauk ekki fyrr en maðurinn svipti sig lífi.
„Að netníðingar sendi mér skilaboð eða hringi á kvöldin er ekki neitt miðað við þetta. Það var bókstaflega setið um mig og mér fannst einhver annar en ég stjórna lífi mínu,“ segir Sema Erla Serdar, formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi og fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, sem hefur verið áberandi baráttunni gegn fordómum og rasisma hér á landi. Hún er ötull talsmaður fjölmenningarsamfélags og vill að við tökum flóttafólki opnum örmum. Fyrir vikið hefur hún mátt þola margvíslegt áreiti, níðskrif og hótanir frá fólki sem er henni ósammála. En það er meira sem hún hefur mátt þola.

Vill hafa áhrif á þingi

Sema segir nú í fyrsta skipti átakanlega sögu sína af því þegar eltihrellir gerði henni lífið leitt mánuðum saman. Um var að ræða fyrrverandi kærasta og sambýlismann, sem átti við geðrænan vanda að stríða. Í skýrslum lögreglu er málið skilgreint sem heimilisofbeldi, en áreitinu lauk ekki fyrr en maðurinn svipti sig lífi.

„Það er oft ekki fyrr en maður upplifir eitthvað sjálfur að maður sér hvað má betur fara. Hverju þarf að breyta. Maður vill þá láta til sín taka og hafa áhrif, nýta sína reynslu til einhvers,“ segir Sema þegar við höfum fengið okkur sæti í eldhúsinu heima hjá henni í Kópavoginum. „Þess vegna vil ég nú fara á þing og stefni á forystusæti í Suðvesturkjördæmi í prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir komandi alþingiskosningar,“ bætir hún við.
Með því að segja sögu sína vill hún vekja athygli á því sem er brýnt er að bæta, meðal annars innan heilbrigðiskerfisins og lögreglunnar.

Reyndi að svipta sig lífi

„Ég fór að hitta mann fyrir tæpum tveimur árum. Það var bara á léttu nótunum, ekkert alvarlegt. Þetta var á svipuðum tíma og ég varð formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi og formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, þannig það var nóg að gera,“ segir Sema.
En þegar samband þeirra hafði varað í nokkurn tíma fór ýmislegt að breytast, bæði í fari hans og þeirra samskiptum. Hún fór að hugsa hvort þetta væri eitthvað sem hún vildi halda áfram.

„Svo gerðist það að hann reyndi að taka sitt eigið líf. Við vorum á leiðinni saman upp í sumarbústað eftir vinnu þennan dag, þannig það var ekkert sem benti til þess að þetta væri að fara að gerast.“ Atburðarásin kom algjörlega aftan að Semu. „Það tókst að bjarga honum, en þetta var mínútuspursmál. Eftir það hófst svo endurhæfingarferli hjá honum sem ég ákvað að styðja hann í. Hann lá lengi inni á spítala og ég svaf þar hjá honum á nóttunni.“

Svo tók við eftirmeðferð með sálfræðingum og geðlæknum og í þessu ferli öllu kynntist Sema heilbrigðiskerfinu, þá sérstaklega geðheilbrigðiskerfinu betur en hana hefði nokkurn tímann grunað að hún myndi gera. „Í fyrsta lagi sá ég hvað það er frábært að fólk að vinna þarna en svo sá ég líka gallana, til dæmis plássleysið. Það er ekki pláss fyrir neinn, fólk er sent heim eða kemur að lokuðum dyrum. Svo er það kostnaðurinn. Það hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu hversu gríðarlega mikinn kostnað sjúklingar bera og mér finnst ótrúlegt að áhrifamenn skuli gantast með svona mál í stað þess að leita leiða til þess að leysa úr slíku en aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu á ekki að vera háð fjárhag.“

Eitthvað fór að bresta

Þessir atburðir tóku mikið á Semu og hún ákvað að leita sér sálfræðiaðstoðar sem gerði henni gott. En allt þetta varð til þess að hún og maðurinn fóru að búa saman – sem hún hafði ekki ætlað sér. „Þetta var ekki ákvörðun sem var tekin á eðlilegum nótum. En eftir mitt tal við sálfræðinga þá setti ég mjög skýrar reglur. Á meðan allir væru að sinna sér og sínu þá var ég tilbúin að sjá hvert þetta leiddi,“ segir Sema og á þar meðal annars við að eftirmeðferðinni væri sinnt og áfengi væri ekki haft um hönd.

„Það gekk ágætlega í ákveðinn tíma en svo fór eitthvað að bresta. Hann fékk heldur ekki alla þá aðstoð sem hann þurfti. Það er áhyggjuefni að fólk sem reynir að sækja sér aðstoð, fer niður á geðdeild, komi að lokuðum dyrum eða sé sent heim. Biðin eftir læknum og sálfræðingum er líka mjög löng. Fólk er bara að bíða eftir því að vera næst í röðinni, sem er hræðilegt, í ljósi þess að heilbrigðiskerfið heldur bókstaflega í fólki lífi.
Endurreisn heilbirgðiskerfisins verður að vera forgangsmál hvaða stjórnvalda sem er. Það er grundvallaratriði að útrýma gríðarlega háum kostnaði sjúklinga, löngum biðlistum og það þarf að bæta húsakynni sem eru að niðurrifi komin og fjölga úrræðunum.“

Mætti strax heim til hennar

Sambúðin varð alltaf erfiðari og erfiðari og þegar maðurinn var farinn að brjóta þær skýru reglur sem Sema hafði sett fannst henni nóg komið. „Hann var farinn að blanda áfengi ofan í lyf og meðferðir, sem var brot á reglu númer eitt, tvö og þrjú. Þá sagði ég hingað og ekki lengra. Ég varð líka að hugsa um sjálfa mig í þessu öllu saman. Hann flutti því út. Það var eiginlega ákvörðun sem við tókum sameiginlega. Okkur fannst að hann þyrfti að einbeita sér meira að sjálfum sér og ég að mér. Að leiðir þyrftu að skilja á þessum tímapunkti.“

Þrátt fyrir að ákvörðunin hefði verið sameiginleg varð strax ljóst að hann var ekki sáttur við sitt hlutskipti og fékk Sema að finna fyrir því. Strax sama kvöld og hann flutti út var hann mættur heim til hennar og sagðist hvergi eiga heima því hún hefði hent honum út. „Í meðvirkniskasti opnaði ég dyrnar og hleypti honum inn. Klukkan var líka margt og ég vildi ekki valda nágrönnunum ónæði. Svo kom hann aftur kvöldið eftir en þegar hann kom þriðja kvöldið þá hringdi ég á lögregluna. Hann bankaði og var með læti þannig það var ekki annað í stöðunni.“

Inn um glugga á annari hæð

Lögreglan kom og fjarlægði manninn af staðnum, en í kjölfarið hófst atburðarás sem Semu óraði ekki fyrir að gæti gerst í raunveruleikanum. Og hún er ýmsu vön. „Hann hélt áfram að koma. Hann reyndi að brjóta sér leið inn í húsið á ýmsan hátt og einu sinni komst hann inn. Ég bý á annarri hæð en í eitt skipti hafði hann náð sér í stiga, var kominn í eldhúsgluggann og ætlaði inn um miðja nótt. Ég vaknaði og sá andlit í eldhúsglugganum. Ég sá hann reglulega fyrir utan húsið, hann keyrði fram og til baka, stoppaði á bílaplaninu og hinum megin við götuna. Einnig var hann á öðrum stöðum sem ég var vön að vera á. Þetta var orðið þannig að nágrannar mínir voru farnir að tilkynna hann. Einu sinni hringdi ég í Neyðarlínuna og þá var ég spurð hvort þetta væri Sema. Þau voru farin að þekkja mig. Ég var orðin mjög vör um mig hvert sem ég fór og lokaði mig að ákveðnu leyti af. Á tímabili bjó mamma hérna hjá mér því ég gat ekki verið ein. Þetta var því farið að hafa áhrif á alla fjölskylduna. Maður veit nefnilega ekki hverju fólk tekur upp á í svona ástandi,“ segir Sema.

Hún þorði varla að skilja húsið eftir mannlaust eða hundana sína eftir eina heima. Þegar hún sá svo frétt í netmiðlum um að kviknaði hefði í húsi í Kópavogi, tók hjarta hennar tók kipp. Það reyndist sem betur fer ekki hennar hús, en hún bjóst alveg eins við því. Þannig var hún farin að hugsa. „Það var í fyrsta skipti sem ég fann fyrir alvöru ótta. Maðurinn sem ég þekkti var nefnilega rosalega meinlaus.“ segir Sema sem fór á endanum í skýrslutöku til lögreglunnar vegna málsins.

400 sms á skömmum tíma

Það voru hinsvegar engin úrræði í boði og lögreglan gat því lítið gert. Kennitalan hennar hvarf einfaldalega í hafsjó annarra kennitala í kerfinu.
Sema veit ekki hve oft lögreglan var kölluð að heimili hennar, en stundum kom hún tvisvar á dag. Á nokkurra vikna tímabili hringdi maðurinn oftar en 100 sinnum í hana og sendi fleiri en 400 sms skilaboð. En það var ekki fyrr en hann var staðinn að verki við skemmdarverk að málið fékk forgang hjá lögreglunni. Hann var í kjölfarið sóttur í skýrslutöku. „Þar gekkst hann við öllu, nema skemmdarverkinu. En ekkert af þessu var nóg til að fá á hann nálgunarbann.“

Eftir að maðurinn hafði gefið skýrslu hjá lögreglu gerðust þau undur og stórmerki að áreitið hætti. Að tveimur vikum liðnum bankaði svo prestur upp á hjá Semu. Hún vissi strax hvað hafði gerst. Maðurinn var látinn. Hann hafði svipt sig lífi.

Upplifði reiði í fyrstu

Sema upplifði mjög blendnar tilfinningar eftir að hún fékk fréttirnar. „Ég var mjög reið fyrst þegar ég hugsaði að hann myndi aldrei þurfa að svara fyrir hvað hann var búinn að gera mér og fjölskyldu minni. En eftir korter hugsaði ég að þetta væri einfaldlega harmsaga.“

Hún bendir á að reglulega heyrist sögur af fólki sem lendi í eltihrellum og sé jafnvel áreitt árum saman. Það sé hins vegar ólíðandi. „Maður skilur ekki að það séu ekki einhver úrræði í kerfinu til að takast á við svona hluti. Af augljósum ástæðum lauk áreitinu í mínu tilfelli, en enginn gat séð það fyrir. Ástæðan fyrir því að ég vil tala um þessa hluti er til að vekja athygli á úrræðaleysinu í kerfinu og benda á að þetta getur komið fyrir hvern sem er. Það er enginn fyrirboði. Það er hræðilegt að búa við svona ástand. Þetta getur alveg farið með fólk og það er mikilvægt að koma því vel til skila að skömmin er aldrei fórnarlamba heimilisofbeldis eða annars ofbeldis. Ég dáist af öllum þeim sem tala opinskátt um sína reynslu og ég vona að mín saga hjálpi einhverjum sem er mögulega í sömu sporum.“
Mynd/Hari

 

Viðtalið birist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE