Ófullkomnar stjúpmæður – Bréf frá stjúpu

Síðan ég kom inn í stjúpheiminn hef ég víða rekist á hvað stjúpmæður eru oft harðar við sig og halda að þær þurfi að vera og gera allt 100%. Það fylgja því mikil vonbrigði enda getur ekki nokkur manneskja staðið undir slíkum kröfum.
En af hverju erum við margar svona harðar við okkur? Ég þekki enga stjúpu sem langar til að vera líkt við „vondu stjúpuna”, í raun er það hennar versti ótti að líkjast henni á einhvern hátt. Flestar reynum við því að verða „heimsins bestu stjúpur” og teljum í fyrstu að það sé lítið mál enda erum við erum góðar frænkur, systur, dætur, sumar mömmur og kærustur. Hvað ætti að verða því til fyrirstöðu?
Við ætlum að gera allt rétt.  Jafnvel þó að við vitum samt ekki alveg eða bara alls ekki hvað það felur í sér. Margar halda að það hljóti að líkjast mömmuhlutverkinu, sem sumar okkar hafa heldur enga reynslu af. Við viljum skapa hina fullkomnu stjúpfjölskyldu með manninum (sumar með konunum), sem þær elska. Þegar rósrauðu skýjunum fer að fækkandi og hverdagsleikinn tekur við er lífið auðvitað lang frá því að vera „fullkomið” eða eins og við héldum að það „ætti að vera”. En hver er fullkominn? Það er ekki til foreldri sem aldrei gerir mistök eða börn sem alltaf haga sér vel, nú eða fjölskylda sem sleppur við áföll. Það á líka við um okkur stjúpurnar, að sjálfsögðu þurfum við ekki heldur að vera fullkomnar. En trúum við því?

Sjá einnig: Börn í stjúpfjölskyldum þurfa samveru við foreldra

Lífið getur verið gott, þó það sé ekki „fullkomið” og stundum kemur það okkur skemmtilega á óvart. Lendum við í erfiðleikum er gott að hafa ómetanlegt að hafa góðan meðspilara en hann þarf þó ekki heldur að vera fullkominn en við viljum geta treyst á hann. Þrátt fyrir að flestir geta verið þessu sammála, þá eiga margar stjúpur sem ég þekki og eru góðar vinkonur mínar erfitt með að láta af þessu kröfum um fullkomleika, um leið og þær reyna að afsanna goðsögnina um vondu stjúpuna.
Þær virðist ekki geta leyft sér að vera ófullkomnar eða bara mannlegar í „ófullkomnum” stjúpfjölskyldum. En af hverju þurfa stjúpfjölskyldur að fullkomnar frekar en aðrar fjölskyldur? Við getum gert okkar besta og aflað okkur upplýsa þegar þörf er á, en við þurfum ekki að vera fullkomin.
Ég á móður sem er dásamleg en hún er ekki fullkomin. Ég sem stjúpmóðir get einnig leyft mér það sama, verið í senn dásamleg og ófullkomin. Foreldrum og stjúpforeldrum er leyfilegt að mistakast, þó það verði að segjast eins og er að mistök stjúpforeldrisins er oft litin alvarlegri augum en foreldrisins. Auðvitað getur manni fundist það stundum ósanngjarnt, en hver lofaðu manni alltaf sanngirni?  Þó eitthvað komi uppá, má alltaf læra eitthvað af því og kannski þroskast um leið. Krafa um fullkomnun gefur lítið pláss fyrir sálarró, lærdóm og þroska.

Sjá einnig: Þú mátt ekki skamma mig! – Samband stjúpmæðra og dætra

En með þessu vil ég segja þér kæra stjúpa , ef þú ert að gera þitt besta þá ertu á góðum stað. Mundu að við sem búum í stjúpfjölskyldum megum gera mistök rétt eins og í öðrum fjölskyldum. Okkur má leiðast og það mega verða óvæntar uppákomur. Samverustundir þurfa ekki að vera alltaf fyrir alla í einu, og í raun er það bara gott að við skiptum okkur stundum upp. Okkur hefur ekki mistekist neitt þó það séu ekki allir alltaf í góðu skapi eða sammála á heimilinu. Þú þarft ekki heldur ekki alltaf að vera upplögð ogmundu að þú  berð alls ekki ein ábyrgð á því hvernig gengur á heimilinu, þið búið þar nokkur. Þó ýmislegt komi upp á þá verður þú ekki vonda stjúpan, kannski ófullkomin stjúpa en það er líka bara í fínasta lagi. Ófullkomnar stjúpmæður geta verið dásamlegar stjúpmæður!

 

Grein birtist á Stjúptengsl.is og er birt með góðfúslegu leyfi þeirra

stjuptengsl

SHARE