Óhugnarleg UNICEF herferð gegn barnaofbeldi sem nístir hjartað

Grimmilegt er ekki einu sinni nægilega sterkt hugtak til að lýsa þeim veruleika og hryllingi sem sjá má í auglýsingu UNICEF hér að neðan. Sannleikurinn er þó engu að síður sá að á fimm mínútna fresti, allan sólarhringinn, allt árið um kring, andast eitt barn að meðaltali sökum ofbeldis, vanrækslu eða misnotkunar.

Í auglýsingunni sést lítill drengur á leikskólaaldri ganga lemstraður inn í apótek til að sækja sér bóluefni gegn klíkuofbeldi. Lyfjatæknirinn lætur hann hafa mixtúru og ráðleggur honum að láta einn dropa drjúpa á sykurmola og innbyrða.

Ef þú tekur mótefnið þitt, þá verður allt í lagi með þig. OK?

Því miður er samtalið uppspuni frá rótum sem á sér rætur í huga barnsins, en sjálfur lyfjatæknirinn er bara dúkka sem barnið er að leika með í fátæklegum húsakynnum. Í lok myndbandsins má lesa orðin:

Það er ekki til neitt mótefni. Það er ekkert til nema þú.

Auglýsingin er bresk og er áhorfendum í lokin boðið að heimsækja unicef.org.uk/violence en auglýsingin fylgir fast á hæla nýútkominnar breskrar UNICEF skýrslu þar sem fram kemur að í Bretlandi einu látist 340 ungmenni undir tvítugu á hverjum einasta degi, en flest dauðsföllin má rekja beint til ofbeldis af hálfu kunnugra fremur en stríðsátökum.

SHARE