„Portúgal er hörmung“ Siggi Gunnars spáir í Eurovision

Siggi Gunnars er í loftinu alla virka daga á K100.5 milli 15 og 18. Hann verður að sjálfsögðu í miklum Eurovision gír í þættinum sínum. Siggi er einnig tónlistarstjóri Retro 89.5 en sú stöð mun rifja upp Eurovision minningar alla vikuna. Það er því nóg um að vera fyrir þá sem vilja smá Eurovision í lífið sitt!

Í kvöld munu 16 þjóðir keppast um að komast alla leið í úrslitin. Sénsinn hefur eiginlega aldrei verið meiri en í ár, en venjulega eru þetta 18-19 þjóðir að berjast um að komast áfram. Ef við lítum á helstu veðbanka sjáum við það að Íslandi er yfirleitt aldrei spáð áfram en Armenía og Svíþjóð eru hinsvegar talin líklegust á að fara alla leið. En hvað um það, hér er mín spá fyrir kvöldið.

Áfram!

Armenía: Aram MP3 – Not Alone (mögulegur sigurvegari)

Aram Sargsyan eða Aram MP3 (veit ekki alveg hversu töff er að kalla sig MP3 en ok, gefum þessu séns) er þekkur tónlistarmaður og grínari í sínu heimalandi, Armeníu. Hann mætir hér með nokkuð flott lag, stór og dramatísk ballaða með dubstep áhrifum, sem minnir eilítið á Too Close með Alex Claire sem var nokkuð vinsælt í útvarpi í fyrra. Þetta lag mun fljúga upp úr undanúrslitunum og gera góða hluti á laugardaginn. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að spá þessu lagi sigri í ár, ég læt það vera þó.

Eistland: Tanja – Amazing

Ég er á báðum áttu með þetta lag. Tanja þessi er ágætis söngkona, hefur reynt áður að komast í Eurovision fyrir hönd Eistlands en ekki gengið fyrr en nú. Ef hún syngur jafn vel og hún gerir á stúdíó upptökunni kemst hún áfram. Lagið er bara svona klassísk dansblaðra sem hvorki er slæm né góð. Sviðsfarmkoma Tönju er víst mjög tignarleg og hefur henni gengið vel á æfingum í aðdraganda keppninnar.

Svíþjóð: Sanna Nielsen – Undo (mögulegur sigurvegari)

Hér erum við með annan mögulegan sigurvegara. Raunar telja flestir að þetta lag muni standa uppi sem sigurvegari í ár. Ég er ekki alveg 100% í team Svíþjóð en vissulega er þetta lag sigurstranglegt. Hún Sanna Nielsen hefur heldur betur reynt að komast í Eurovision, en hún hefur tekið þátt alls 7 sinnum í Melodifestivalen og loksins gekk það í 7. skiptið! Fredrik Kempe, sá sem semur lagið, hefur samið fjölda framlaga fyrir Svíþjóð og má þar nefna Hero með Charlotte árið 2008 og Popular með Eric Saade árið 2011. Lagið er mjög flott, ekta sænskt formúlupopp, sem flýgur áfram og verður í topp 3 á lokakvöldinu.

Ísland: Pollapönk – No Prejudice

Strákarnir í Pollapönkinu hafa staðið sig vel úti og ég held að það hafi tekist að koma boðskapnum áfram á einfaldan hátt. Hlutir eins og að mæta í kjól á rauðadregilinn voru mjög vel úthugsaðir. Eftir að hafa hlustað á upptökur af æfingum verður reyndar að segjast að gæði söngsins þegar komið er inn í svona stóra höll og svakalega umgjörð eru smá áhyggjuefni, hann hefur á stundum verið líkari hrópum en söng, en ég held að það sleppi! Þeir enda atriðið á að stafa orðið „love“ eða „ást“ og kemur það mjög skemmtilega út! Sviðsframkoman er lífleg og litrík og boðskapurinn kemst til skila, enga fordóma! Strákarnir komast því áfram!

Rússland: Tolmachevy Sisters – Shine

Það þarf eitthvað mikið að gerast svo „mother russia“ fari ekki áfram. Óvenjulega hlutlaust lag frá þeim í ár, ekkert skautasvell eða dansari hálfur ofan í flygil. Lagið er hvorki gott né slæmt en fer áfram.

Aserbaídsjan: Dilara Kazimova – Start A Fire

Þessi þjóð er hin nýja Eurovisionþjóð og hefur tekið við af löndum eins og Bretlandi og Írlandi. Sama hvað þeir senda, það er flott og gengur vel. Þetta er flott lag með flottri söngkonu og lítið hægt að segja um það. Hún Dilara er þekkt leik og söngkona í Azerbaídsjan og hefur góða rödd. Stefán Örn höfundur lagsins er sænskur (eins og flest allir sem hafa samið framlög Aserbaídsjan undanfarin ár) og samdi meðal annars sigurlagið 2011, Running Scared. Þetta lag flýgur áfram og verður í topp 5 á lokakvöldinu.

Moldavía: Cristina Scarlat – Wild Soul

Flott söngkona. Dramartíkst og öflugt lag sem á eftir skila sér upp úr forkeppninni, en verður svo bara í miðjumoði í lokakeppninni.

Svartfjallaland: Sergej Ćetković – Moj Svijet

Eitt af þremur lögum í ár sem sungin eru á móðurmálinu. Hér kemur klassísk balkanballaða sem kítlar þjóðlega perrann í mér. Allir hinir þjóðlagaperrarnir í Evrópu munu gefa þessu atkvæði og lagið fer vonandi áfram, en það yrði þá í fyrsta skipti sem Svartfjallaland næði sæti í lokakeppninni eftir aðskilnaðinn við Serbíu. Sergej er reyndar með listadansara á skautum með sér á sviðinu sem gæti verið eilítið of mikið af því góða, en er það ekki það sem Eurovision snýst um?

Ungverjaland: Kállay-Saunders – Running

Ungverjaland, vinaland okkar Íslendinga í Eurovision (hafa gefið okkur fleiri stig undanfarin ár en Danmörk!), teflir hér fram gríðarlega myndarlegum söngvara sem mér skilst að sé harðri keppni um að verða kosinn „herra Eurovision 2014“. Hér er lag sem að ég held fjallar vanrækslu á barni, sem er alls ekki skemmtilegt yrkisefni. En lagið er bara nokkuð töff og ef söngvarinn setur kraft í flutninginn þá fer lagið áfram.

Úkraína: Maria Yaremchuk – Tick-Tock

Það er spurning hvort að ástandið í Úkraínu smitist inn í keppnina í ár með auknum stuðningi við þetta lag. Lagið er voða fínt popplag sem hún Maria semur sjálf. Hún er 21 árs og er rísandi stjarna í heimalandi sínu. Þetta fer áfram.

Ekki áfram!

Lettland: Aarzemnieki – Cake To Bake

Þetta er hrein hörmung. „I‘ve got a cake to bake, I‘ve got no clue at all“ í alvöru?? Lettland ríður ekki feitum hesti frá keppninni í ár, frekar en oft áður. En það verður gaman að sjá þetta á sviðinu samt, mér skilst að það eigi að baka köku í beinni!

Belgía: Axel Hirsoux – Mother

Æji, finnst þetta alveg herfilega hallærislegt og söngvarinn ekki góður (margir ósammála mér hér). Belgía hefur sent mun betri lög til keppni og ekki komist áfram.

San Marínó: Valentina Monetta – Maybe

Hún Valentina Monetta er svona Johnny Logan þeirra San Marínóa, fyrir utan að hún vinnur aldrei neitt. Þetta er í þriðja árið í röð sem hún tekur þátt í keppninni fyrir hönd San Marínó. Þetta er reyndar lang skársta lagið sem hún hefur mætt með, en ég held að San Marínó sé aldrei að fara að gera nokkurn skapaðan hlut í Eurovision, eiginlega sama hvað þetta ágæta land gerir. Þetta fer ekki áfram!

Portúgal: Suzy – Quero Ser Tua

Þetta er hörmung. Meira verður ekki sagt um þetta framlag.

Óvissa!

Albanía: Hersi – One Night’s Anger

Ég veit ekki alveg hvað ég á að gera við þetta lag. Popplag með nettum þjóðlegum áhrifum og ágætis söngkona, en mér finnst þetta eitthvað svo leiðinlegt. Þetta gæti farið áfram á kostnað Eistlands, Ungverjalands eða okkar.

Holland: The Common Linnets – Calm After The Storm

Mér þykir þetta alls ekkert slæmt lag, en þetta er kántrý og ef eitthvað virkar ekki í Eurovision þá er það kántrý. Smá Lady Antebellum meets Shania Twain fýlingur í þessu lagi og ég efast um að þetta virki í þessari keppni, því miður! Ég segi samt að það sé möguleiki á því að þetta lag fari áfram, þeim hefur gengið mjög vel á æfingum, sviðssetningin er víst mjög flott og því set ég það í óvissuflokkinn. Það gæti farið áfram á konstað Eistlands, Ungverjalands eða okkar.

Nú er bara um að gera að eiga góða stund fyrir framan sjónvarpið. Vorboðinn ljúfi, Eurovision, er mætt og við Eurovision-nördarnir getum haldið okkar jól! Umgjörðin er víst mjög flott í ár hjá Dönunum, t.d. eru póstkortin frábrugðin því sem oft áður hefur verið gert en keppendurnir sjálfir leika aðalhlutverkin í þeim í sínu heimalandi.

Góða skemmtun og gleðilega Eurovision!

 

 

SHARE