Ráð fyrir draslara

Öll viljum við ganga að hlutunum vísum heima hjá okkur og hafa röð og reglu. En það þarf ekki að fara í grafgötur með það að okkur er ekki öllum gefinn sá hæfileiki að skipuleggja vel í kringum okkur. En blessunarlega eru þau til sem eru verulega flink í þessu og internetið er til að mynda uppfullt af góðum ráðum fyrir draslara og safnara sem eru að reyna að taka sig á.

Hér eru nokkur góð ráð fyrir þau sem eru orðin leið á óreiðunni:

Stór hluti óreiðunnar er fólginn í blaðadrasli. Dagblöð, bæklingar, reikingar, listaverk barnanna… Pappírslufsur um allt gera híbýlin drusluleg. Hafið einn stað þar sem allur pappír fer og takið til og flokkið einu sinni í viku. Þetta getur verið karfa, blaðagrind, kassi eða hvað sem er.

Þú þarft ekki að taka heilan dag í að minnka ringulreiðina á heimilinu, slíkt plan getur verið óyfirstíganlegt og dæmt til þess að breytast í sófahangs og frestunaráráttu. Einsettu þér að taka til í 5-10 mínútur á dag í heila viku. Þetta getur verið ein skúffa, einn flötur, ein hilla eða annar afmarkaður hluti heimilisins.

Veltu hverjum hlut eða flík fyrir þér sem þú ert að meðhöndla eða ganga frá og veltu fyrir þér hvort hluturinn/flíkin sé í notkun. Ef svarið er nei, veltu þá fyrir þér hvers vegna þú ert að halda upp á það og hvort það megi hreinlega losa sig við það.

Farðu gegnum eldhússkápana og taktu frá og gefðu allt sem þú hefur ekki notað síðastliðna 6 mánuði. Sama gildir um aðra staði á heimilinu, þ.á.m. fataskápana.

Allir hlutir eiga að eiga sér stað. Ef það eru hlutir heima hjá þér sem eru alltaf að daga uppi á handahófskenndum stöðum þá ættir þú annað hvort að finna þeim stað eða losa þig við þá. Líklegt er að það sem á sér ekki stað megi missa sín.

Ef þú kaupir eitthvað nýtt, hentu þá öðru út í staðinn. Reglan 1 inn – 2 út er líka góð.

Þegar þú ferð í gegnum skúffur og aðrar hirslur er gott að byrja á því að losa þær alveg og flokka síðan; ein hrúga fyrir það sem má losa sig við, önnur hrúga fyrir það sem á heima annars staðar og þriðja hrúgan fyrir það sem raunverulega á heima á staðnum.

Horfðu yfir herbergið og veltu fyrir þér hvort allt þar inni sé nauðsynlegt. Er eitthvað sem má missa sín? Þarftu að hafa öll þessu húsgögn? Eru veggirnir nokkuð ofhlaðnir eða má fara í gengum bókahilluna?

Ekki byrja á því að kaupa hirslur og körfur og annað sem á að nota til þess að skipuleggja heimilið, byrjaðu á því að sjá hvað það er sem vantar pláss fyrir, hversu stórar hirslurnar mega vera og hversu margar þig vantar.

Reyndu – og þessi er erfiðastur fyrir mestu draslarana – að gera eitt í einu. Ekki byrja á sjö verkefnum án þess að klára neitt þeirra. Það verður til þess að þú situr uppi með fullt af ókláruðum verkefnum og enga orku til þess að klára neitt þeirra.

Gott getur verið að skrifa niður það sem þarf að gera í hverju herbergi fyrir sig. Það er afar fullnægjandi að geta tikkað í box þegar verkefni lýkur og mjög hvetjandi fyrir framhaldið.

SHARE