Raunir rauðhærðu stúlkukindarinnar

Ég flutti að heiman fyrir rúmu ári og aldrei óraði mig fyrir því hvað ég ætti eftir að læra mikið á lífið. Foreldrar mínir ólu mig ekki alveg upp í plastkúlu en mjög nálægt því.
Erfiðasta verkefnið sem ég hef þurft að tækla er þvo þvottinn minn, en þar sem þvottavélin mín er staðsett ofan í kjallara þá virðist þetta verkefni mjög oft gleymast.
Í eitt skipti lá mér svo á þrífa að ég setti öll handklæði sem ég átti til í þvottavélina hljóp svo upp í sturtu. Stór mistök þar sem ég endaði með að þurfa að nota þvottapoka til þess að þurrka mér. Ég vildi að ég gæti sagt að ég hafi lært af þessu óhappi en svo er ekki.

Þegar ég var búin að búa fyrir utan foreldraheimili í þrjá mánuði varð ég svo óheppin að lenda í því að það gat kom gat á ofninn í eldhúsinu heima hjá mér (ekki bakaraofninn heldur hinn ofninn).
Ég vaknaði um miðja nótt við einhver hljóð og hugsaði með mér að þetta væri líklegast ekki neitt en þar sem ég þurfti ólm að fara á salernið hoppaði ég fram úr. Við mér tók pollur en þá var farið að flæða úr eldhúsinu fram á gang.

Fyrsta sem ég gerði var að setja puttann fyrir gatið þar sem vatnið sprautaðist út, augljóslega ekki það sniðugasta í stöðinni, en honum kippti ég fljótt í burtu enda var vatnið frekar heitt og ég sá heldur ekki fram á að þetta væri varanleg lausn.
Næsta sem ég gerði var að ná í símann minn og reyna að hringja í föður minn. Það gekk ekki betur en það að ég átti ekki neina inneign. Til að leggja inn á mig inneign þurfti ég að fara inn á heimabankann en til þess þarf ég blessaðan auðkennislykilinn sem ég finn sjaldnast.
Í miðjum inneignar og auðkennislykla pælingum fór ég allt í einu að pæla í því hvernig við pabbi ættum nú að ná þessu vatni út. Ég meina pabbi er rosalega flinkur en kannski ekki alveg svona flinkur.
Þá lá það uppi fyrir mér að hugsanlega væri slökkviliðið með réttu græjurnar svo ég hringdi í 112 og samtalið fór eitthvað á þessa leið.

112: Neyðarlínan hvernig get ég hjálpað
Ég: ég veit ekki alveg hvort ég er að hringja á réttan stað
112: hvað er málið
Ég: ég held að ég eigi að vera að hringja í 112 en ég er ekki viss
112: viltu ekki bara segja mér hvað er að

Síðan sagði ég manninum frá Neyðarlínunni hvernig væri í potti búið og fer að sjálfsögðu að háskæla í miðju samtali. Maðurinn sendi mig síðan að banka hjá nágrannanum til að fá aðstoð. Ekki voru allir viljugir til þess að opna fyrir mér en ég get svo sem skilið það þar sem ég hefði sjálf ekki vilja opna fyrir háskælandi manneskju um miðja nótt sem barði svo fast á hurðarnar að ég var nánast komin í gegnum hurðarnar.
Á meðan ég beið svo eftir slökkviliðinu sá ég það sem ég hélt að væri annar slökkviliðsbíll, keyra framhjá með sírenurnar á og hugsaði með mér, hmm ætli það sé kviknað í einhvers staðar, áttaði mig samt mjög fljótt á því að bíllinn var á leiðinni til mín.

Allt fór á endanum vel, vatnið var ryksugað í burtu, pabbi sá að ég hafði reynt að hringja collect í hann og hann hringdi til baka, mamma mætti með tuskur og ég fékk mínar 15 mínútur af frægð á Mbl.is.

Síðan þetta gerðist hefur hvorki lögreglan, slökkviliðið né sjúkraliðið átt neitt erindi heim til mín.

SHARE