Réttur feðra við andlát barns oft enginn: „Þetta var dóttir OKKAR.”

Enga opinbera reglugerð sem skilgreinir réttindi foreldra við andlát barns er að finna á Íslandi í dag, né er hvergi að finna neina reglugerð sem skilgreinir sérstaklega rétt feðra aðrar en þær reglur Fæðingarorlofssjóðs sem gilda um rétt sambýlisfólks og hjóna til skiptingu fæðingarorlofs ef andlát barns ber að garði eftir 22 vikna meðgöngu.

Svo virðist því sem mæður, sem búsettar eru á landsbyggðinni og fá hluta ferðakostnaðar innanlands endurgreiddan í tengslum við andlát og jarðsetningu barns, séu álitnar sjúklingar en ekki syrgjendur, af sjúkratryggingakerfinu en feður njóta engra slíkra réttinda.

Feður sæki um niðurgreiðslu ferðakostnaðar sem fylgdarmenn en ekki foreldri

Feður hljóta aftur á móti engan styrk til niðurgreiðslu kostnaðar vegna sömu erinda, þar sem feður ganga ekki með börnin, heldur mæður. Þó geta feður sótt um niðurgreiðslu vegna ferðakostnaðar sem fylgdarmaður sjúklings, sé móðir of líkamlega veikburða til að leggja einsömul upp í ferðalag í tengslum við andlát barns. Sé móðir talin það heilsuhraust að hún geti ferðast einsömul, fellur réttur föður til endurgreiðslu niður.

Feður standa utan við kerfið og eru oft réttindalausir við andlát barns

Á vef Sjúkratryggingastofnunnar er einungis almennar upplýsingar um réttindi sjúklinga til endurgreiðslu ferðakostnaðar að finna, en upplýsingafulltrúi Sjúkratrygginga vísaði til fyrrgreindrar reglugerðar og staðfesti um leið í símtali við blaðamann nú í dag að engin opinber reglugerð væri fyrirliggjandi sem tíundi rétt feðra við andlát barns og því erfitt að segja til um hver réttur feðra við slíkar aðstæður í raun er.

Algengt að fólk hunsi sorgarferli feðra og votti aðeins móður samúð

Þetta staðfestir einnig íslensk móðir sem óskar nafnleyndar aðstæðna vegna, en hún og sambýlismaður hennar, sem búsett eru á landsbyggðinni, misstu dóttur sína í fæðingu í september sl. og segir hún ferlið hafa reynst báðum foreldrum einstaklega erfitt, sérstaklega þar sem síðasta skoðun hafi farið fram tveimur dögum fyrr en þá virtist litla stúlkan vera stálheilbrigð í móðurkviði. Tveimur dögum síðar hafi fæðing farið af stað heima fyrir en að barnið hafi að öllum líkindum andast meðan á fæðingu stóð.

Móðir stúlkunnar segir að almennt á litið eigi fólk erfitt með að átta sig á þeirri sáru staðreynd að bæði misstu þau barnið, en ekki einungis hún. Algengt sé að fólk gangi hjá föður litlu stúlkunnar og votti gjarna einungis móður samúð, sem særi þau jafna djúpt, en það sé þó ekki allt.  Konan segir ekki nóg með að almennt eigi fólk erfitt með að átta sig á sorg föður litlu stúlkunnar, heldur viðurkenni Sjúkratryggingar Íslands ekki heldur réttindi hans og að faðir barnsins sé með öllu sniðgenginn þegar að opinberum réttindum kemur.

„Svo kom sú sprengja í gær að Sjúkratryggingar Íslands borga ferðina mína til baka ekki hans þegar VIÐ vorum send til Reykjavíkur, en við búum úti á landi, en ferðin var farin til að fá niðurstöður úr rannsóknum og sækja fund hjá stuðningshópi foreldra sem misst hafa barn.”

 

Þegar faðir litlu stúlkunnar hringdi í þjónustuver Sjúkratrygginga Íslands og innti eftir ástæðum þess að einungis móðir en ekki faðir barnsins fengi umræddan fjárstyrk varð fátt um svör:

„Maðurinn minn hringdi í Sjúkratryggingar Íslands og spurði hver ástæðan væri eiginlega fyrir þessu öllu og fékk það svar að ég væri sjúklingur, en ekki hann, því ég var ólétt en ekki hann.”

 

Móðir barnsins segir stöðuna sára fyrir parið sökum þess að þau hafi bæði misst barnið, en að kunningjar þeirra beggja og hið almenna sjúkratryggingakerfi geri jöfnum höndum ráð fyrir því að sárara sé fyrir móður að missa barn en föður, þar sem konan gangi með barnið:

„Þetta viðhorf finnst mér algerlega út í hött.”

 

Þá segir móðir stúlkunnar að gert sé nær sjálfkrafa ráð fyrir því að feður hafi takmarkaða getu til að syrgja látin börn sín og að almennt á litið sjái nær enginn ástæðu til að hlúa sérstaklega að feðrum í þessari stöðu. Þetta sé með öllu rangt, því bæði syrgi jafnt:

„Hann var að missa barn. Rétt eins og ég. Hann syrgir dóttur sína. Rétt eins og ég. Hann gaf dóttur okkar nafn. Hann bar kistuna til grafar þegar við jarðsettum dóttur okkar. Þetta var dóttir OKKAR. Ekki bara dóttir mín.”

 

Móðir barnsins segir þessi grónu og misvísandi viðhorf til fjölskyldulífs, misskilinn einkarétt móður á að elska börn sín og bága stöðu feðra sem í dag standi að mestu utangarðs, endurspegla hreina og klára mismunun og vera til þess fallin að grafa undan stöðu samheldinna fjölskyldna sem eru að upplifa sáran missi:

„Við erum orðin örmagna og þessi viðhorf eru mjög særandi. Þetta finnst okkur sár staða og óskiljanleg mismunun.”

 

Bendir hún jafnframt á að þrátt fyrir að fjármunir skipti engu samanborið við það áfall að missa barn, þá sé engu að síður verið að snúa hnífnum í sárinu þegar að opinberum réttindum foreldra sem missa barn við fæðingu kemur, með því einu að hafna föður um niðurgreiðslu ferðakostnaðar, sömu upphæð og móðir fær nær umyrðalaust sökum þess að móðir er álitinn sjúklingur í sjúkratryggingakerfinu:

„Ég er ekki hér að hugsa um að við fengum ekki peningana til baka. Innanlandsflug fyrir okkur bæði kostaði þó litlar 94 þúsund krónur og sá kostnaður lagðist ofan á kostnað við útför dóttur okkar.”

 

Segir hún að endingu að sú ákvörðun að stíga fram undir nafnleynd og greina frá reynslu þeirra beggja við andlát dóttur þeirra við fæðingu, grundvallist á þeirri sáru þörf að vekja máls á napri stöðu feðra þegar sorgin ber að dyrum hjá nýbökuðum foreldrum. Þá segist hún einnig vonast til þess að orð hennar geti ollið viðhorfsbreytingu jafnt meðal almennings og hinu opinbera:

„Það sem mér finnst sárast að hugsa til er að kerfið tekur ekkert tillit til þeirrar staðreyndar að hann missti líka barnið sitt. Þetta er óviðunandi, eitthvað sem almenningur þarf að opna augun fyrir, því brýn þörf er á  viðhorfsbreytingum í garð feðra sem missa börn.„

 

Sem að ofan segir er engar upplýsingar að finna á vefsíðu Sjúkratrygginga Íslands sem tíundar réttindi foreldra þegar andlát barns ber að höndum, en þó má finna reglugerð sem greinir á um réttindi sjúklinga til hlutfallslegrar endurgreiðslu, þurfi þeir að greiða ferðakostnað úr eigin vasa.

Feður í sambúð og giftir feður halda þó rétti til fæðingarorlofs eftir 22 vikna meðgöngu

Hjá Fæðingarorlofssjóði fengust þær upplýsingar að ef andlát barns beri upp eftir 22 vikna meðgöngu, haldi feður óskiptum rétti til fæðingarorlofs til jafns við mæður en í dag hafa báðir foreldrar þriggja mánaða rétt til fæðingarorlofs og svo þriggja mánaða viðbótarrétt sem foreldrar deila eftir hentugleika sín á milli. Sá réttur beggja foreldra helst óskiptur við andlát barns, en þó þarf úrskurður um feðrun að liggja fyrir og par þarf að vera skráð í sambúð eða gift.

Gleym-Mér-Ei er starfandi styrktarfélag foreldra sem syrgja börn

Rétt er að benda á að styrktarfélagið Gleym-Mér-Ei er starfandi á Íslandi í dag, en samtökin halda meðal annars um styrktarsjóð sem notaður er til að styrkja ýmis verkefni í tengslum við missi barns á meðgöngu og í / eftir fæðingu. Hér má hlýða á viðtal við þær Maríu Petu Hlöðversdóttur og Önnu Lísu Björnsdóttur sem ræddu starfsemi Gleym-Mér-Ei við RÚV í október.

Gleym-Mér-Ei heldur úti virkri upplýsingaveitu á Facebook: Smellið HÉR

Tengdar fréttir:

Nýfætt barn neitar að yfirgefa móður sína – Myndband

Fæddi barn á gólfi í afgreiðslu sjúkrahús – Myndband

 

SHARE