Reynslusaga móður fíkils – átakanleg lesning.

Eftirfarandi reynslusaga birtist í dag á facebook, notandinn Móðir fíkills er vettvangur fyrir foreldra sem eiga börn í neyslu og aðra aðstandendur til að tjá sig um sína reynslu. Reynslusögur má senda inn á netfangið modirfikills@gmail.com undir nafni eða nafnlaust og er fullum trúnaði heitið.
Það er skemmst frá því að segja að eftirfarandi lífsreynslusaga vekur óhug og ótta sem því miður alltof margir aðstandendur geta samsamað sig með.
„Reynslusaga

Nótt í lífi mínu.
Ég er andvaka. Klukkan er að ganga 4 að nótt og ég flý áhyggjurnar með því að horfa á þátt nr guð má vita hvað.
Sonur minn er en ekki komin heim. Ég veit ekki einu sinni hvort hann komi heim og ef hann kemur er spurning hvernig ástandi hann verður í.

Ég heyri þrusk og geri mér grein fyrir því að hann er komin heim og er að tékka á hvort hann komist hljóðlaust inn um þvottahúsið. Ég legg við hlustir og hugsanirnar fara á flug.Dyrabjallan hringir.
Á ég að opna? Ég veit hann er dópaður en ekki hve mikið. Á ég að hunsa bjölluna? Gefa honum þau skilaboð að ég taki ekki þátt í að það sé gengið inn og út af heimilinu á hvaða tíma sólahringsins sem er?
Ég hugsa og hugsa allskonar hugmyndir renna í gegnum hugan, en þar sem hann er en á grunnskólaaldri og á mína ábyrgð og í huga mínum bara barn opna ég hurðina.

Fyrir utan stendur sonur minn á stuttermabol og sokkunum í rigningunni, með glansandi augu og augasteina á stærð við títuprjóna. Þegar hann byrjar að tala þá drafar hann og er í mestu vandræðum með að reyna að vera eðlilegur.
Hann er í stroki og barnavernd er búin að auglýsa eftir honum hjá lögreglunni og hann á að fara inn á neyðarvistun stuðla þegar hann finnst.

Ég finn til í hjartanu við að sjá ástandið á honum en ég er búin að reyna svo margt að nú er komið nóg.
Ég neita honum um inngöngu og þá byrjar sama sagan “ég er ekkert búin að nota” og stuttu síðar “ég drakk bara tvo bjóra” Ég sagði við hann eftir síðasta neyslu túr að hann mætti ekki koma heim undir áhrifum og nú að að reyna allt til að svegja samninga og reglur.

Mér finnst ég ótrúlega köld þegar ég neita honum samt um að koma inn, hann ýtir sér inn um hurðina.
Hann vill ekki sjálfur hringja í bakvaktina hjá bvn, þá byrja ég að hringja sjálf. Ég er að ræða við félagsráðgjafan og búin að segja henni að hann sé heima og undir áhrifum hún spyr hvort ég sé búin að hringja í 112?
Sonur minn sýnir mér í fyrsta sinn ofbeldisfulla hegðun, hann gengur að mér og setur framhandleggin á hálsin á mér. Ég segi við félagsráðgjafan nei en þú mátt hringja þangað núna!!

Ég fyllist reiði, ég sleppi símanum og tek í hendina á honum hann grípur með báðum höndum um hálsin á mér og kreistir, ég finn til ótta í fyrsta sinn gagnvart syni mínum. Ég tók um barkakílið á honum og segi honum að ég muni kreista fastar þar til hann sleppi hálsinum á mér, hann sleppir á endanum og ég held honum í smá tíma og spyr hvort þetta sé virkilega það sem hann vill?

En hverju átti ég von á auðvitað svarar fíkillinn og kallar mig öllum íllum nöfnum, ég er ömurleg mamma ég er að eyðileggja líf hans og á bara skilið að drepast.
Ég seppi takinu á höndunum á honum og vonast eftir því að hann bara fari út. Nei fíkillin er komin í ham og núna eru það hótanirnar sem koma á færibandi, hann öskrar á mig að hann ætli að drepa mig og fer inn í eldhús þar sem hann opnar hnífaskúffuna.

Ég verð hrædd, ég geri mér grein fyrir því að ég veit í alvöru ekki hvað hann er fær um að gera í því ástandi sem hann er í. Fíkillinn hefur alveg tekið völdin og ég sé ekki snefil af syni mínum votta fyrir í hegðun hans.
Ég fyllist gríðarlegri reiði út í fíkilinn sem hefur rænt mig syni mínum. Ég þríf í öxl hans og sný honum frá hnífaskúffunni og ég kíli hann, eftir smá átök næ ég að núa hann niður.

Ég sit ofan á honum og held höndum hans föstum. Hann er búin að kíla mig ítrekað í höfuðið og sparkar núna eins og hann getur í bakið á mér lyggjandi á bakinu á gólfunu og ég sitjandi ofan á honum. Hann er með blóðnasir og hrækir á mig blóði í gríð og erg. Hann hótar mér öllu því ljótasta sem hægt er.

Ég veit ekki hve langur tími líður þar til lögreglan labbar inn, tímaskynið er horfið, og ég er ótrúlega frosin, lögreglan heldur honum og einn þeirra spyr mig hvort það sé í lagi með mig, ég sé að hann er virkilega áhyggjufullur á svipin, ég svara bara já.

Ég horfi á aðstæður og sé að heimilið mitt er eins og í bíómynd það er allt í blóði út um allt gólf og upp um alla veggi.
Ég labba inn í eldhús og horfi á spegil mynd mína í rúðunni. Ég sé útlitið á mér og skil hversvegna lögreglumaðurinn spurði mig svona alvarlega hvort ég væri ekki í lagi. Ég lýt út eins og manneskja í bíómynd, bolurinn minn rifin og það var svo mikið blóð, ég var rauðhærð og það sást varla framan í mig.

ég náði í tusku og reyndi að þrífa aðeins framan úr syni mínum þar sem honum var haldið föstum á maganum af tveim lögreglumönnum á meðan beðið var eftir að svörta maría komi að sækja hann. Hann hélt áfram að hóta öllu íllu, og þar á meðal lögreglumönnunum og fjöldskyldum þeirra.+

Ég var en frosin fór aftur inn í eldhús og sá mig í glugganum á sama tíma spurði lögreglumaðurinn mig aftur “ertu viss um að það sé allt í lagi með þig” ég fann ég var að brotna en svara samt “Það er allt í lagi með mig þetta er bara svo ervitt andlega”

Þegar voru farnir með son minn byrjaði ég að þrífa, ég ætla ekki að brotna saman, bara díla við þetta, maður hleypur ekki í burtu frá raunveruleikanum og það lagast ekkert við það að gráta.
þessar hugsanir héllt ég sem fastast í því ég var svo hrædd við að brotna og verða geðveik. Tilfiningin að ef ég brotnaði þá myndi ég aldrei koma til baka heldur verða hælismatur var gríðarlega sterk.
Næstu tveir tímar fóru í það að brotna saman og hágráta sitjandi á gólfinu, reyna að hætta að gráta á meðan ég þríf blóðið.

Hvað kenndi þessi lífsreynsla mér.
Sonur minn er ekki ofbeldisfullur né dónalegur að eðlisfar.
Hann hafði framm að þessu aldrei uppnefnt mig neinum ljótum nöfnum.
Hann hafði aldrei hótað mér að gera mér neitt.
Hann hafði ekki einusinni sýnt mér dónalegan talsmáta.

En í dag er það ekki hann sem stjórnar ferðinni heldur fíkillinn í honum.
Það er ekki ástæðulaust að fíkn er flokkuð í læknisfræðilegum skilningi sem geðsjúkdómur og hefur sitt eigið sjúkdóms númer.

Fíklar nota dóp til að deyfa tilfiningar eða eins og sonur minn orðaði það: fíkniefnin breiða yfir tilfiningarnar og fela þær.
Það sama má segja um hegðun og siðferði fíkilsins. Fíkillinn breiðir yfir einstaklingin og sonur minn er meira og minna í felum vegna þess að fíkillinn hefur tekið völdin.
Ég reyni eftir fremsta megni að muna það að sonur minn er ekki “vondur” maður hann er “veikur” og hann er þarna innst inni.

Ég þarf að muna það að ég get ekkert gert til að “lækna” hann, hann einn getur tekist á við sinn sjúkdóm.
Það eina sem ég get gert er að vera til staðar fyrir hann á mínum eigin forsendum en ekki hans.
Ég get eingöngu borði ábyrgð á mínum sjúkdómi sem þróast hefur samfara hans sjúkdómi en minn kallast meðvirkni.“

Reynslusöguna má lesa hér

SHARE