Röstí kartöflur

Þessi uppskrift kemur frá Eldhúsperlum – bara myndirnar eru svo girnilegar að manni langar nánast að sleikja tölvuskjáinn. Þessar kartöflur verða á mínu matarborði um helgina, það er á hreinu.

Sjá einnig: Fylltar sætar kartöflur með sterkum buffalo kjúklingi og gráðosti

img_1406

Röstí kartöflur

Rösti (fyrir 3 sem aðalréttur):

  • 6 meðalstórar kartöflur
  • 1/2 laukur
  • 2 msk smjör, salt og pipar
  • Góð skinka, t.d niðursneiddur hamborgarhryggur.
  • Ananashringir
  • Rifinn bragðmikill ostur, svissneskur gruyére væri sennilega mest viðeigandi en þar sem erfitt er að fá hann notaði ég íslenska ostinn Tind. Mæli með honum.

 

img_1387

Aðferð: Kartöflur settar í kalt léttsaltað vatn og suðan látin koma upp. Ég sauð kartöflurnar í sjö mínútur eftir að suðann kom upp (fer svolítið eftir stærð, þær eiga að vera næstum því mjúkar í gegn, samt ekki alveg). Þá eru þær settar á disk og leyft að kólna alveg. (Þetta er sniðugt að gera t.d að morgni og skella kartöflunum svo inn í ísskáp). Þegar kartöflurnar eru kaldar er ofn hitaður í 200 gráður. Kartöflurnar flysjaðar og svo rifnar með grófu rifjárni. Laukurinn er svo rifinn saman við. Saltað og piprað vel. Bræðið um 1 msk af smjöri á pönnu og hellið kartöflunum á pönnuna.

img_1390

Mótið köku úr kartöflunum og leyfið að steikjast á meðalhita í um 10 mínútur. Alls ekki hafa of háan hita. Setjið því næst disk ofan á pönnuna og hvolfið kartöflukökunni á diskinn. Setjið aðeins meira smjör, ca. 1 tsk á pönnuna og leyfið að bráðna. Hellið kökunni svo aftur á pönnuna og steikið á hinni hliðinni. Raðið skinkunni, ananas og rifnum osti ofan á og stingið inn í ofn í u.þ.b 10 mínútur. Borið fram með góðu grænu salati og ef til vill smátt söxuðum vorlauk.

img_1409

SHARE