Salöt að hætti Café Sigrún

Sigrún klikkar aldrei þegar kemur að matargerð og treysti ég henni í blindni þegar matur er annars vegar. Fyrir utan hvað uppskriftirnar hennar eru ljúfengar og bragðgóðar þá eru þær allar án sykurs, hveiti og gers. Með góðfúslegu leyfi hennar deili ég þessum  ljúfengu salötum frá henni sem er að finna á á cafesigrun.is

 

New York salat með grilluðu grænmeti og hnetum
fyrir 2

new_york_salat_med_grilludu_graenmeti_og_hnetum

Innihald

  • 2 pokar af blönduðu salati (rauð og/eða græn lauf t.d. eikarlauf, spínat, ruccola, lambhagasalat o.s.frv.)
  • 1 bolli maískorn, frosin
  • 3 paprikur, gul, rauð og appelsínugul
  • 150 g mjög litlir sveppir. Ef þeir eru stórir má skera þá í helminga
  • 1 lúka ósaltaðar, blandaðar hnetur (t.d. cashewhnetur og macadamiahnetur)  þurrsteiktar á pönnu og saxaðar gróft
  • 1 msk af tamarisósu sem fer á hneturnar strax eftir steikingu
  • 15-20 kirsuberjatómatar, skornir í helminga
  • 1 vel þroskað avocado, skorið í grófa teninga
  • 2 msk sesamolía
  • 3 msk tamarisósa
  • 2 msk fiskisósa (Nam Plah). Fiskisósa ætti að fást í austurlensku deildunum í flestum matvöruverslunum

Aðferð

1. Skerið paprikurnar langsum í 4-6 sneiðar og setjið á bökunarplötu (bökunarpappír undir) og snúið hýðinu upp.
2. Dreifið sveppum einnig á plötuna.
3. Blandið saman tamarisósu, fiskisósu og sesamolíu og penslið grænmetið á plötunni.
4. Setjið maískornin í skál og smávegis af sósunni út í. Hrærið vel.
5. Dreifið maískornunum á aðra plötu (með bökunarpappír undir).
6. Hitið á hæsta hita undir grilli í um 20-30 mínútur.
7. Fylgist með maískornunum, þau mega ekki brenna mikið (mega dökkna þó nokkuð samt) en hitt grænmetið má verða mjög dökkt og jafnvel pínu brunnið. Ef maískornin eru farin að brenna takið þá plötuna úr ofninum eða færið neðar í ofninum.
8. Þurristið hneturnar. Um leið og þær eru orðnar heitar, slettið þá 1 msk af tamarisósu yfir þær. Saxið hneturnar gróft.
9. Skolið salat og setjið í stóra skál.
10. Skerið kirsuberjatómatana í helminga.
11. Afhýðið avocadoið, fjarlægið steininn og saxið gróft.
12. Takið grillaða grænmetið úr ofninum og kælið aðeins. Rífið paprikur í ræmur ef þið viljið hafa þær mjórri og dreifið yfir salatið.
13. Setjið kirsuberjatómatana og avocado saman við.
14. Dreifið sveppunum og maískornunum yfir salatið.
15. Dreifið muldu hnetunum yfir salatið.

Gott að hafa í huga

  • Berið fram með t.d. hollri salatsósu og nýbökuðu brauði.
  • Upplagt er að nota þetta salat innan í vefjur (maís- eða speltvefjur). Athugið að vefjur innihalda oft ger (og glútein).
  • Hægt er að nota annað grillað grænmeti t.d. kúrbít eða eggaldin, tómata o.s.frv. Eins má rífa ferskan parmesan yfir salatið eða nota ristaðar furuhnetur, sólblómafræ, sólþurrkaða tómata, þistilhjörtu, ólífur og svo mætti lengi telja.
  • Ef þið eruð með hnetuofnæmi getið þið notað kartöfluflögur yfir salatið. Kaupið hollari kartöfluflögur í heilsubúðum og myljið smátt eins og eina lúku yfir.
  • Ef þið hafið ofnæmi fyrir sesamfræjum getið þið sleppt sesamolíunni.
  • Ef þið eruð jurtaætur getið þið sleppt fiskisósunni og notað aðeins meira af tamarisósunni.
  • Nota má sojasósu í staðinn fyrir tamarisósu en sojasósa inniheldur hveiti.
  • Í staðinn fyrir appelsínugula papriku má gula.

 

Mozzarella salat með tómötum og basil
Fyrir 2

mozzarella_salat_med_tomotum_og_basil

Innihald

  • 3 vel þroskaðir, stórir og fallegir tómatar
  • 150 g mozzarella ostur, léttur ef hann er til
  • 1 msk ólífuolía
  • Ein lúka fersk basilblöð (ekki stönglarnir aðeins blöðin)
  • Hálft vel þroskað avocado (má sleppa)
  • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • Smá klípa svartur pipar

Aðferð

1. Setjið tómatana í skál, hellið sjóðandi vatni yfir þá og látið þá liggja í 1-2 mínútur.
2. Takið tómatana upp úr skálinni og fjarlægið skinnið. Skerið tómatana því næst í sneiðar.
3. Skerið mozzarella ostinn í þunnar sneiðar.
4. Afhýðið avocadoið, fjarlægið steininn og skerið í sneiðar.
5. Setjið tómatsneið á stóran disk og mozzarella ost ofan á. Endurtakið þangað til allt er búið.
6. Dreifið avocado sneiðunum yfir.
7. Dreifið basil blöðunum yfir avocado sneiðarnar.
8. Hellið ólífuolíunni yfir basil blöðin.
9. Saltið og piprið.
10. Berið fram strax.

Gott að hafa í huga

  • Ef þið notið einungis tómata og mozzarella getið þið útbúið salatið með dags fyrirvara. Ef þið ætlið að nota avocado líka er best að skera það rétt áður en salatið er borið fram.
SHARE