Samskipti við unglinga

teen

Faðir nokkur hringir. Fjölskyldunni er allri boðið í afmælisveislu til afa, en ég vil ekki að Katrín komi með. Hún er 17 ára og með stæla. Nú er hún búin að fara á hárgreiðslustofu og fá pönkgreiðslu – önnur hliðin svört, grænt að aftan og rauður kambur upp í loftið.Skiptu þér ekki af hárinu á mér. Þetta er hárið á mér en ekki á þér. Ekki skipti ég mér af greiðslunni á þér, svarar hún. Hún getur ómögulega séð að háralitur hennar geti haft nein áhrif á lífshamingju foreldranna. Faðirinn vill ekki missa vinnuna hvað þá heldur fjölskyldu né vini út af háralit dótturinnar.

Sjá einnig: Höfuðverkur barna og unglinga – Góð ráð

Fata- og hártíska getur haft gífurlega þýðingu fyrir unglinginn. Hún er táknræn tjáning á frelsisbaráttu þeirra og rétti til að þróa eigin smekk. Og þetta er eitt af þeim sviðum, þar sem foreldrar eiga í vandræðum með að skilja börnin sín. En foreldrar eiga líka erfitt með að samþykka ýmsa aðra hegðun, þó að hún hafi ekki beinlínis áhrif á lífshlaup foreldrannna:

  • að sofa í tímum í skólanum, meðan þau hlusta á tónlist gegnum heyrnartól í eyrum sér
  • að vilja hætta í skóla og fara að vinna
  • að vera í klíku, sem er ekki foreldrunum að skapi
  • að klæðast fatnaði í pönkstíl, eða öðru sem foreldrunum mislíkar
  • að taka þátt í öfgasamtökum
  • að vera í ástarsambandi, sem foreldrarnir eru andsnúnir
  • að reykja
  • að drekka áfengi.

Sjáðu til, segja foreldrarnir, ég ber ábyrgð á að sjá til þess að sonur minn leggist ekki í drykkju og dóttir mín í lauslæti. Ég get ekki bara setið aðgerðalaus og horft upp á að þau steypi sér út í ógæfu.

Ég skil þetta vel. En þegar foreldrarnir bregðast svona harkalega við hegðun unglinganna tengist það stundum samviskubiti foreldranna yfir því að unglingurinn hagi sér ekki samkvæmt viðurkenndum venjum. Þegar faðirinn hér að ofan reiddist svo mjög yfir útliti dóttur sinnar var það vegna þess að hann sá hana í anda með ribbaldaflokki sem hann taldi lata til vinnu og ofbeldishneigða. Staðreyndin er sú að því meir sem foreldrarnir banna, hóta og refsa, því meiri mótþróa mæta þeir frá unglinginum. Ef þú ríður hesti harkalega og kippir í tauminn verður hann bara æstari. Við sem foreldrar verðum að horfast í augu við að geta ekki þvingað krakkana með valdi til að breyta óæskilegu hegðunarmynstri. Refsing og umbun virka ekki eftir að barnið er orðið 12 ára. En hvar á að setja mörkin?, spyrja margir foreldrar. Það er ekki svo einfalt því að þetta fer ekki eftir aldri, heldur þroska. Því verða foreldrarnir að líta fram hjá hárinu og sperra eyru og augu og hlusta á barnið sitt og hvaða þarfir þurfi að uppfylla núna, og hvaða væntingar foreldrarnir hafi til barnsins núna.

Vandamálin verða vegna þess að það er svo erfitt að hlusta – og að systkini þroskast hvert á sinn hátt. En á að gera greinarmun á börnunum? spyrja foreldrarnir. Já, reyndar. Einmitt af því að mannabörn eru svo misjafnlega gerð hvað varðar skapsmuni og þarfir er augljóst að þau þurfa hvert sitt sérstaka uppeldi. En þau leika á okkur, segja foreldrarnir. Þau vita upp á hár hvenær annað okkar segir já og hitt nei. Við vitum það fullvel. Það er dagsatt. Erum við foreldrarnir ekki líka býsna meðvitaðir um það hvort okkar jánkar óskum barnanna og hvort neitar?

Ef faðirinn segir já og móðirin nei verða foreldrarnir í sameiningu að ræða við barnið eða unglinginn og skýra mál sitt og komast að málamiðlun.

Þetta er einnig lærdómur sem undirbýr barnið eða unglinginn fyrir þau vonbrigði, sálarkvalir og málamiðlanir sem það mun síðar mæta úti í samfélaginu.

Sjá einnig: Síþreytti unglingurinn byrjar í skóla

Þegar fjölskyldan fer í hár saman út af skoðunum og lífsviðhorfum, til dæmis um trúarleg atriði, stjórnmálaskoðanir og persónulegan smekk, geta foreldrarnir neyðst til að sætta sig við að unglingarnir séu ósveigjanlegir. Það þýðir ekki, að foreldrarnir eigi að gefast upp á að láta skoðanir sínar í ljós, en hótanir og refsingar eru gagnslaus sem rök. Þegar fullorðið fólk rökræðir við vini sína og er ósammála skoðunum þeirra og sjónarmiðum er sjaldnast gripið til hótana til að fá fólk á sitt mál. Ef fólk gerir slíkt er óvíst að vinskapurinn endist.
Þegar börn streitast duglega á móti því að breyta háttalagi sem þau álíta að fullu skaðlaust koma þau fram sem þroskaðir einstaklingar sem láta ekki undan þrýstingi, en standa á rétti sínum til að vera þau sjálf. Bæði börn og fullorðnir berjast af krafti til að varðveita frelsið til að ráða yfir eigin lífi. Ef foreldrarnir takmarka viðleitni sína til að breyta hegðun unglinganna við það sem truflar þarfir eða skaðar þau sjálf eða fjölskylduna, munu þau sjaldnar lenda í deilum innbyrðis. Og þeir munu sjá að börnin verða móttækilegri fyrir breytingum og til í friðsamleg samskipti á heimilinu.

Fleiri greinar í svipuðum dúr á doktor.is logo

SHARE