Síðustu dagar áskoruninnar

Ég hef sjaldan verið jafn glöð og þegar ég vaknaði í morgun.

Áskorunin er búinn og ég get farið að troða í mig aftur.

Áður en áskorunin hófst vigtaði ég mig til að sjá hvort ég mundi glata einhverju fleiru en geðheilsunni í þessari áskorun og raunin varð sú að ég missti 2 ½ kg á einni viku. Ég hef ekki misst svona mörg kíló á einni viku síðan ég var upp á fæðingardeild og losaði mig við heilan krakka.

Ég geri mér grein fyrir því að  þetta á allt eftir að koma aftur um leið og maður fer í gömlu rútínuna, en þetta segir okkur samt að næringin sem ég hef fengið síðustu 7 daga hefur verið langt undir því sem æskilegt er.

Það þarf svo sem ekki nein sérfræðing til að sjá það að 750kr er ekki nægilegt fjármagn til að lifa á, tölur fjármálaráðuneytisins standast ekki og vonum við að þetta verður bætt.

Það er hinsvegar sorglegt hvað ég er búin að fá marga pósta frá fólki sem er í þessari áskorun dagsdaglega og ekki af því það óskar þess. Fólk sem þarf alltaf að lifa á 750 kr eða jafnvel minna, og úrræðin eru lítil sem engin. Eins og hefur svo mikið verið skrifað um þá munu þessar skattahækkanir á mat bitna langmest á láglaunafólki, fólki sem er nú þegar að ströggla.

Ég kem því hreinlega ekki fyrir mér hvernig hægt sé að taka ákvörðun sem þessa að hækka matarskatt og á sama tíma lækka skatta á glæsikerrum og sjónvarpstækjum. Þetta gerir mig ekki bara reiða heldur skammast ég mín, ég skammast mín fyrir það að segja fólki erlendis að ég búi í landi þar sem kreppa var fyrir örfáum árum, þar sem fleiri þúsund mans misstu heimilin sín og aðeins nokkrum árum síðar er verið að lækka skatta á munaðarvörum og hækka skatta á nauðsynjavörum.

Það er gott að búa á Íslandi, en hversu lengi getur maður búið á Íslandi ef það á endalaust að vinna gegn þeim sem minna eiga?

Takk fyrir mig

Gerður Arinbjarnar.

  http://credit-n.ru/debitovaya-karta.html http://credit-n.ru/offers-zaim/srochnodengi-online-zaymi.html

SHARE