Slæmt ástand á Landspítalanum – Myglusveppur og ónýtir gluggar

Anna Björk Sigurðardóttir skrifaði þennan pistil um áhyggjur sínar af heilbrigðiskerfinu okkar:

Ég hef aðeins séð brot af ástandinu á Landspítalanum. En miðað við það sem ég hef upplifað og heyrt frá öðrum, þá er ástandið orðið verulega slæmt. Það er alveg ástæða til að hafa áhyggjur af heilbrigðiskerfinu okkar. Það skiptir mig ENGU máli hver á sökina á þessari þróun. Það er framtíðin sem skiptir máli. Hvað á að gera til að snúa þessu dæmi við?
Ég hef ekki hundsvit af fjármálum íslenska ríkisins. Hver neikvæð frétt færir mig þó nær því að vilja setja mig betur inn í þessi mál, skilja afhverju þessi gríðarlega mikilvæga stofnun sem snertir okkur öll sé ekki meira metin. Á ekki heilbrigðisgeirinn að vera í algjörum forgangi? Það er svoleiðis búið að skera þessa stofnun inn að beini og sumsstaðar gott betur en það. 
Bjarni Ben sagði sjálfur, í aðdraganda kosninga, að hann hefði upplifað það að horfa á ástvin í lífshættu og fundið fyrir því ótrúlega þakklæti að eiga sérfræðinga sem gátu bjargað því lífi. Hann talaði þá sjálfur um mikilvægi spítalans. Ég velti því fyrir mér hvort hann upplifði þetta eins og ég upplifði þetta þegar dóttir mín var lífshættulega veik? Sá hann það sama og ég? Ég vona það! En hann hlýtur þá að skilja hvað það er mikilvægt að manna spítalann með sérfræðingum. Til að geta það þá þurfa við að ala upp þessa sérfræðinga. Við þurfum að koma efnilegum læknum vel á koppinn, senda þá út í heim til að öðlast mikla reynslu, hvetja þau til að mennta sig enn meira og koma svo heim, miðla og gefa af sér hér.

Við erum lítið land og því fylgja ókostir. Við sitjum ekki með fullan spítala af sprenglærðum reynsluboltum. Þetta fékk ég að sjá sjálf. Þegar kemur að flóknari og sjaldgæfari aðgerðum/meðferðum þá þarf að kalla til þessa reynslubolta. Þessir einstaklingar eru ekki ódauðlegir. Þeir eldast eða leita einfaldlega á betri mið. Það er óhugnalegt að hugsa hversu djúp skörð þessir aðilar myndu skilja eftir sig. Það verður að vera hægt að halda í þessa aðila, bjóða þeim viðunnandi starfskjör og aðstæður. Og það er líka svo ofboðslega mikilvægt að ala upp arftakana. Við eigum góðan efnivið sem við megum ekki missa frá okkur.

Þegar dóttir mín veikist lífshættulega þá horfðum við á hvern lækninn á eftir öðrum mæta á svæðið. Nokkrir komu heiman frá sér. Aðrir komu frá öðrum deildum. Úrvalslið saman komið á stuttum tíma til að sinna veiku barni. Þau ná henni stöðugri og setja upp meðferðarplan í von að það virki, sem það gerði. Hvernig getur maður annað en orðið ástfangin af svona fólki? Og ekki má gleyma hjúkrunarfræðingunum. Hjúkrunarfræðingurinn sem var á vakt þetta kvöld átti að ljúka sinni vakt kl.23. Ekki veit ég hvað klukkan var þegar hún hélt loks heim á leið en það var amk eitthvað liðið á nóttina. Þessi yndislega manneskja átti svo morgunvakt og var mætt til okkar aftur fyrir kl.8. Hjúkrunarfræðingarnir sem sinntu okkur á gjörgæslu eiga svo ótrúlega miklar þakkir skildar. Fyrir utan að veita barninu mínu fyrsta flokks hjúkrun og umönnun þá veittu þær okkur stuðning, hlýju, huggun, félagskap, sálgæslu og vinskap. Þó það væri gleðstund að útskrifast þá fannst mér erfitt að kveðja og mér fannst leiðinlegt að hafa ekki náð að kveðja alla. Ég mun aldrei geta með neinum orðum þakkað þeim nógu vel fyrir okkur.
Það er svo mikilvægt að halda í svona gott fólk. Starfsfólkið á spítalanum er í enn meira mæli að brenna upp í starfi og leita annað. Þau geta ekki endalaust hlaupið hraðar og á sífellt minna bensíni.

Skildi Bjarni Ben að hafa upplifað þetta svona? Ef svo, þá hlýtur hann að iða í skinninu að snúa þessari þróun við.

Ég velti því líka fyrir mér þegar ég sá frétt með nýskipuðu heilbrigðisráðherra, þar sem hann heimsótti ýmsar heilbrigðisstofnanir. Sá hann það sem ég sá? Rakaskemmdir, ónýta glugga, gömul tæki ofl.? Var honum boðið að sitja löngum stundum í herbergi með myglusvepp og sötra á vatninu sem fólk með lélegt ofnæmiskerfi má hreinlega ekki drekka? Sá hann mikilvægi þess að hafa úrvalslið af starfsfólki? Sá hann ástandið almennilega? Eða var tilgangur heimsóknarinnar frekar að sýna sjálfan sig og taka mynd af sér með nýbökuðu foreldrum sem treysta einmitt á þetta úrvalslið?

Ég skil að þetta hreyfir ekki við öllum. Sem betur fer eru ekki allir með mína reynslu og sýn á bakinu. Svo eru aðrir með enn dekkri sýn, eins og t.d. fólk sem þarf á lyflækningum að halda. En staðreyndin er samt sú að við munum ÖLL, í einhverri mynd, þurfa á íslenska heilbrigðiskerfinu að halda. 
Mér finnst ekkert mál mikilvægara fyrir íslenska ríkið en að snúa þessu dæmi við og fara að byggja upp heilbrigðiskerfið.
Það þurfa allir að skilja og sætta sig við að það þarf að setja pening inn í þennan málaflokk!

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here