Slökkti á tölvuleik sonarins og hann missti stjórn á sér

Friðþóra fræðir foreldra um hvernig þeir eiga að bera sig að vakni grunur um að barn sé haldið tölvufíkn. Sonur hennar var langt leiddur af tölvuleikjafíkn og 15 ára gamall var hann farinn að sýna ógnandi hegðun þegar slökkt var á leiknum.

„Unglingarnir okkar og börn missa af lífinu, þau lifa ekki í raunheimi á meðan á ofnotkuninni stendur,“ segir Friðþóra Sigfúsdóttir, markþjálfi og jógakennari, um áhrif tölvufíknar á ungmenni. Hún heldur úti facebook-síðunni Netfíkn/ofnotkun netsins, hefur haldið fjölda fyrirlestra um málefnið og leiðbeint foreldrum sem hafa staðið ráðþrota frammi fyrir vandamálinu. Sjálf þekkir hún það vel af eigin raun en sonur hennar var langt leiddur tölvuleikjafíkill á unglingsárunum.

Augun opnuðust

Friðþóra segist hafa áttað sig á því allt of seint að sonur hennar átti við vandamál að stríða. Og það gerðist í raun fyrir algjöra tilviljun. „Ég var orðin langþreytt á því að hann ryksugaði ekki herbergið sitt og hlustaði ekki á mig og tölvan fékk alla hans athygli og tíma. Viðbrögðin hans við því að ég slökkti á rafmagninu inni í herbergið hans fékk augu mín til að opnast og sjá að þetta var meira en bara hangs í tölvuleik.“

„Á þeim tímapunkti upplifði Friðþóra þá skelfilegu tilfinningu að verða hrædd við 15 ára son sinn. „Þegar ég slökkti á leiknum missti hann stjórn á sér og sjálf fékk ég áfall að upplifa hversu illa stödd við vorum bæði. Ég í minni afneitun og hann sokkinn í spilaheiminn sem átti hug hans allan.“

Gæti ekki verið stoltari í dag

Í kjölfarið var tölvan fjarlægð af heimilinu og erfiðar vikur tóku við. Sonur Friðþóru var ekki mjög samvinnuþýður. Honum fannst hann ekki eiga við vandamál að stríða heldur fannst honum móðir sín vera vandamálið, að skipta sér svona af honum og eyðileggja framtíðarplön hans.

„En þetta var í raun botninn sem við þurftum að upplifa til að opna augun og hefja uppbyggingu okkar beggja af alvöru. Og sú vinna hefur heldur betur skilað sé. Ég gæti ekki verið stoltari þegar ég horfi á son minn í dag og þessi barátta var svo sannarlega til að leiða okkur saman á ný. Ég tala til foreldra til að hjálpa þeim að stytta þetta erfiða og oft langa ferli með því að segja mína sögu og frá mínum mistökum og umfram allt sigrum því það er svo mikil hvatning fyrir foreldra að heyra aðra upplifa það sama upplifa sigur að lokum og heilbrigt fjölskyldulíf á ný,“ segir Friðþóra, en það tók hana tvö ár að læra að eiga við son sinn og tölvuleikjafíknina hans.

Hóta að fyrirfara sér

En hver eru fyrstu hættumerkin sem foreldrar eiga að vera vakandi fyrir í hegðun barna sinna sem glíma við tölvuleikjafíkn? „Skóli og íþróttir eru oft það fyrsta sem aflaga fer. Foreldrar komast oft ekki strax að því að skróp á þessum vettvangi er orðinn veruleiki.
Stærstu áhrifin af þessari öfganotkun er á andlega líðan. Ofnotkunin rífur einstaklingana úr raunveruleikanum og það er svo sorglegt að segja frá því að mörg hver sem eru í mikilli ofnotkun staðna í þroska á meðan spilun er svona mikil.“

Þá segir Friðþóra mörg dæmi þess að börn bregðist illa við ef foreldrarnir ætli að reyna að stýra tölvunotkun þeirra eða draga úr henni með einhverjum hætti. „Dæmi eru um að unglingar hóti að fyrirfara sér þegar reynt er að setja ramma utan um notkunina þeirra. Rústa herbergjum sínum, læsa sig inni, stela og hlaupa að heiman. Sögurnar eru margar og mismunandi.“

Vaxandi vandamál

Friðþóra telur að tölvuleikjafíkn sé vaxandi vandamál meðal ungmenna og bendir á að sumarið og önnur frí séu hættulegri tími en annar hvað þetta varðar. „Ef foreldra grunar að unglingurinn þeirra sé búinn að missa stjórn og greina breytingar á hegðun hans/hennar og lundarfari er brýnt að grípa inn í og fá aðstoð sem fyrst. Tölvuleikjafíkn er samfélagslegt mein sem getur haft varanleg áhrif á líf og heilsu ungmenna ef ekkert er aðhafst,“ segir Friðþóra sem mun halda sinn næsta fyrirlestur í byrjun ágúst. „Það er líka gott fyrir foreldra að leggjast í smá rannsóknarvinnu heima fyrir. Leggja saman á ráðin, undirbúa breytta og betri tíma og uppeldisaðferðir.“

 

SHARE