Spyrðu mig bara!

Ég á ekki kærasta og mér finnst það bara fínt. Ég hef átt nokkra kærasta og í hvert skipti hélt ég að ég væri búin að finna hina einu sönnu ást, sem reyndist svo ekki vera raunin, (sjokkerandi ég veit).

Nú er ég komin akkúrat á hina skoðunina. Ég er nokkuð viss um að ég mun aldrei verða ástfangin og það mun aldrei neinn vera sá rétti  fyrir mig. Ég var á öllum samskiptamiðlum hér áður og fyrr en hætti öllu eftir að minn seinasti kærasti sagði mér upp og ég fékk ógeð af þessu öllu. Ég er ekki einu sinni á Facebook, hugsið ykkur, 26 ára gömul og EKKI á Facebook.

Ég lendi samt alveg í því að hitta menn á förnum vegi, hvort sem það er á djamminu, partýjum eða jafnvel á dekkjaverkstæðum. Karlmenn eru minnst lúmskir, þeir halda það kannski, en þeir eru það ekki. Ég fór með bílinn minn um daginn og fékk undir hann vetrardekk. Það er ekki merkilegt en ég lenti á séns á verkstæðinu og verð að segja ykkur frá þessu því mér finnst þessi taktík karla við að komast að því hvort ég sé á lausu eða ekki, svo glötuð. Það er semsagt að „veiða“ það útúr mér. Ég ætla bara að segja ykkur hvernig samtalið við manninn á dekkjaverkstæðinu var.

Geng inn og þar mæta mér tveir grútskítugir menn (sem mér finnst karlmannlegt) við afgreiðsluborð.

Ég: Góðan dag
Þeir: Góðan daginn
Ég: Ég ætlaði að athuga hvort þið ættuð laust núna? Mig vantar vetrardekk og þarf að kaupa þau af ykkur og láta setja þau undir.
Maður 1: Já já ætli við getum ekki komið þér að …
Maður 2: Ég get gert þetta núna bara…
Maður 1: Já hann XXX getur gert þetta núna bara

Svo fer ég bara með bílinn inn og fer svo bara út úr honum og fylgist með því sem fram fer.

Maður 2 skoðar dekkin og segir: Já þessu dekk eru nú bara ónýt, eigum við ekki bara að henda þeim fyrir þig.
Ég: Já er það, ég hef ekkert spáð í þessu…
Maður 2: Nei það er ekki eitthvað sem konur spá mikið í….. þess vegna eiga þær kall (og hlær svona pínu vandræðalega og hálfpartinn bíður eftir því að ég kommenti á þetta með „kallinn“… ég geri það ekki.)

Maðurinn heldur áfram að taka dekkin undan og skoðar þau hvert fyrir sig. Þegar hann hefur tekið seinasta dekkið undan segir  hann: Hvar fékkstu þessi dekk eiginlega?
Ég: Ég veit ekki hvar þau eru keypt (sem er satt því pabbi minn fann þau fyrir mig og ég borgaði bara, fyrir svo og svo löngu tíma síðan)
Maður 2: Nú ok var það kallinn þinn sem keypti þau? (vá, frumlegt)
Ég: Nei reyndar ekki, pabbi minn fann þau fyrir mig

Ég veit ekki af hverju, en þetta fór svakalega í taugarnar á mér. Maðurinn spurði mig nokkrum sinnum spurninga sem voru einfaldlega til þess fallnar að vita hvort ég væri á lausu eða ekki. Ég fór í mótþróa og gerði í því að komast út af verkstæðinu ÁN ÞESS að veita honum þessar upplýsingar.

Spyrðu mig bara beint út og ég skal segja þér þetta!

SHARE