Stelpur rændar sakleysinu

Hvenær haldið þið að anorexía geti byrjað að ná tökum á fólki ? sex ára stelpur eru lagðar inn á meðferðarheimili vegna anorexíu – sorglegt en satt.
stelpur sem eru ekki einu sinni byrjaðar í gagnfræðiskóla eru farnar að taka “pose” myndir af sér jafnvel í kynferðislegum stellingum, dilla á sér rassinum og dansa eins og Beyonce eða Rihanna gera í tónlistarmyndböndunum sínum.
vinkona mín var að segja mér að dóttir hennar er að æfa sund (10 ára) og krefst þess að mamma hennar vaxi sig (lappir,undir höndum og bara allsstaðar þar sem líkamshár vaxa) stelpan er auðvitað ekkert komin með nein hár að viti, nema bara hárin sem börn fæðast með. Ástæðan er sú að hinar stelpurnar í sundinu virðast vera að gera þetta. Mér finnst líklegt að þær geri þetta án vitundar foreldra – stelist í rakvélar jafnvel. Ég varð mjög hissa að heyra þetta og finnst þessi þróun skelfileg.
Það er ekkert óalgengt í dag að þú sjáir tveggja ára stelpu labba um í litlum háhæluðum skóm. Þú þarft ekki annað en glugga í slúðurblað þar sem þú sérð mynd af Suri Cruise, dóttir Tom Cruise og Katie Holmes, voðalega krúttleg í litlu bleiku hælunum sínum.

6 ára stelpur í magabolum ? 6 ára stelpur í danskeppnum í sjónvarpinu að leika eftir tónlistarmyndbönd frá idolunum sínum – Nicki Minaj, Beyonce & Rihanna. Þið sem hafið séð myndbönd með þessum listamönnum vitið væntanlega að það er kannski ekki eitthvað fyrir litlar stelpur að leika eftir upp á sviði í stuttum pilsum og magabolum.

Ég var í Kringlunni um daginn með mömmu sem var að leita að íþróttatopp handa 11 ára dóttur sinni. Einu topparnir sem hún fann voru íþróttatoppar með fyllingu. push up íþróttatoppar ? hvaða skilaboð er það að senda… ?

Stelpur þroskast mun fyrr en strákar og við virðumst vera mun móttækilegri fyrir öllu því sem í kringum okkur er.  Við erum viðkvæmar á unglingsárunum og það er þá sem okkur vantar fræðslu og það þarf að tala um hvað er í lagi og hvað ekki. Það er augljóst að áhrifin eru allt í kringum okkur og allsstaðar sjáum við staðalímyndir, söngkonur,leikkonur eða raunveruleikastjörnur sem ungir og ómótaðir krakkar halda upp á og fygjast með, jafnvel taka sem fyrirmynd. Þetta fólk sem krakkarnir halda upp á er svo alls ekkert endilega fólk sem ættu að vera fyrirmyndir eða eru einu sinni að reyna það.

Mér finnst vanta fræðslu í skólum, það vantar fyrirlestra og fræðslu þar sem farið er yfir hvað er eðlilegt og hvað ekki því að við komumst ekki hjá því að komast í kynni við allskyns brenglaðar hugmyndir um hvað er eðlilegt. Það þyrftu að mæta ungar konur – 20 ára og upp úr í skólana sem stelpurnar gætu litið upp til sem spjalla um þessa hluti, það virkar ekki að fá fertugan hjúkrunarfræðing til að spjalla við þær (no offense) einfaldlega vegna þess að á þessum aldri hlusta krakkarnir ekkert á eitthvað röfl í einhverri “kellingu” sem veit ekkert hvað hún er að tala um (að þeirra mati).

Ég vil allaveganna að dóttir mín fái að vera barn sem lengst og að sakleysinu verði ekki rænt þegar hún á ennþá bara að vera að pæla í dúkkó.

SHARE