Svona áttu að halda lífi í túlípönunum þínum

Túlípanar eru sannkölluð heimilisprýði og gera mikið fyrir hvaða rými sem er. Við elskum að gleðja stofuna lífi með fallegum túlípönum í vasa. Túlípanar eru aftur á móti hinir mestu sérvitringar og það getur reynst þrautin þyngri að halda þeim á lífi. Við tókum saman nokkur ráð um hvernig má koma í veg fyrir ótímabæran túlípana dauðdaga og hámarka líftímann hjá þessum fallegu blómum.

Sjá einnig: Húsráð: Komdu í veg fyrir að glingrið þitt verði grænt

 

Þegar heim er komið úr blómabúðinni á alltaf að skera 0.5- 1 cm neðan af stilkunum og láta í KALT vatn.

  • Númer 1, 2 og 3 er mikilvægt að hafa LÍTIРvatn í vasanum. Túlípanar eru óhófsamir með eindæmum, þeir klára allt vatnið í vasanum og algengasta ástæða þess að túlípanar drepast hjá okkur er líklega sú að þeir drekka sig í hel.
  • Ískalt vatn í vasann – jafnvel klaka. Ólíkt rósum sem vilja heitt vatn er best að nota ískalt vatn á túlípanana. Einnig er gott að lauma einum og einum klaka í blómavasann þegar líður á vikuna til að fríska þá upp.
  • Það getur verið sniðugt að láta túlípana standa á köldum stað yfir nóttina. Taktu blómavasann af stofuborðinu og láttu við opinn glugga yfir nóttina. Þannig standa túlípanarnir lengur.

Ef allt þrýtur og túlípanarnir eru þrátt fyrir allt dauðalegir má prófa að taka þá úr vasanum, skera aftur smávegis neðan af stilkinum og láta að nýju í ískalt (LÍTIÐ) vatn. Ef það virkar ekki, þá kannski var þessu ekki ætlað að gerast.

Það er vonandi að þessi ráð verði ykkur til góða og lengi líftíma næstu túlípana sem þið fjárfestið í. Sumir túlípanar virðast þó alveg vonlausir og ómóttækilegir fyrir öllum manns bestu trixum. Þá þýðir ekkert að láta deigan síga, lífið heldur áfram og það koma aðrir túlípanar á eftir þessum.

 

SHARE