Takk fyrir að henda mér í gólfið – Bréf til föður

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

————————

 

Elsku pabbi, ég er orðin stór stelpa núna. Ég get séð um mig sjálf, ég á barn og ég á mann sem elska mig sama hvað! Ég er sjálfsörugg og ánægð með lífið mitt í dag. Það á ég þessum tveimur ástum að þakka. En ég vildi samt skrifa þér pabbi og segja takk,  því ef ekki væri fyrir þig, væri ég ekki á þessum stað í lífinu í dag!

Takk fyrir að vera fordómafullur og dæma aðra, ég lærði þá um mannvonsku.

Takk fyrir að slá mig reglulega með beltinu þínu. Ég lærði að ekki tala til baka.

Takk fyrir að henda mér í gólfið. Ég lærði þá að vera ekki fyrir.

Takk fyrir að lemja mömmu beint fyrir framan okkur börnin og sýna okkur hvernig alvöru karlmaður stjórnar sínu heimili. Ég lærði þá um hvernig ást væri.

Takk fyrir að fara frá mömmu og ekkert vilja með okkur hafa. Ég lærði þá að ég væri einskisnýt.

Takk fyrir að hringja fullur og segja að einhvað hafi komið uppá. Ég lærði þá um lygar.

Takk fyrir að láta mig bíða eftir þér eftir bíó í rigningunni í 2 tíma. Ég lærði þá hvern ég gæti treyst á.

Takk fyrir að sýna mér loksins áhuga bara af því að ég var kominn á þann aldur þar sem þú gast misnotað mig. Ég lærði þá um kynlíf.

Og ofan á allt þetta takk kærlega fyrir að sýna mér hversu viðbjóðsleg mannveran getur virkilega orðið!
Ég gæti gengið í gegnum þetta þúsund sinnum ef ég vissi endaútkomuna, sem væri sú, að sama hvað ég lærði af þér pabbi, þá fékk ég yndislegt líf á endanum og fékk að læra uppá nýtt!

Þú hinsvegar hefur fengið mörg tækifæri til þess að læra uppá nýtt, en þú munt aldrei gera það og situr í þínu gamla fari sennilega til dauða!

SHARE