Tannvernd barna

Tannvernd þarf að hefjast sem fyrst á lífsleiðinni

Foreldrar gegna lykilhlutverki í tannvernd barna sinna. Gott er að hafa í huga þegar tannvernd er annars vegar að gott mataræði og hollar neysluvenjur leggja grunninn að góðri tannheilsu. Venjum börnin okkar á að borða næringarríkar máltíðir á matmálstímum og varast nart milli mála. Munum líka að vatnið okkar er besti svaladrykkurinn sem völ er á og óþarfi að gefa börnum súra og sæta drykki við þorsta.

Hvað yngstu börnin varðar skal á það bent að þrátt fyrir ótvírætt gildi móðurmjólkur fyrsta aldursárið, er æskilegt að draga verulega úr næturgjöfum í kjölfar tanntöku barnsins, því um sætan vökva er að ræða sem getur skemmt viðkvæmar tennur barnsins, þar sem verjandi áhrif munnvatns eru í lágmarki að næturlagi.

Sjá einnig: Bólusetningar barna – hverju er verið að bólusetja gegn?

Breyttar neysluvenjur landsmanna

m.a. mikil og tíð neysla súrra drykkja þ.e. svaladrykkja eins og gosdrykkja, safa, djúss, orku- og íþróttadrykkja, jafnt sykraðra sem sykurlausra, gerir það að verkum að tíðni glerungseyðingar fer nú vaxandi, en um er að ræða tannsjúkdóm sem lýsir sér þannig að ysta lag glerungsins skolast burtu og tannglerungur þynnist að sama skapi. Það er því mikilvægt að hafa í huga að þeir sem fá sér sætan bita og/eða súran sopa milli mála er hættara við tannskemmdum og/eða glerungseyðingu en öðrum.“

Annar mikilvægur þáttur tannverndar er munnhirðan og notkun flúors. Mikilvægt er að byrja að bursta tennur barna , með hæfilegu magni flúortannkrems, um leið og fyrsta tönnin er sýnileg. Áður er æskilegt að hreinsa og nudda góm og tungu með t.d. rökum þvottapoka. Mjólkurskán myndast á tungunni og hana má nudda burtu.

Börn geta ekki burstað tennurnar sjálf fyrr en þau hafa náð átta til tíu ára aldri. Fyrr hafa þau ekki náð fullkomnu valdi á þeim fínhreyfingum sem þarf til að geta burstað eins vel og nauðsynlegt er. Hæfilegt magn af flúortannkremi við hverja burstun er sem svarar ¼ af litlafingursnögl barnsins á aldrinum sex mánaða til tveggja ára. Eftir þann aldur er miðað við að magnið sé svipað og litlafingursnögl viðkomandi.

Tannkrem

Þó merkingum á tannkremstúpum sé stórlega ábótavant – og alla jafna vanti leiðbeiningar um rétta notkun þá er mikilvægt að átta sig á því að áhrifamesta virka efnið í tannkremi er flúor en lágur og stöðugur flúorstyrkur í munnholi er nauðsynlegur til viðhalds heilbrigði tanna. Verkun flúors er staðbundin á yfirborði tanna og varnandi áhrif þau sömu hjá öllum aldurshópum. Tannburstun með flúortannkremi að styrkleika 0,1% F-, tvisvar sinnum á dag, viðheldur lágmarksflúorstyrk í munnholi og er því afar áhrifamikill þáttur í daglegri vörn gegn tannskemmdum, hjá öllum aldurshópum. Ekki er lengur mælt með því að skola munn eftir tannburstun, það nægir að skyrpa. Þannig virkar flúorinn í tannkreminu lengur til varnar tannskemmdum. Hins vegar er mikilvægt að hafa það í huga að börn kyngja stórum hluta tannkremsins sem upp í þau fer og því er mjög mikilvægt að þau skammti sér það ekki sjálf og öruggast að geyma tannkremið þar sem þau ná ekki í það.

Flúor

Horfið hefur verið frá ráðlögðum dagskömmtum flúors til inntöku fyrir yngri aldurshópa og því almennt ekki mælt með flúortöflugjöf fyrir börn á aldrinum 6 mán. til 6 ára. Notkun flúorsogtaflna er nú bundin við áhættueinstaklinga eða áhættuhópa, þ.e.a.s. þá sem hættara er við tannskemmdum en öðrum. Ítrekað er að mikilvægt er að fylgja fyrirmælum tannlæknis varðandi flúorsogtöflugjöf barna undir sex ára aldri.

Sjá einnig: Hvað mótar neysluvenjur barna?

Tannbursti

Hvað tannbursta varðar þá er heill frumskógur þeirra á markaðnum en best er að velja tannbursta sem eru með þéttum, fínum og mjúkum hárum. Bestu burstarnir fyrir börn eru með litlum haus en með skafti sem fer vel í fullorðinshendi!

Tannþráður

Tannþráð þarf að nota jafnt á börn og fullorðna. Þegar hliðarfletir tannanna snertast er tímabært að fara að nota tannþráð. Líta má á það þannig að fimm fletir séu á hverri tönn, tannburstinn hreinsar þrjá en tannþráðurinn hina tvo.

Þekking okkar á orsakaþáttum tannsjúkdóma fer stöðugt vaxandi – og vel upplýst getum við haldið tönnum okkar hreinum og heilum ævina út. Hér áður fyrr var farið til tannlæknis þegar bora þurfti skemmd úr tönn. Í dag viljum við að gripið sé inn í áður en tönnin skemmist, eða meðan sá möguleiki er raunhæfur að endurherða byrjandi skemmd. Það er mikilvægt að fara reglulega til tannlæknis og mikilvægast af öllu að fyrsta heimsókn barns til tannlæknis sé ánægjuleg og fróðleg upplifun. Tímabært er að fara í fyrstu heimsókn til tannlæknisins áður en allar tuttugu barnatennurnar eru komnar upp þ.e.a.s. milli tveggja og þriggja ára aldurs.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

Sjá einnig: DIY: Hvítunarefni fyrir tennurnar

 

SHARE