Tekst á við félagsfælni og kvíða með snapchat

Rebekka Einarsdóttir heldur úti vinsælu förðunar„snappi“ og hefur eignast margar góðar vinkonur í gegnum snapchat. Miðilinn hefur hjálpað henni að takast á við kvíða og félagsfælni sem hún hefur glímt við sem barn.

„Ég er með rosalega félagsfælni og á erfitt með margt, en það er að lagast. Snapchat hefur hjálpað mér mikið,“ segir Rebekka Einarsdóttir, snyrti- og förðunarfræðingur, sem heldur úti snapchat-reikningi undir nafninu rebekkaeinars. Þar talar hún mikið um snyrtivörur og förðun ásamt því að farða sig reglulega. Gjarnan mjög dramatískt. Enda er það hennar stíll. Annars er Rebekka bara hún sjálf á snapchat og sýnir lífið gjarnan eins það er í raun og veru. Ekki bara glimmer og glansandi augnskuggar.

Ruslakista fyrir hugsanir

Fyrst var Rebekka með lokaðan snapchat reikning fyrir vini og vandamenn, en þegar ókunnugt fólk var farið að óska eftir að fylgja henni ákvað hún að opna reikninginn þannig allir sem vildu gætu fylgst með henni. En hún hefur einnig skrifað um förðun og snyrtivörur á bloggsíðu sinni, rebekkaeinars.is, frá árinu 2014. „Ég byrjaði að blogga því mér fannst það gaman, en var ekkert að auglýsa mig. Mig langaði að koma efni frá mér, allt um „makeup“ auðvitað. Það eru svo miklar listrænar hugsanir sem tengjast þessu. Bloggið hefur eiginlega verið hálfgerð ruslakista fyrir hugsanir,“ segir Rebekka og bendir á að förðunin sé miklu meira en að setja á sig maskara, heldur er um listræna tjáningu að ræða.

Rebekka, sem er 24 ára, fékk snemma áhuga á snyrtivörum og förðun. Hún var 13 ára þegar hún byrjaði að farða sig, og reyndar vinkonur sínar líka, en hún sá um förðunina fyrir öll skólaböllin í grunnskóla. „Þetta byrjaði bara þannig hjá mér, að ég setti á mig maskara og meik, en varð svo miklu meira. Í níunda eða tíunda bekk rogaðist ég til dæmis með lítið koffort í skólann fullt af snyrtidóti, til að hjálpa til við sminka fyrir viðburð á árshátíðinni. Það var mjög gaman.“

Kynntist kærastanum á Tinder

Rebekka er með um 3000 fylgjendur á snapchat og aðspurð segir hún töluvert áreiti fylgja því að vera með svona opinn reikning. Samt alls ekki neikvætt. „Ég fæ margar fyrirspurnir um hvaða krem eða förðunarvörur séu best fyrir viðkomandi, sem er mjög erfitt fyrir mig að svara án þess að sjá eða koma við, en ég reyni mitt besta. Ég hef ekki fengið nein ljót skilaboð, en stundum fæ ég skilaboð um að ég máli mig of mikið. En mér finnst það allt í lagi, fólk má hafa skoðun á því. Ég er ekki svona máluð alla daga, eins og ég sýni á snapchat. Þegar ég er að gera mig fína þá finnst mér rosa gaman að fara aðeins yfir línuna. Vera dramtísk. Það myndast líka miklu betur. Myndavélin verður að hafa eitthvað að grípa,“ segir Rebekka og brosir. Kærastinn hennar er duglegur að taka af henni myndir sem hún setur á bloggsíðuna sína. „Við erum mjög gott teymi í þessu,“ bætir hún við, örlítið feimnislega.

Parið hefur verið saman í ár, en þau kynntust á samfélagsmiðlinum Tinder. Hann er fyrsti kærastinn hennar og þau eru mjög ástfangin. „Þetta er mjög nýtt en mér líður samt eins og við séum búin að vera saman í sex ár. Við vorum reyndar mjög treg í þessu í fyrstu. Ég held að við höfum talað saman í tvo mánuði áður en við hittumst. Ég er sjálf mjög hæg í öllu sem ég geri. Ég vil hafa allt á hreinu og vita hvar ég stend.“

Vaknar stundum í sjokki

Rebekka hefur glímt við kvíða og félagsfælni frá því hún var hún var barn, en vinnur statt og stöðugt í því að ná betri tökum á hugsunum sínum. Að tjá sig á snapchat hefur hjálpað henni mikið þó henni hafi þótt erfitt að nota miðilinn í fyrstu. „Að stíga skrefið og tala var rosalega erfitt. Svo stundum þegar ég hef verið að taka yfir stærri „snöpp“ þá verð ég mjög stressuð, en um leið og ég er byrjuð þá er þetta allt í lagi. Þetta er svolítið eins og sviðsskrekkur. Kosturinn er að það er enginn í kringum mig að horfa á mig. Ég hef sent kærastann minn fram þegar ég er að tala á snapchat. Það er fyrst núna, eftir ár, sem ég er aðeins byrjuð að geta talað fyrir framan hann.“

Þá á Rebekka það til að hugsa mikið um það sem hún hefur verið að segja á snapchat af ótta við að hún hafi sagt eitthvað vitlaust. „Ég hef vaknað upp klukkan þrjú um nótt í sjokki yfir einhverju sem ég man eftir að hafa sagt. Þá þarf ég að fara yfir allt sem ég er búin að birta og ritskoða sjálfa mig. Stundum dettur maður nefnilega inn í hálfgerðan trans og lætur margt flakka. Ég vill ekki segja neitt vitlaust og verð alltaf að hafa rétt fyrir mér.“

Kvíðinn háði henni í vinnu

Rebekka segir kvíðann og félagsfælnina hafa háð sér mikið í lífinu, en kærastinn hennar hefur verið duglegur að hjálpa henni að takast á við vandann síðastliðið ár. „Það er mjög þroskandi að takast á við þetta,“ segir hún einlæg. „Þetta háði mér líka í vinnunni. Ég þjáðist af vinnukvíða. Ég vinn svo mikið með fólki og fyrst var það rosalega erfitt. Ég var dauðþreytt eftir daginn að þurfa alltaf að vera að hitta nýtt fólk. Svo þurfti allt að vera fullkomið hjá mér, en vinnubrögðin mín voru kannski ekki fullkomin þegar ég var að byrja. En núna er þetta ekkert mál og skil ekki af hverju þetta var svona erfitt,“ segir Rebekka sem starfar á snyrtistofunni Dimmalimm.

Henni þykir þó stundum erfitt þegar fólk á förnum vegi horfir á hana eins og það þekki hana, sem því þykir það kannski gera eftir að hafa fylgst með henni á snapchat. „Það er samt í góðu lagi. Mér þykir líka gaman þegar fólk kemur og heilsar mér, en ég get orðið rosalega vandræðaleg og horfi niður á skóna mína. Ég er samt alltaf að venjast þessu betur og betur.“

Hefur eignast góðar vinkonur

Rebekka reynir að vera einlæg og heiðarleg á snapchat, en hún gætir þess þó að deila ekki of miklum persónulegum upplýsingum. Hún heldur sig meðvitað innan ákveðins ramma. „Fyrst þegar ég var að byrja þá bjó ég ómeðvitað til einhverja aðra manneskju, en svo sagði systir mín við mig að ég talaði öðruvísi á snapchat en ég gerði í alvörunni. Þá fór ég að hugsa af hverju ég væri að þykjast vera önnur en ég er og breytti alveg um stíl. Nú er þetta bara ég að dúlla mér.“

Hún hefur eignast margar góðar vinkonur í gegnum snapchat, sem allar eiga það sameiginlegt að verða förðunar- og lífsstíls„snapparar“. „Þetta er fólk sem ég hefði örugglega aldrei kynnst annars, með mína félagsfælni. Ég hefði ekki lagt í að tala við þær. En það er auðveldara að senda fólki skilaboð í gegnum snapchat. Við hittumst allar reglulega og það er góður mórall í hópnum.“

Þær leita ráða hjá hver annarri, til dæmis hvernig eigi að bregðast við ljótum skilaboðum, og eru hver annarri stuðningur í mörgu sem þær taka sér fyrir hendur. „Það er stundum erfitt að vera einn með allt þetta fólk, sem maður þekkir ekki, að fylgjast með manni. Þess vegna er gott að hafa kjarna sem maður getur leitað til. Svo tengir maður meira við sumar og talar jafnvel við þær á hverjum degi,“ segir Rebekka, þakklát fyrir nýja vinahópinn sinn.

 

Rebekka heldur úti bloggsíðunni rebekkaeinars.is og hægt er að fylgjast með henni á snapchat: rebekkaeinars.
Mynd/Rut

 

Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE