Þakklát á aðventunni

Nú þegar aðventan er gengin í garð og styttist í jólin er miklvægt að hafa aðgát í nærveru sálar. Það er ekki allir sem hlakkar til jólanna. Þar að baki geta legið margsskonar ástæður eins og t.d bág fjárhagsstaða, veikindi, ástvinamissir og annað sem reynist fólki erfitt.

Þessi aðventa er bæði og hjá mér, full af eftirvæntingu en líka lituð kvíða.

Mín leið til að gera aðventuna mína sem besta er að iðka þakklæti. þakklætisiðkun er eitthvað sem ég hef ástundað síðustu ár og hef komist að því að máttur þakklætis er ótrúlega mikill.

Það er alls ekki hægt að vera reiður eða gramur þegar maður er þakklátur og ef maður er þakklátur verða erfiðleikarnir auðveldari viðureignar og mér tekst engan veginn að vera fórnalamb aðstæðna þegar ég er þakklát. Að iðka þakklæti er eitt af mínum vopnum þegar lífið tekur dýfu og eitt af því sem ég ylja mér við þegar lífið leikur við mig.

Hvernig komst ég á þennan stað og hvernig iðkar maður þakklæti?

Ég á mér þakklætisbækur, fallegar stílabækur gjarnan innbundnar sem ég skrifa niður helst daglega þakklæti dagsins. Bara þakklæti fyrir hversdags hlutina eins og tannburstann, kaffibolla, 10 fingur og annað í þeim dúr en á hverri einustu síðu eru líka sérstök atriði eins og dásamlegt samtal við vinkonu, hamingjustund með eiginmanninum, ömmubarnið sem söng svo fallega og svo framvegis.

Það sem gerist þegar maður þakkar fyrir hversdags hlutina er að aðrar stundir verða svo miklu innilegri og stærri.

Stundir sem ég tók ekkert sérstaklega eftir áður en ég byrjaði að iðka þakklæti af því þær voru svo sjálfsagðar en ég hef lært að hver stund er dýrmæt og ekkert sjálfsagt við það að yfirleitt fá stund með einum eða neinum.

Önnur leið sem ég nota er þakklætisbox, ég á óskaplega fallegt box sem er fyrir allra augum alla daga hér á heimilinu í þessu boxi eru litir miðar þar sem ég hef skrifað þakklæti vegna einhvers og sett í boxið, þegar lífið tekur dýfu er ótrúlega gott að draga sér miða til að muna eftir því að það er alltaf eitthvað að þakka fyrir.

Ég þakka líka sérstaklega fyrir erfiðleikana og þau verkefni sem lífið gefur mér, ég á jú lífinu að þakka þann þroska sem ég hef öðlast.

Mín von er sú að þessi litli þakklætispistill nýtist einhverjum til að auðga líf sitt.

Ég er þér, lesandi, þakklát fyrir að lesa þessar línur.

Ást og friður

SHARE