Þjóðarsálin: Keypti ónýtan bíl á 600.000 á Facebook

ATH. Þessi grein er aðsend. Lesendum er frjálst að senda inn greinar undir nafnleynd í Þjóðarsálina, en þær skoðanir sem birtast hér í Þjóðarsálinni endurspegla hvorki ritstjórnarstefnu né skoðanir HÚN.IS 

Mig langar að segja ykkur frá virkilega leiðinlegu atviki sem ég lenti í. Það var þannig að í júní 2013 tók ég þá stóru ákvörðun að kaupa minn fyrsta bíl. Ég sá auglýsingu á facebook, ákvað að forvitnast aðeins og sendi eigandanum póst til að spyrja um verð, hann svaraði mér um hæl og sagði að bíllinn færi á 600.000. Ég spurði eigandann, sem reyndar er frændi minn, hvort að bíllinn þarfnaðist einhverra viðgerða en hann svaraði því neitandi og sagði bílnum hafa verið vel viðhaldið. Hann sagði að skipt hefði verið um tímareim í desember og bíllinn í góðu standi.

Tók stuttan prufuakstur

Ég fékk því pabba í lið með mér og fórum við að að kanna hvort ég gæti tekið lán til þess að ganga frá kaupunum. Að því loknu fékk ég eiginmann frænku minnar til að skoða bílinn með mér, en hann er með mikið vit á bílum og vélknúnum tækjum og veit upp á hár hvað hann er að gera í sambandi við alla bíla. Hann spurði eigandann meðal annars hvort að bíllinn brenndi olíu en hann neitaði því ákveðið. Eftir stuttan prufuakstur og eftir að hafa kíkt undir bílinn, í húddið og kannað hann í bak og fyrir varð því úr að ég keypti bílinn en hann fékk ég á 580.000 vegna þess að við skoðun sáum við að pakkdós lak því var verðið lækkað ögn.

Ljós í mælaborðinu kviknaði eftir tvo daga

Ég fór heim mikið glöð með fyrsta bílinn sem að sjálfsögðu leit vel út og átti að vera í topp standi. Eftir að hafa ekið stolt um á „nýja“ bílnum mínum í tvo daga þá kviknaði ljós í mælaborðinu sem sagði að það vantaði olíu á vélina. Ég fór að spyrjast fyrir og var mér bent á að fara með hann í smurningu það væri kominn tími. Ég fór því með bílinn í smurningu, þar sem m.a. var sett á hann olía. En aðeins 6 dögum síðar var aftur farið að loga ljós í mælaborðinu.

Olían kláraðist samdægurs

Ég fór því beinustu leið á verkstæðið aftur til að spyrjast fyrir en þeir skildu ekkert í þessu þar sem þeir hefðu kannað hvort hann læki einhverstaðar en svo væri ekki, svo þeir héldu kannski að það hefði bara vantað svona gríðalega mikla olíu þegar ég fór með hann fyrst til þeirra og það hefði allt farið inná vélina, þeir fylltu hann aftur af olíu og sögðu mér að fylgjast vel með. Ég skundaði i Herjólf þar sem ég var á leið í smá ferðalag, en eftir að hafa ekið frá Landeyjahöfn á Hellu var öll olía farin af vélinni, ég bætti á eins og þeir höfðu sýnt mér og hélt í Hafnarfjörð.

 „Þetta er ekki mitt mál“

Morguninn eftir var förinni heitið til Keflavíkur að sækja farþega, ég byrja á því að stoppa á bensínstöð til að kanna stöðuna og aftur vantaði olíu, þarna var mér hætt að lítast á blikuna en keyrði til Keflavíkur sótti farþegana og hélt afstað til Landeyjahafnar. Á leiðinni varð ég að stoppa tvisvar til að bæta á hann olíu. Þar með var það orðið fullljóst að eitthvað mikið var að. Ég hringdi í pabba og setti málið í hans hendur, hann hafði samband við fyrri eiganda en það eina sem hann sagði var „þetta er ekki mitt mál“ því að ekkert hefði verið að bílnum þegar hann seldi hann. Síðan bætti hann við „þegar maður selur bíl þá getur maður aldrei sagt alla sjúkrasöguna því þá myndi maður aldrei selja bílinn“.

Laug til um „sjúkrasögu“ bílsins

Eftir að hafa fengið þessi svör var farið að athuga betur með bílinn og þá kom ýmislegt í ljós. Ástæðan fyrir því að skipt var um tímareim var sú að reimin hafði slitnað og við það hafði vélin laskast. Einnig kom í ljós að bíllinn hafði verið lengi á verkstæði vegna bilunnar en það fannst honum ekki þörf á að nefna þrátt fyrir að hafa ítrekað verið spurður. Þegar þarna var komið hafði ég samband við lögfræðing sem fór fram á riftun á samningnum en fyrri eigandi neitaði.

Fór í mál við seljandann

Ég skilaði því bílnum og stefndi honum fyrir dóm vegna leyndra galla. Þess ber að geta að eigandaskipti fóru aldrei fram vegna þess að mér tókst að stöðva þau og læsa kennitölu minni áður en eigandaskiptin gengu i gegn og ég því aldrei verið skráð sem eigandi bílsins. Þegar að málið var tekið fyrir komu bifvélavirkjarnir sem höfðu smurt bílinn fyrir mig og báru að bíllinn hefði brennt allri olíunni á aðeins sex dögum og engin leið væri að ég hefði geta valdið þessum skaða á þeim örfáu dögum sem ég keyrði bílinn innanbæjar og það í Vestmannaeyjum þar sem vegalengdirnar eru frekar stuttar. Einnig kom fram að nokkrum dögum áður en ég keypti bílinn hefði hann verið á verkstæði og átti eigandinn að prufukeyra hann en það gerði hann aldrei heldur seldi mér hann án þess að ganga úr skugga um að allt væri í lagi.

„Frændur eru frænkum verstir“

Því miður fór það svo að dómurinn var mér í óhag og því sit ég uppi með ónýtan bíl ásamt kostnaði upp á hundruðir þúsunda. Alveg sama við hvaða bifvélavirkja eða menn ég tala þá er sagan alltaf sú sama, enginn getur í raun skilið hvernig hann gat komist upp með þetta, engin leið hafi verið að sjá þennan galla í ástandsskoðun, það þyrfti að keyra bílinn til þess að komast að þessu. Í góðri trú keypti ég notaðan bíl af frænda mínum, fyrsta bílinn minn sem átti að duga mér í nokkurn tíma. Þess í stað sit ég eftir með sárt ennið, bíldruslu sem ekkert gagnast mér og frænda sem sannar það að „frændur eru frænkum verstir“

Ég spyr mig því, eru peningar að gera menn að fíflum, er græðgin á Íslandi að ganga frá mönnum sem skammast sín ekkert fyrir að svindla á öðrum svo lengi sem þeir græða á því, já maður spyr sig hvað fær menn til að gera svona?

Ert þú með frásögn sem þig langar að birta undir nafnleynd í Þjóðarsálinni? 
Sendu okkur þína sögu á ritstjorn@hun.is

Tengdar greinar:

Fólk er ótrúlega tilætlunarsamt og frekt

Er þetta ekki misnotkun

Öryrki sem er að gefast upp

SHARE