Þjóðarsálin: Skilnaður foreldra…

Af hverju skilja foreldrar? Þessu er ekki auðveldlega svarað af því að það geta verið svo margar ástæður á bak við það…

Ég er 16 ára stelpa sem er að verða 17 ára á þessu ári og langaði að koma þessu frá mér, smá pælingar og saga frá skilnaði foreldra minna…
Ég sat við eldhúsborðið og var að ræða fjármál við mömmu mína og var svo svekkt yfir því að eiga engan pening og væri hrædd við það að lenda illa í peningamálum í framtíðinni, en mamma mín sagði við mig að ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu. Ég byrjaði að hugsa út í það sem hún var að segja og þá sagði mamma mér að hún og pabbi hefðu tekið sameiginlega ákvörðun. Ég fattaði þá strax hvað hún var að fara að segja af því að ég hafði séð þetta fyrir mér í svo mörg ár, öll vandamálin sem við vorum búnar að ganga í gegnum og öll vanlíðanin sem sat eftir hjá okkur öllum. Ég beið bara eftir því að mamma myndi segja þetta við mig og hún sagði það; hún sagði að þau væru að skilja.
Ég var ekkert sár þarna á þessum tímapunkti en næstu daga fór ég að verða þyngri og þyngri af því að ég áttaði mig einhvernveginn ekki almennilega á því að þetta væri að fara að gerast. Mamma og pabbi voru ennþá í sama húsi og við borðuðum ennþá saman á kvöldin, en síðan fór ég að taka eftir því að allt var breytt eftir að mamma sagði mér þetta. Ég fór að taka eftir hegðun mömmu og pabba á heimilinu, þau töluðu ekkert saman og voru oftast ósammála um allt.

Það versta var að ég á yngri systkini sem vissu þetta ekki þá og þess vegna var svo erfitt fyrir mig að þurfa að horfa upp á þetta á hverjum degi. Ég hætti að borða með þeim á kvöldin af því að það særði mig svo að ég vissi þetta en ekki systkini mín og ég gat ekkert sagt neinum og mátti ekki segja neinum strax. En það sem særði mig mest var það að mamma mín sagði mér bara frá þessu, hún gaf pabba ekki tækifæri á að vera með í þessu og segja mér frá þessu, það hefði verið allt annað.

Eftir því sem dagarnir urðu fleiri því þyngri varð ég en ég ákvað að ég verð að ganga í gegnum þetta og hætta að hugsa svona mikið um þetta, því ég verð að hugsa um mig en ekki þeirra vandamál. Þetta auðvitað bitnar mjög mikið á mér og sérstaklega þegar það er búið að draga mig inn í þennan skilnað, mamma talar við mig um pabba og hvað er í gangi hjá þeim og pabbi gerir alveg það sama, en ég get ekki séð það að þau tali eitthvað saman um þetta… það er ekki gott að barnið blandist inn í þetta vandamál þeirra.

Mér fannst þetta alls ekki gaman og þetta varð bara til þess að vanlíðan mín varð meiri og meiri. Ég get ekki alltaf ábyrgst öll vandamál á heimilinu og ég get ekki alltaf verið inn í öllum vandamálum sem koma mér ekkert við, þetta er þeirra vandamál og á að vera það, ekki mitt.

Skilnaður foreldra á ekki að vera svona svo að ég ætla að biðja foreldra sem eru að hugsa um að skilja eða eru að fara að skilja og eru ekki búnir að segja börnunum sínum frá þessu: Gerið það ekki blanda börnunum ykkar inn í skilnaðinn ykkar, þið verðið auðvitað að segja þeim frá þessu en þið þurfið ekki að tala við barnið ykkar um hvað þið hefðuð getað gert betur eða hvernig þér líður með þetta og svo framvegis… leyfið börnunum ykkar að blómstra áfram þó að þið blómstrið ekki akkúrat á þessu augnabliki.

Þið vitið að þið eruð að draga börnin ykkar niður ef að þið eruð að segja þeim eitthvað sem þau eiga ekki að vita eða eitthvað sem þeim kemur bara alls ekki við.
Núna eru þessir dagar búnir sem ég þarf að halda þessu öllu inn í mér og núna get ég talað opið um þetta, mamma og pabbi eru búin að segja mínum systkinum frá þessu. Þau eru töluvert yngri en ég og þess vegna er langerfiðast fyrir mig að þurfa að ganga í gegnum skilnað foreldra minna og sérstaklega þegar mér er blandað inn í þennan skilnað.

Ég er svo ánægð með það að systkini mín þurfi ekki að blandast svona inn í þetta og vil ég þeim það allra besta! Mamma og pabbi búa núna á sitt hvorum staðnum og núna taka við ný og erfið tímamót í lífi okkar allra. Ég þarf bara að standa upp aftur og halda áfram með mitt, mína peninga, mína vinnu, minn fótbolta og mínar hugsanir. Ég á ekki að hugsa um mömmu og pabba, þau eru fullorðna fólkið og þau eiga að vera mest þroskuð í þessari fjölskyldu.

Við erum ennþá fjölskylda þó að mamma og pabbi séu ekki saman, pabbi er ennþá pabbi minn og mamma er ennþá mamma mín og þau verða það alltaf, mér þykir ennþá jafn vænt um þau bæði og það mun ekki breytast neitt!
Ég vildi skrifa þetta og koma þessu frá mér af því að það er orðið alltof mikið um skilnaði sem fara illa og að börnin lendi í skilnaði foreldra sinna og fá að vita eitthvað sem þau hefðu aldrei átt að vita…
Vonandi ber þetta einhvern árangur og ég vona að þið, kæru foreldrar, hugsið aðeins áður en þið biðjið um skilnað, hugsið líka sérstaklega um börnin ykkar. Ekki bara hugsa um ykkur, ykkar líf, ykkar peninga og svo framvegis.

Foreldrar, ekki „gleyma“ börnunum!

SHARE