Þú skalt vita þitt virði!

Það hefur verið afar hugleikið hjá mér, þá sérstaklega að undanförnu, hvernig fólk og ég sjálf þar með talin er að meta minn eigin verðleika. Hvað getur maður gert, svo aðrir virði mann eins og maður vill helst.

Maður getur byrjað á því að kasta fram setningunni “hvernig getur þú ætlast til þess að einhver annar virði þig ef þú gerir það ekki sjálf/ur?”. Það er þó afar mikil einföldun. Enginn hefur sagt að lífið sé alltaf dans á rósum, þrátt fyrir að mér hefur alltaf þótt það skrítin setning fyrir lífið, því það hreinlega getur ekki verið æðislegt að dansa á rósum.

Raunin er sú að lífið er aldrei alltaf auðvelt og það er alveg sama um hvern ræðir. Ég hef staðið í krónunni eða örðum stöðum þar sem fólk úr öllum stéttum landsins mætast og horft á fólk. Einn maður hafði mætt á 20 milljón króna sjálfrennireið í búðina, í jakkafötum, labbandi teinréttur og með höfuðið hátt, á meðan aðrir voru í búðinni í náttfötunum, lítandi út fyrir að hafa verið að skríða fram úr rúminu til þess eins að kaupa brýnustu nauðsynjar. Til þess eins að fara svo inn í Toyota Corolla bílinn sinn, árgerð ’94 og aka heim í leiguíbúðina sína. Get ég dæmt um hvernig þau hafa það?

Hægt er að álykta endalaust með því einu að horfa á fólk. Láta ímyndunaraflið leika lausum hala og sagt við okkur sjálf að þessi hafi það gott og að hinn hafi það pottþétt slæmt. Við erum víst svolítið upptekin af glansmyndum og staðalímyndum að mörgum okkar langar ekki að veita sjálfum okkur þeim óþægindum að horfa aðeins lengra. Sleggjudómar? Nei!

Sjá einnig: Staldraðu aðeins við

Er verðmiðinn ekki í efnislegum gæðum eða veita efnisleg gæði okkur ekki hamingjuna? Reynir þú stundum að segja þér það? Það er ekki furða að fólk Íslands spyrji sig að því einstaka sinnum. Er kannski einhver skortur á því að fólk sé sátt við það sem það á?

Gæti mögulega verið að þú ert að verðleggja þig of lágt? Hver gæti verið ástæðan fyrir því að þú ert ósátt/ur við tilveruna þína eins og hún er í dag? Ert þú ósátt/ur við innkomuna þína, ert þú að eyða um efni fram, ert þú tilbúin/nn eða ekki tilbúin/n til að leggja þig verulega fram til þess að skapa þér þá framtíð sem þú óskar þér? En ertu að taka ábyrgð á þér?

Sjá einnig: Samfélagsmiðlar og eftirsjá

Getur verið að þú sért að varpa ábyrgðinni á þínu eigin lífi yfir á aðra? Einföldunin væri: “Ertu að kenna öðrum um hvernig líf þitt er?”.

Tölum aðeins um tilfinningar!

Þú berð ábyrgð á þér. Hún er vissulega misþung eftir aðstæðum. Þú getur verið að ganga í gegnum heljarinnar þrautagöngu í lífi þínu og átt jafnvel erfitt með að ímynda þér hvaða skref þú átt að taka næst. Þig langar kannski að gefast upp og leggja höfuðið þitt á koddann, sængina þína upp yfir haus… að eilífu! Varpa tilfinningum þínum á ábyrgð annarra, óska þess að aðrir höfðu gert eitthvað svo þínar aðstæður væru ekki eins og þær eru í dag. En, veistu…

Það er enginn sem getur stjórnað okkar lífi og okkar örlögum, nema við sjálf. Það getur margt spilað inn í, en á endanum eru það við sjálf sem sköpum okkar vellíðan og framtíð. Okkur líður illa út af því hvernig aðrir koma fram við okkur. Okkur líður stundum illa vegna þess að við trúum því sem aðrir segja um okkur. Okkur líður stundum illa vegna þess að fólk kemur ekki fram við okkur eins og við viljum láta koma fram við okkur. En hver ber ábyrgð á því hvernig þér líður í raun? Ertu að láta aðra stjórna þinni líðan?

Sjá einnig: Þú munt aldrei vera tilbúin/n – Gerðu það samt!

Langar þér ofsalega mikið að aðrir taki þér á vissan máta og virði þig að verðleikum? Hvernig getur þú gert það? Einfaldasta svarið er að þú verður að virða sjálfa/n þig nógu mikið og taka trausta tökum á tilverunni þinni. Ekki leyfa örðum að stjórna vellíðan þinni, með því að koma illa fram við þig. Er ekki verið að koma vel fram við þig í vinnunni þinni? Hættu þá, því það er ekki hægt að ætlast til þess að vinnuveitendur beri meiri virðingu fyrir þér en þá virðingu sem þú hefur fyrir þér sem starfsmanni!

Pössum okkur samt sem áður að horfa ekki á lífið í gegnum rör. Það er svo miklu stærra og meira, en þær skorður sem við erum búin að setja það í. Við setjum okkur viðmið og eru oftar en ekki tilbúin til að horfa á stærri mynd en þá mynd sem við erum sjálf búin að skapa okkur, með okkar eigin hugsunum og annarra. Með því völdum við okkur meiri vanlíðan.

Lífið er endalaus vinna og þitt eigið hugarfar stjórnar því hvaða veg þú kýst feta. Ekki dæma aðra án þess að láta þér varða um hvað í manneskjunni býr. Talaðu þínu eigin máli, hlustaðu á aðra, en treystu þér til þess að takast á við þína framtíð, því enginn annar gerir það fyrir þig.

Við erum okkar eigin klappstýrur og þegar á botninn er hvolft, skaltu vera viss um að þú hafir sannað fyrir sjálfum þér hvað í þér býr, því það sem skiptir mestu máli fyrir þér, ert þú! Ég er móðir, ég er systir, dóttir, frænka, barnabarn, vinur, kunningi og svo margt annað. Ég hugsa mikið um lífið, eins og svo margir aðrir. Reyni að loka á alls konar tilfinningar, finnst ég buguð, fátæk, lifuð, brotin stundum, en ég veit að mér gefst alltaf færi á að gera betur á morgun. Niðurstaðan: Þó að tilveran sökkaði í dag… þá verð ég að gera eitthvað til að gera hana betri á morgun og ég veit hvar ég byrja. Á mér og ég get bætt mig, alveg eins og þú, fyrir þig, svo þú getir verið sterkari.

Fegurðin er í fjölbreytileikanum elsku lesendur. Þú fæddist ekki til þess að vera eins og aðrir, en þú berð ábyrgð á því að þínar bestu hliðar fái að skína. Aðfinnslur annarra ert ekki þú. Heyrir þú röddina sem er að tala við þig í huganum? Er það þín rödd og ert þú að segja þér að þú eigir ekki skilið eitthvað betra?

 

SHARE