Tilkynning frá lögreglunni

Lögreglan á Akureyri, Dalvík og Fjallabyggð sendi út eftirfarandi tilkynningu sem okkur langaði að deila með þér lesandi góður:

Okkur langaði að deila smá með ykkur. Nú nýverið varð umferðarslys á Akureyri og oft þegar slíkt gerist verðum við að loka ákveðnum götum eða stöðum til að forða frekari hættu og til að við getum aðstoðað viðkomandi á sem bestan og öruggastan hátt. Oft þurfa lögreglumenn að standa lengi úti og leiðbeina ökumönnum um aðrar leiðir og úrræði. Eldri kona sem að býr þarna skammt frá kom út eftir að gatan hafði verið lokuð í nokkurn tíma og spurði hvort að lögreglumaðurinn vildi ekki eitthvað að drekka. Á þessum tilteknu gatnamótum höfum við stundum þurft að loka í langan tíma og við athugun þá áttu fleiri lögreglumenn slíka sögu af viðkomandi konu og rifjaðist upp er lögreglumenn höfðu eitt sinn unnið lengi á slysavettvangi þarna skammt frá í mjög miklu frosti og hvassviðri og voru að ljúka störfum, þá kom konan út með kaffi og hafði það á orðið að við hefðum örugglega gott af þessu. Menn þáðu kaffið með þökkum. Núna síðast þá þakkaði lögreglumaðurinn konunni fyrir gott viðmót í garð okkar og hafði konan þá á orði að ef við þyrftum að stoppa þarna aftur, sérstaklega á veturnar þá ættum við bara að banka og hún myndi sko hella upp strax. Frábært að rekast á svona fólk.

SHARE