Törutrix| Veistu hvað leynist í förðunarpenslinum þínum?


Flestir eiga einn eða fleiri förðunarpensla í snyrtitöskunni sinni. Þið kannist væntanlega við það að eftir hverja notkun á penslinum, hvað hann verður skítugri og þykkari og erfiðari í notkun.

Ástæðan fyrir því er að það safnast fyrir efni í penslinum eftir hverja notkun. Þá er ég ekki einungis að tala um meik, farða, augnskugga eða varaliti heldur líka fitu, óhreinindi og bakteríur. Allt þetta gerir það að verkum að pensillinn gerir ekki það sem hann á að gera og skemmist. Ef þú notar lengi sama pensilinn án þess að þrífa hann getur hann valdið því að húðin verður slæm og bólótt og valdið ýmsum sýkingum í augum og andliti.

Hvort sem við erum reyndir förðunarfræðingar eða fólk sem farðar sig varla neitt þá þurfa allir að passa uppá hreinlæti þegar kemur að förðun. Það er gott að nota burstahreinsi sem fæst frá flestum merkjum eða handspritt (passa að nota ekki of sterkt) eftir hverja notkun.

En einu sinni til tvisvar í mánuði er gott að þrífa penslana vel. Þá er gott að nota sjampó eða það sem mér finnst mjög gott að nota, uppþvottalögur, og hreinsa vel úr penslinum og setja smá hárnæringu eftir á til þess að mýkja hárin.

Það hefur verið vinsælt að fólk blandi saman olíu og uppþvottalegi saman til að hreinsa pensla. Ég mæli ekki með olíunni og ástæðan fyrir því er að hún getur losað límið sem heldur hárunum föstum á penslinum. Einnig getur olían orðið eftir í penslinum og blandast í það sem þú setur á andlitið og þá getur allt runnið til.

Ég gerði stutt og hnitmiðað video hvernig ég þríf penslana mína og sýni ykkur nokkur Törutrix í leiðinni.

Endilega kíkið á videoið mitt ef þið viljið læra hvernig ég geri.

 

SHARE