Túrbanklædda hetjan og töffarinn frá Íslandi

Svo ég smellti í flugmiða fyrir okkur Rassa fyrir jól. Greiddi upp hótelið í október, stillti ferðatöskunni hátíðlega upp nokkrum vikum fyrir brottför, þreif allt og skrúbbaði heima fyrir áður en til ævintýra var haldið.

Það er ekki oft sem ég eyði jólunum fjarri fóstjörðinni. Reyndar hef ég bara einu sinni gert það áður. Í það skiptið var eg komin myndarlega langt á leið, rauk með Rassa litla í myndarlegri bumbunni gegnum rokið á Keflavíkurflugvelli rétt fyrir hátíðir og kastaði mér upp í flugvél, lafmóð og hressilega ólétt.

Ekki renndi mér í grun þegar ég flaug til Kanaríeyja – þá ólétt – að ófætt barnið ætti eftir að fylgja móður sinni um víða veröld, eignast vegabréf tveggja ára að aldri og státa af tveimur móðurmálum um það leyti sem hann hóf göngu í grunnskóla.

Það er svo margt sem augum okkar er hulið og vindur ofan af sér á langri lífsleið. Ekki ætlaði ég mér að verða móðir að öðru sinni rétt áður en ég fagnaði fertugsafmælinu mínu, því síður að segjast ekkja né heldur að flytja til Noregs. Þegar ég var yngri að árum var ég staðráðin í að flytjast til Sikileyjar, dansa léttstíg um með kvenlegan vindling í hönd og daðra við mafíósa.

Sikiley, svarthærður svaðilfari og svo harpan. Hljóðfærið. Kannski kontrabassi. Jazz á miðnætti, konuhlátur í fjarska og mikilfenglegur árangur á ógreinilegri en afar glæstri framabraut.

En svo small lífið á. Ég er enn við heilsu, á tvo fallega drengi og fagnaði jólunum með fjölskyldunni í Kaupmannahöfn í ár. Dró hátíðleg fram spariskónna nokkrum klukkustundum fyrir brottför, hagræddi vegabréfunum, tróð trefli upp á barnið og arkaði út í norska nóttina rétt fyrir sólarupprás. Tók lestina til flugvallarins og sofnaði á miðri leið.

Auðvitað er ekkert einleikið hversu flókið og margþætt verkefni það eitt er að ferðast með atorkumikinn, sex ára gamlan dreng að nóttu til. Þannig flæktist ég í lestarþrepinu þegar ég steig út (hljóp) á eftir öskrandi Rassa sem glaðbeittur stormaði á vit ferðalagsins, – langt á undan móður sinni og þannig rann ég tígurlega beint niður  á milli lestar og palls og fór í spígat á pallinum.

Vinstri fóturinn hafnaði á lestarpallinum en hægri fóturinn rann niður, milli lestar og palls – niður  i ljóta gatið – alveg niður á teina … en sá vinstri varð eftir ofanjarðar … og svo hvarf ég. Öll.  Sjónum allra. Í nokkrar sekúndur. Ég hvarf. Bara gufaði upp. Rann undir lestina þegar ég steig út og ekkert sást nema einn fótur.

Mig rámar örlítið í atvikið; túrbanklæddur, skelfingu lostinn öryggisvörður sem reif mig upp af heljarinnar afli, lagði mig á jörðina, starði svo djúpt í augu mín og mælti á norsku með indversku ívafi; þarftu á hjólastól að halda, fröken?

Ég á enn svo bágt með að trúa atvikaröð að ég kann vart að lýsa því hvað gerðist. Enda sá Rassi litli þetta mun betur en ég, sem sá ekkert eitt augnarblik nema lestarteina og stórbrotið vélavirkið undir lestarferlíkinu, túrbanklæddan karlmanninn og seiðandi brún augun sem leituðu eftir áverkum á marinni sálu minni eftir lestarslysið ógurlega.

Að mig minnir var túrbanklæddi sjarmörinn miðaldra og er eflaust ekki eins seiðandi í daglegu lífi og mér þótti þarna þetta augnablik meðan augu okkar mættust og ég stundi upp orðunum: Nei, þetta er allt í lagi – ég er töffari og er að keyra á tæpu tímaplani hérna, ég hef engan tíma fyrir neina vitleysu núna.

Einhverjir halda mig eflaust vera að ýkja núna – ég hljóti að hafa runnið eilítið til á pallinum en ekki flogið undir lestina – að maðurinn hafi bara gripið lauslega í hendina á mér og að ég hafi að lokum verið studd inn á flugvöllinn. Á hækjum. Að orð mín um töffaraskap hafi aldrei verið látin falla og að ég hljóti að hafa misst af vélinni í ofanálag.

En þetta er dagsatt. Ég sagði indverska túrbaninum að ég væri töffari. Að ég hefði engan áhuga á slysum og að ég yrði að ná flugvél í snatri. Þess utan ætti ég eftir að kaupa allar jólagjafirnar og hvort maðurinn gerði sér grein fyrir því að Þorláksmessa væri runnin upp.

Hversu skrýtið sem það er; hversu vel sem ég hef lagt á ráðin gegnum tíðina og hversu fyrirsjáanleg sem ég tel viðbrögð mín vera – þá kem ég sjálfri mér sífellt á óvart. Ekki að ég hafi nokkru sinni reiknað með því að ég myndi falla undir lest í erlendri borg á leið út á pallinn – aldrei gerði ég ráð fyrir því að orðin ég er töffari myndu hrynja af vörum mínum, bæri slys að höndum og því síður að ég gæti haldið óslitinni ferðaáætlun þrátt fyrir rassaköst, borugang og innileg faðmlög við túrbanklæddan bjargvætt að nóttu til.

Yrði ég spurð hvaða tilfinningar fóru gegnum huga minn þegar atvikaröð var yfirstaðin, þegar á undursamlegt hótelið í Kaupmannahöfn var komið og við Rassi litli í órafjarlægð frá öllum augljósum hættum; væri svarið sennilega þakklæti og undrun. Auðmýkt yfir þeirri staðreynd að ekki fór verr, endurnýjuð trú á ljósöflin sem sáu mér fyrir túrbanklæddum bjargvætti sem með styrkum höndum forðaði mér frá bráðri limlestingu rétt áður en helgasti tími ársins rann í garð. Móðurlegt stolt yfir viðbrögðum drengsins sem leit umhyggjusamur á mig þar sem ég skakklappaðist í átt að landganginum með handfarangurinn og sagði: Mamma, ég skal taka töskurnar núna.

Ég geri mér þægilega grein fyrir því – nú þegar hátíðir eru yfirstaðnar að í sjálfu sér hefði ég getað kveinkað mér og gólað, vandræðast yfir bölvuðum lestarpallinum og svo þeirri staðeynd að morgunflug ætti að banna með öllu, þar sem allflestir mæta vansvefta í flug fyrir hádegi. Viðhorfið eitt hefði svo nægt til að eyðileggja jólin. Þetta fallega ferðalag. Og ævintýrin á Strikinu hefðu aldrei fæðst. Undursamlega jólamáltiðin sem systir mín og eiginmaður hennar reiddu fram af kostgæfni, fallega tívolíferðin og allur barnahláturinn hefði farið hjá mér. Þess í stað hefði ég kjökrað á hótelinu – sent nokkur vel valin orð út í bláinn – og stormað svo hundfúl heim í janúar.

Ég kaus þess í stað að dásama snögg og myndarleg viðbrögð þess túrbanklædda sem bjargaði mér. Kærleiksríkt faðmlag skelfingu lostins sex ára gamals sonar míns sem ákvað að bera allan handfarangurinn einsamall meðan ég haltraði í humátt – það einstaka lán sem yfir mér vakti sem forðaði mér frá beinbroti á ögurstundu og svo þeirri staðreynd að ég get í dag, hlegið.

Þannig, á svo marga vegu – tel ég lífið vera i raun. Varðað ævintýrum og áföllum, undarlegri atvikaröð og svo því óskipta valdi til að velja eigin viðhorf í öllum aðstæðum, óháð alvarleika kringumstæðna. Lífinu hef ég enga stjórn á – en síðasta orðið á ég alltaf sjálf. 

Þakklæti er mér efst í huga eftir hrakfarir mínar á Þorláksmessu en vænst þykir mér þó um húmorinn sjálfan, því gæti ég ekki hlegið að eigin hrakförum, væri lífið svo ægilega einlitt. Móðir mín, sem oft áður, kenndi mér enda að hollast væri mér að hlæja þegar eigin ófarir ber að garði og benti mér á að húmorinn væri svo heilandi afl. Það var hún sem kenndi mér að hættulegastur væri sá maður sem gæti ekki hlegið að sjálfum sér. Þar átti hún ekki við að mér væri hollast að vera sprelligosi sem sprengir prumpublöðrur fram á elliár, heldur var hún að vísa í vonina sem fólgin er í þeim eiginleika að geta enn hlegið að eigin vitleysistöktum.

Gleðilegt komandi ár, elsku vinir og hjartans þakkir fyrir lesturinn á því liðna. 

Ástarkveðjur frá Kaupmannahöfn!

Tengdar greinar:

10 atriði sem hamingjusamt fólk gerir öðruvísi en aðrir

Jólaminning frá árinu 1940

Áhrif neikvæðrar orku á líf þitt og hvernig hún er hreinsuð

SHARE